Eftirspurn eftir svikum og prettum er meiri en framboðið

Hér áður fyrr sá ég um bókhald fyrir ýmsa aðila og gerði skattskýrslur fyrir þá sem slíkt þurftu. Í dag hjálpa ég örfáum vinum og kunningjum sem ekki nenna að setja sig í það einfalda verk að telja fram.

Rétt eins og hjá mér kemur það fyrir um áramót að fólk er með nær tóma reikninga í bönkum. Í sjálfu sér hefði engu máli skipt hvort reikningarnir væru í Landsbankanum við Austurstræti, Luxemborg, Jómfrúareyjum eða einhverjum öðrum stað í víðri veröld. Þeir hefðu verið jafn tómir fyrir því.

Sammerkt eiga allir þessir sem ég taldi fram fyrir að hafa gert skattayfirvöldum grein fyrir eigum sínum í bönkum sem yfirleitt voru íslenskir, en í undantekningartilvikum útlendir.

Þetta þýðir að eignir í bönkum voru skattlagðir samkvæmt fjárhæð þeirra, skattstofninum eins það heir víst. Í dag er það svo að allar eignir í íslenskum bönkum koma sjálfkrafa fram á skattframtölum. Um fjárhæðir og skatta vegna þeirra er því útilokað að deila. Jafnvel er það svo að alþjóðlegur samningur er í gildi um sjálfvirka upplýsingaskyldu um bankareikninga Íslendinga erlendis.

Nú hef ég aldrei talið fram fyrir neinn sem hefur geymt peninga á þeim stöðum sem kallast skattaskjól, að minnsta kosti ekki vitandi vits.

Hitt vita allir að hafi einhver talið fram á íslenskum framtali peningaeign sem geymd er í banka á Tortóla eða öðru landi þá er ekki um neitt skattaskjól að ræða. Að minnsta kosti ekki fyrir þann sem telur fram. Hann greiðir skatt af fjárhæðinni á Íslandi. Punktur og málið er dautt. 

Tómur bankareikningur á Tortóla eða öðrum skálaskjólum í veröldinni hefur sömu skattalegu áhrif og tómur bankareikningur í Landsbankanum við Austurstræti, það er að segja sé hann talinn fram. Framtaldir peningar í banka í skattaskjóli hafa þau áhrif að þeir eru skattaðir, rétt eins og peningar í íslenskum banka.

Nú kann það að vera að einhver dragi í efa sannleiksgildi orða þeirra sem eiga tóma bankareikninga í útlöndum eða peninga sem hafa verið taldir fram og beinlínis. Þá er fullyrt að sannleikanum sé hagrætt ... logið til um staðreyndir. Þá er ákveðinn vandi á höndum enda ljóst að eftirspurn eftir svikum og prettum er greinilega meiri en framboðið og það getur aldrei verið gott.

Í því sambandi má nefna manninn sem handtekinn var á bannárunum. Hjá honum fundust bruggtæki og var honum því gefið að sök að hafa bruggað áfengi og selt sér til fjárhagslega ávinnings.

Sá handtekni neitaði sök og sagði yfirvöld allt eins geta kært sig fyrir nauðgun.

Nú, spurði sýslumaður með þjósti. Eruð þér að segja að þér hafið gerst sekir um nauðgun?

Nei, svaraði aumingjans maðurinn, en ég er með tækin til þess.

Sama er með Tortóla reikninginn. Auðvitað bendir hann til þess að eigandi hafi gerst sekur um svindl og svínarí með því að eiga hann ... Er það ekki?


Nú vill Katrín rjúfa þing en ekki þegar Icesave var undir

Við teljum í raun og veru að það sé mjög rík krafa uppi í samfélaginu um viðbrögð af hálfu þingsins. Ég held að réttu viðbrögð séu þau að rjúfa þing og boða til kosninga.

Svo mælir núverandi formaður Vinstri grænna í viðtali við mbl.is Nú er aldeilis uppi á henni typpið, eins og sagt er.

Viðhorf hennar var allt annað þegar þjóðin hafði marghafnað Icesave samningum sem hún og hennar lið hafði búið til og ætlast til að ríkissjóður greiddi. Nei, hún og hennar hyski sat sem fastast jafnvel þó þjóðin hafi tekið undir orð Davíðs Oddssonar, að ríkissjóður ætti ekki að ábyrgjast skuldir óreiðumanna.

Berum nú saman meintar ávirðingar á þrjá ráðherra ríkisstjórnarinnar og skuldaklafa Icesave.

Ef eitthvað er þá er það þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave skuldirnar sem átti hafa það í för með sér að ríkistjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar segði af sér. Hún gerði það ekki, sat lengi á eftir að hún var steindauð.

Nú ræður stjórnarandstaðan sér ekki fyrir kæti. Heimtar þingrof og kosningar vegna þess að þrír ráðherrar eiga meintar eignir í skattaskjólum. Enginn spyr hvort að þessum eignum hafi verið haldið leyndum vegna skattaundanskota. Nei, svokölluð skattaskjól virðast hafa sömu áhrif á sumt fólk eins og umræðan um flensu. Margir kenna samstundis einkenna og leggjast í rúmið fárveikir án nokkurs smits.

Loksins, loksins er hægt að ræða um eitthvað annað en árangur ríkisstjórnarinnar:

  • Í efnahagsmálum. Stjórnarandstaðan hefur ekki haft neinn árangur í þeim umræðum.
  • Ekki heldur í frumvarpi til fjárlaga. Var þó málþóf sett af stað af miklum rembingi.
  • Síst af öllu náði stjórnarandstaðan árangri í skuldamálum heimilanna.
  • Allra síst gat stjórnarandstaðan uppgjör slitabúa bankanna tortryggilegar og reyndi hún þó mikið. Niðurstaðan var þá sú að þetta var allt síðustu ríkisstjórn að þakka. Hún er sögð hafa gert þetta allt mögulegt á þeim tíma er hún hafði þegar geispað golunni.

Þar af leiðandi eru nú tvö atriði sem almenningur þarf að íhuga. 

Hversu miklu máli skipta ávirðingar á þrjá ráðherra í núverandi ríkisstjórn miðað við árangur þeirra og ríkisstjórnarinnar?

Að mínu mati er þetta stormur í vatnsglasi miðað við það sem gerðist þegar síðasta ríkisstjórn var og hét. Þá datt Katrínu Jakobsdóttur og öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar ekki til hugar að segja af sér. Hafði hún þó gjörtapað þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og átti í kjölfarið eftir að gjörtapa í þingkosningum. Icesave var spurning um á þriðja hundrað milljarða króna greiðslu út ríkissjóði.

Er hægt að taka eitthvað mark á skoðunum Katrínar um þjóðarvilja?

 


mbl.is „Tökum þá bara á orðinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin glaðlega og kurteisa Svandís Svavarsdóttir gefur ráð

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fyrrum ráðherra, veit ósköp vel hvenær ríkisstjórn er sætt og hvenær ekki. Hún sat í ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu sem náði að starfa hálft kjörtímabil en var svo fallin. Gallinn var bara sá að ríkisstjórnin vissi ekki af því fyrr en eftir á.

Siðferðilegur stjórnmálaþroski Svandísar er slíkur að hún kemur hlaupandi með ráð sín og beindir núverandi ríkisstjórn á, kurteislega eins og hennar er von og vísa, að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sé ekki sætt lengur. „... og við vonum náttúrlega að hún átti sig á því sjálf“, bætir hún við, glaðleg í bragði, eins og hún á lund til.

Minni Svandísar er líklega orðið dálítið gloppótt. Ekki er því úr vegi að rifja upp nokkur mál sem urðu síðustu ríkisstjórn að fótakefli þú hún hafi náttúrulega ekki áttað sig á því sjálf að segja af sér. Þá var engin glaðleg og kurteis Svandís til að benda á það sem miður fór, vegna þess að hún sat sjálf í foraðinu miðju. 

Tökum nokkur dæmi um ávirðingar á síðustu ríkisstjórn: 

  1. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra: Hæstiréttur dæmdi 2011 að umhverfisráðherra hafi ekki haft heimild til að hafna tillögu sveitarstjórnar Flóahrepps um aðalskipulag sem gerði ráð fyrir virkjun við Urriðafoss.
  2. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra: Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði í ágúst 2012 að innanríkisráðherra hefði brotið lög er hann skipaði karl en ekki konu í embætti sýslumanns á Húsavík.
  3. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra: Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði 2012 að forsætisráðherra hefði brotið lög er hún skipaði karl en ekki konu í sem skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Ráðherra var dæmd í fjársekt.
  4. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í þætti á mbl.is fyrir kosningar 2009: „Við höfum hérna nýja skýrslu, Evrópuskýrsluna, og það hafa verið samtöl við forsvarsmenn Evrópusambandsins og þeir segja að innan árs, kannski 18 mánaða, mundum við geta orðið fullgildir aðilar að Evrópusambandinu …“.
  5. Velferðarráðherra: Veitti forstjóra Landspítalans launahækkun upp á 450.000 krónur á mánuði sem er meira en flestir starfsmanna spítalans hafa í mánaðarlaun.
  6. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra: Sagðist á blaðamannafundi í Stokkhólmi 27. júní 2009 vonast til að Ísland yrði formlega gegnið í ESB innan þriggja ára.
  7. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG: Fullyrti sem stjórnarandstöðuþingmaður að ekki kæmi til mála að semja um Icesave. Sveik það. - Var harður andstæðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem stjórnarandstæðingur en dyggasti stuðningsmaður hann sem fjármálaráðherra.
  8. Vinstri hreyfingin grænt framboð: Forysta flokksins sveik stefnu hans um ESB
  9. Ríkisstjórnin: Þjóðin hafnaði árið 2010 Icesave samningi þeim er ríkisstjórnin hafði fengið samþykktan á Alþingi. Kosningaþátttaka var 63% og 98% kjósenda hafnaði samningnum.
  10. Ríkisstjórnin: Þjóðin hafnaði 2011 Icesave samningi er ríkisstjórnin hafði fengið samþykktan á Alþingi. Kosningaþátttaka var 75% og 60% kjósenda hafnaði samningnum.
  11. Ríkisstjórnin: Kosningar um stjórnlagaþing vakti litla athygli, kjörsókn var aðeins 36%. Þann 25. janúar 2011 dæmdi Hæstiréttur kosningarnar ógildar.
  12. Ríkisstjórnin: Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra kostaði ríkissjóð 187 milljónir króna.
  13. Ríkisstjórnin: Sótti um aðild að ESB án þess að gefa kjósendum kost á að segja hug sinn áður.
  14. Ríkisstjórnin: Kostnaður vegna ESB umsóknarinnar hefur verið tæplega tveir milljarðar króna á kjörtímabilinu.
  15. Ríkisstjórnin: Loforð um orkuskatt svikin, átti að vera tímabundinn skattur
  16. Ríkisstjórnin: Gerði ekkert vegna skuldastöðu heimilanna
  17. Ríkisstjórnin: Setti ÁrnaPáls-lögin til höfuðs skuldurum en til hagsbóta fyrir skuldareigendur.
  18. Ríkisstjórnin: Gerði ekkert vegna verðtryggingarinnar sem var að drepa stóra hluta skuldara í kjölfar hrunsins.
  19. Ríkisstjórnin: Hækkaði skatta á almenning sem átti um sárt að binda vegna hrunsins.
  20. Ríkisstjórnin: Réðst gegn sjávarútveginum með offorsi og ofurskattheimtu.
  21. Ríkisstjórnin: Breytti lögum, reglum og stjórnsýslunni í landinu til að þóknast ESB í aðlögunarviðræðunum.

Fleira má eflaust til taka en ég bara man ekki meira í augnablikinu. Eflaust verða einhverjir skynugir lesendur og minnisbetri til að bæta hér í. Tek það fram að ég hef birt þennan lista áður og mun halda því áfram um ókomin ár.


mbl.is Ríkisstjórninni ekki sætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veit Svanur Kristjánsson eitthvað eða skrökvar hann vísvitandi?

Í ljósi síðustu upplýsinga um framferði ríka 1% fólksins er óhætt að fullyrða að hver einasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins mun greiða atkvæði gegn vantrausti á forsætisráðherra. 

Hyldjúp gjá hefur myndast á milli þorra þjóðarinnar og þingmeirihluta/ríkistjórnar. Forseti Íslands má ekki -að mínu mati - sitja hjá aðgerðarlaus. 

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands handvaldi Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra. 

Hann situr svo lengi sem forsetanum þóknast. Í valdi forsetans er að skipa nýja ríkisstjórn -síðan yrði rofið þing og boða til nýrra þingkosninga.

Þetta segir Svanur Kristjánsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands á Facebook síðu sinni (greinskil eru mín).

Hann er þekktur fyrir að hafa sjaldan farið með rétt mál og undir yfirskini „stjórnmálafræða“ iðulega rekið erinda þeirra flokka sem hann styður á hverjum tíma og raunar sjálfur tekið þátt í stjórnmálum. Hann hefur sjaldnast verið marktækur en þó iðulega hampað af Ríkisútvarpinu.

Í ofangreindri tilvitnun, sem er raunar allt það sem hann sagði á Facebook, eru sex atriði sem flokkast sem rangfærslur og tilbúningur. Svanur má eiga það að þetta er ótrúlegur árangur í ekki lengri texta. Hins vegar er viljinn til ósannsögli greinilegur.

  1. Svanur veit ekkert hvernig þingmenn sjálfstæðisflokksins muni greiða atkvæði komi fram vantraust á forsætisráðherra. Fræðingurinn giskar þarna eins og svo oft áður.
  2. Svanur giskar á að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar. Gamalkunnugur talsmáti þeirra sem ekkert vita.
  3. Svanur vill að forsetinn skipi reki núverandi ríkisstjórn og myndi aðra. Annað hvort er Svanur þarna að skrökva eða hann veit ekki betur. Forsetinn hefur ekkert leyfi til að segja ríkisstjórn upp. Þar að auki myndar forseti ekki ríkisstjórn upp á sitt eindæmi.
  4. Forseti Íslands „handvaldi“ ekki Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra. Forseti rökstuddi það með þeirri staðreynd að Framsóknarflokkurinn hafi unnið stærri sigur í síðustu alþingiskosningum en aðrir.
  5. Svanur heldur því fram að forsætisráðherra sitji svo lengi sem forseta þóknist. Þetta er einn eitt stórsvig Svans framhjá sannleikanum
  6. Forseti getur ekki rofið þing meðan starfhæfur meirihluti er á Alþingi. Ótrúlegt að Svanur skuli halda þessu öðru fram, þvert gegn því sem rétt er.

Svanur Kristjánsson og sannleikurinn eiga greinilega ekki samleið. Sá er ekki merkilegur pappír sem hallar réttu máli, jafnvel þó hann skreyti sig með með prófessorstitli og menntun í stjórnmálafræði.

Eiginlega er aumasta við Facebook færslu Svans að vefmiðillinn pressan.is skuli lúta svo lágt að segja frá henni. Pressan hækkar ekki í áliti við tiltækið.

 


Bloggfærslur 30. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband