Það ... hinn merkingasnauði leiðindaleppur

  • Það er ekki glæpur að verða gjaldþrota. Það kann að vera að glæpsamlegt athæfi [...]
  • Það að taka út vörur í reikning hjá birgja og selja [...]
  • Það að lána félagi sem er lítt gjaldfært [...], það er að bregðast þeim er veitir lánið.
  • Það að gera ekki skil á vörslusköttum [...]

Þannig skrifar alþingismaðurinn Vilhjálmur Bjarnason í grein í Morgunblaði dagsins, ágæt grein efnislega en um það fjallar ekki pistillinn. Greinin er hins vegar frekar kauðsleg af ástæðum sem hér verða rakin.

Vilhjálmur notar fornafnið það í tíma og ótíma, engu er líkar en að hann sé á launum við iðjuna. Þetta segi ég vegna þess að mér hefur lengi verið illa við misnotkun á fornafninu það.  Hef þá skoðun að hófstillt notkun þess í upphafi setningar bæti flest skrif ... og oft talmál.

Orðið er mikið til óþurftar. Varla er hægt að segja annað vegna þess að oft hefur það einstaklega óskýra meiningu, er næstum því merkingarsnautt. Með því að setja það fyrst í setningu eða málsgrein tapar höfundur yfirsýn, gerir mál sitt lakara, verður næstum barnalegur og nær ekki neinu flugi í skrifum sínum. Um leið og höfundur reynir að skrifa framhjá orðinu batnar textinn og meiri tilfinning kemur fram.

Íslenskufræðingar hafa skrifað mikið um það sem í máli þeirra nefnist aukafrumlag. Mér sýnist að flestum sé ekkert sérstaklega vel við orðið þannig notað enda hefur það fengið uppnefnið leppur

Rannsóknir hafa sýnt að sem aukafrumlag hefur notkun þess aukist gríðarlega á síðustu áratugum. Þó þekkist það líka í fornu máli en er þar ekki mjög áberandi. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði rekur í grein sem nefnist „ÞAРí fornu máli - og síðar“ fjölda dæma um það setningar:

Ég held því fram að þau dæmi, þ.e. setningar eins og í (22), verði að túlka svo að merkingarsnautt það komi fyrir í fornu máli þrátt fyrir allt, ansætt því sem venjulega hefur verið haldið fram. Hitt er vissulega rétt að notkun þess er mjög takmörkuð, og sem áður segir virðast eingin formálsdæmi finnast um aðrar setningagerðir með það sem algengar eru í nútímamáli (náttúrufarssetningar, þolmyndarsetningar, tilvistarsetningar [...])

Þetta er nokkuð merkilegt og bendir til að leppurinn hafi síðar smám saman tekið yfir sem „viðurkenndur“ ritháttur að einhverju leyti. En í niðurlagi greinar sinnar segir Eiríkur:

Notkun það er nefnilega mjög stílbundin, og margfalt meiri í talmál og óformlegu ritmáli, s.s. einkabréfum, en í formlegri textum. Oft hefur líka verið amast við notkun þess. Þannig segir Jakob Jóh. Smáir (1920:19): „Fallegast er að nota þetta aukafrumlag sem minst“; og Björn Guðfinnsson (1943:8) tekur í sama streng: „Bezt fer á að nota þetta aukafrumlag sem minnst“. Margir kannast líka við það að svipuðum sjónarmiðum hafi verið haldið að þeim í skóla.

Ekki minnist ég þess að íslenskukennarar í MR hafi amast við þessu, samt hef ég bitið í mig að notkun á það sé frekar aumleg málnotkun. Ástæðan er líklega sú sem Eiríkur Rögnvaldsson nefnir í ofangreindri grein og kallar merkingarsnauðan lepp. Látum vera þó einhver segi: Það er nú meiri blíðan eða álíka. Verra er að hnoðast á orðinu eins og Vilhjálmur Bjarnason gerir í grein sinni í morgun. Við liggur að lesandinn drepist hreinlega við lesturinn vegna nástöðunnar. Þar á ég hvort tveggja við nálægð sömu orða og einnig náfýluna sem leggur misnotkuninni. Tek það fram að ég er að fjalla um orðfæri og orðalag, ekki efnislega um grein Vilhjálms.

Hér eru merkingalausu lepparnir í grein Vilhjálms:

  1. Það hefur verið kallað kennitöluflakk að stofna til viðskipta ...
  2. Það er mjög til efs hvort efni frumvarpsins breyti nokkru ...
  3. Það er ekki nóg að gert að stofna hlutafélag ...
  4. ..., það er að afla gagna um traust á viðkomandi ...
  5. Það er ekki glæpur að taka lán ef blekkingum er ekki beitt.
  6. Það er glæpur að veita lán ef upplýsinga er ekki aflað.
  7. Það er ekki hnýsni og glæpur að afla upplýsinga um gagnaðila ...
  8. Það að koma verðmætum undan gjaldþroti ...
  9. Það er glæpur að birta upplýsingar með ...
  10. Það er verkefni efnahags- og viðskiptanefndar ...
  11. Það kann að vera nokkuð vel í lagt að ...
  12. Það er lýðskrum á Alþingi að bera fram frumvörp ...
  13. Það kann að vera að til séu úrræði til að taka ...
  14. Það er mun fremur viðfangsefni að athuga hví ...

Átján tilvik með þeim sem tilgreind eru í upphafi pistilsins. Vilhjálmur byrjar stundum eina málsgrein með hinum merkingalausa lepp og skrifar svo punkt og byrja þá næstu á honum líka. Hver eða hvað er þetta það sem Vilhjálmur heldur svo mikið í hávegum? Þetta er nærri því glæpsamlegst. Lesandi minn gæti kannski leikið sér að því að setja eitthvað annað orð í staðinn fyrir það og hlegið og hlegið svo af öllu saman til að halda geðheilsunni; hesthús, helgarfrí, föstudagur, guð, mamma, hásin ...

Ég hef í mörg ár reynt að skrifa mig framhjá hinum merkingarsnauða lepp og finnst ég hafa eitthvað þroskast í skrifum við þær tilraunir. Aftur á mót verð ég að viðurkenna að stundum þarf að nota hann, sérstaklega núna. Það rignir nefnilega í Reykjavík.


Bloggfærslur 11. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband