Fyrsta frétt í kvöldfréttum RÚV er stórbrotin ekkifrétt

Hvað réttlætir að fyrsta frétt í Ríkisútvarpinu á föstudeginum langa séu vangaveltur þingmanns stjórnarandastöðunnar um svokallað Wintris mál, það er fjármál eiginkonu forsætisráðherrans?

Hvað er fréttnæmt í því að Svandís Svavarsdóttir, þingmaður og fyrrum ráðherra, vilji halda áfram að berja á forsætisráðherra? Ríkisútvarpið hefur það engu að síður eftir henni að þingmenn geti sett á stofn rannsóknarnefnd.

Er fréttastofan svo skyni skroppin að svo rammpólitískar pælingar Svandísar um stofnun rannsóknarnefnd eða siðaráð hafi einhverja aðra fótfestu en í hausnum á henni sjálfri? Sé svo má opna fyrir alls kyns dellufréttir í Ríkisútvarpinu.

Til greina kemur að stofna rannsóknarnefnd eða setja á stofn siðaráð segir þingmaður.“ 

Áfram er haldið síbyljunni um fjármál eiginkonu forsætisráðherra en þó hefur allt verið sagt sem um málið er að segja. Ríkisútvarpið vill þó ekki bregðast okkur áskrifendum sínum.

Nú er Svandís Svavarsdóttir dregin upp á dekk. Hún sem seldi pólitíska sannfæringu sína í ESB málinu fyrir ráðherrasæti, konan sem vildi ekki leyfa þjóðinni að segja álit sitt á aðildarumsókninni, hún sem ætlaði að setja drápsklyfjar Icesave á ríkissjóð en þjóðin hafnaði því og síðar ríkisstjórninni sem hún sat í. Nú er hún orðin álitsgjafi í siðferðilegum efnum.

Næst má búast við því að fyrsta frétt í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins verði þessi: „Til greina kemur að leggja niður Vinstri græna, segir þingmaður.“ Og svo sé til dæmis vitnað í Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins sem ábyggilega hefur velt þessu fyrir sér og er síður en svo á móti því.

Þarnæst má búast við því að fyrsta fréttin verði þessi: „Óttar Proppé, þingmaður [afsakið, en ég get ómögulega munað hvað flokkurinn hans heitir] var hugsi en er það ekki lengur. Um það eindæma hugsanastopp mætti vitna í einhvern þingmann Framsóknarflokksins sem veltir fyrir sér hvers vegna Óttar hafi yfirleitt þóst vera að hugsa.

Grínlaust sagt, fyrsta frétt Ríkisútvarpsins klukkan nítján eru bara pælingar sem Svandís dettur af og til í og hringir svo í Ríkisútvarpið til að fá viðtal við sig. Og fréttamaðurinn lætur freistast í gúrku dagsins.

Varla var það fréttamaðurinn sem hringdi í Svandísi til að búa til enn eina fréttina um fjármál eiginkonu forsætisráðherrans? Nei, það er frekar ótrúlegt ...


Bloggfærslur 25. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband