Sala Grímsstaða á Fjöllum getur varðað öryggi landsins

VarðaEin landmesta jörð landsins, Grímsstaðir á Fjöllum, var gerð að tilraun Kínverja til að fá aðstöðu hér á landi. Núna er ætlunin að falbjóða 0,3 prósent af Íslandi í Evrópu.

Á meðan einstaklingar eiga jafn stórar hlut af landinu og raun ber vitni er ávallt hætta á að þeir hagi sér eins og óvitar með eldspýtur á flugeldasölu.

Nærtækt er að ríkið kaupi Grímsstaði á Fjöllum og taki þar með fyrir jarðasölu sem auðveldlega getur sett öryggismál Íslands í uppnám.

Þetta skrifar Páll Vilhjálmsson á bloggi sínu „Tilfallandi athugasemdir“. Hann mælir oftast gagnlegt og ég er hér hjartanlega sammála honum. Best fer á því að hálendi Íslands sé þjóðareign, hlutar af því gangi ekki kaupum og sölum né heldur að takmarkanir séu lagðar á ferðafrelsi almennings.

Hins vegar er mér það hulin ráðgáta hvernig stórir hlutar af hálendinu hafi getað komist undir ákveðnar jarðir. Ég tel mig þekkja ágætlega til víðast hvar á landinu, ekki síst á hálendinu. Það er auðvitað stórkostlegt og fagurt en stóran hluta ársins er það heldur fráhrindandi og lítt til dvalar fallið. Á ferðum mínum, sumar og vetur, hefur oft verið bjart og fagurt og gaman að ganga, jafnvel á skíðum að vetrarlagi. Hins vegar breytast aðstæður ansi fljótt ef maður er ekki á hreyfingu. Þá kólnar manni ansi hratt.

Oft hef ég leitt hugann að forfeðrunum á ferð um landið og jafnvel til Fjalla-Eyvindar og Höllu. Ansi hreint er ég viss um að þeim hefur liðið bölvanlega í útilegu sinni. Þeim hefur oftar en ekki verið kalt og rakinn verið versti óvinurinn. Ég er þess fullviss að fagurt sólarlag hefur aldrei yljað neinum sem var blautur í fætur.

Á ferðum mínum hefur maður getað skotið upp góðu tjaldi, eldað mat og skriðið ofan í vandaðan svefnpoka og jafnvel þurrkað blaut plögg. Fátt verður vel útbúnum nútímamanninum að meini.

En þetta var nú útidúr en tengist þó. Hvernig urðu Grímsstaðir á Fjöllum svo stórir eins og þeir virðist vera í dag? Var það með einfaldri yfirlýsingu landeiganda einhvern tímann í fyrndinni og er löngu gleymd en þjóðsagan lifir?

Páll Vilhjálmsson hefur rétt fyrir sér. Sala á gríðarlega stóru á land getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir öryggismál Íslands, sérstaklega ef eignarhaldið verður útlent.

Myndin er af vörðu, tekin í slydduhríð á meintu landi Grímstaða á Fjöllum.


Bloggfærslur 18. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband