Gleðileg jól ...

DSC_1992

Ekki veit ég hvers vegna tíminn æðir áfram hraðar og hraðar með hverju árinu sem líður.
Ég man ekki betur en að í síðustu viku hafi verið jól og áramót.
Og núna, aðeins nokkrum dögum síðar eru skyndilega aftur komin jól. Meiri vitleysan sem þetta er. Sko í mínu ungdæmi voru jólin aðeins verið einu sinni á ári, aldrei oftar.
Hvur breytt'essu, ha?

Ég var alinn upp við að fagna vetrarsólstöðum sem líklega er ævaforn siður hér á landi og ábyggilega víðar á norðurhveli jarðar. Forfeður okkar, sem lifðu á því sem landið gaf, fundu út að hér eftir hækkaði sól á lofti og þá var efnt til fagnaðar.
Aldeilis ástæða til að éta, drekka og syngja.

Nú koma vetrarsólstöður aungvum við lengur enda lifum við á því sem fæst í bónusum og nettóum. Þess í stað höldum við jól sem eru nú framleidd og framborin af þeim sem hafa það yndi mest að þukla á monningunum.
Já, meðan ég man, gleðilega verslun og hamingjuríkt kreditkort!

Enn kemur sólin fyrirhafnarlaust upp á hverjum morgni.
Án íhlutunar manna töltir jörðin sinn hring í kringum hana og hallar sitt á hvað undir flatt. Mannskepnan kann ekki að trufla þennan gang en hefur samt bein og óbein áhrif á margt annað í gangverki náttúrunnar. Nú hefur til dæmis verið votviðrasamt haust í þrjá mánuði, en á nýliðnum æskuárum mínum var hins vegar snjór á jörðu frá október og fram til vors.

Á vetrarsólstöðum og jólum er ástæða til að leiða hugann að göfugum málum sem varða umhverfi okkar og náttúru, land og haf ...
Nei … ég er bara að grínast. Fyrir alla muni látum ekki eitthvað svoleiðis trufla matarundirbúning, jólagjafakaup, skrautingar og annað sem tilheyrandi.
Nú eru jól, hæ og hó ...

Og þá man ég það.
Hvers vegna höldum við jól?
Einhver sagði þau vera heiðinn sið, annar nefndi jólasveinanna, jólagjafirnar, verslanirnar, börnin, blessuð kreditkortin, stýrivexti og fleira merkilegt var tilekið …
Sjálfur er ég ekki alveg viss, held að það sé eitthvað annað.
Man bara ekki hvað það er.
Manst þú það?
Láttu mig vita við tækifæri.

Til vara fylgir hér ósk um gleðileg jól og von um að nýja árið verði betri en líðandi.


Bloggfærslur 24. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband