Enn er ekkert nýtt undir sólinni ...

Fréttir eru ekki bara fréttir heldur eru þær fréttir. Svona „steypu“ má auðvitað túlka á margan máta. Þó er það pottþétta að sá sem einu sinni hefur verið blaðamaður verður það alla tíð. Þetta á ábyggilega við um mig.

Ekki veit ég hvort ég hafi verið góður blaðamaður en ég starfaði í nokkur ár sem slíkur og forframaðist svo mikið að loks varð ég ritstjóri (auðvitað á eigin blaði. Hvað annað?)

Fyrir nokkru var nokkuð rætt um grafíska hönnuði, þá sem einu sinni voru bara kallaði teiknarar. Einum slíkum varð það á að teikna bókarkápu sem líktist einhverju plakati úti í hinum stóra heimi. Mörgum mislíkaði.

Þá fór ég að hugsa (gerist ekki oft) og minntist þess að áður en tölvur og internetið kom til skrifaði ég grein í síðdegisblað sem ég vann á og hét það Vísir. Fyrirsögnin greinarinnar „Ekkert er nýtt undir sólinni“. Held að hún eigi enn erindi þó nú séu 38 ár síðan hún var skrifuð.

Hér er greinin og kjarni hennar er að við eigum að fara varlega með ásakanir:

Það er sagt að ekkert sé nýtt undir sólinni, sagan endurtaki sig alltaf. Fyrir nokkru var haldin sýning í Norræna húsinu og meðal sýnenda þar var Ernst Bachman teiknari. Hann sýndi gamlar tillögur sinar að merki fyrir Flugleiðir. Sú furðulega tilviljun blasir þá við að merki Ernst og það merki, sem Flugleiðir hafa ákveðið að gera að sínu eru svo til alveg eins. Hvernig má slíkt vera? Getur það verið að ameríska fyrirtækið sem hannaði Flugleiðamerkið hafi haft vitneskju um merki Ernst og apað eftir því? Án þess hafa neitt fyrir sér í þessu máli skál það þó dregið í efa.

Það er ekkert nýtt undir sólinni. Vísir birti fyrr á þessu ári mynd af merki fóðurvörufyrirtækis eins og Suður-Afríku, sem er svo til alveg eins og Flugleiðamerkið núverandi og mjög svipað merki Ernst Bachmans.

Það er mjög erfitt að hanna merki. Teiknarinn verður að hafa það í huga að merkið líkist ekki neinu öðru merki. Það verður að falla að starfsemi þeirri sem það á að standa fyrir og síðast en ekki síst verður það að vera grípandi, vekja athygli fólks.

Til þess að komast að því hvort merki líkist einhverju öðru getur teiknarinn flett upp í uppsláttarbók um merki. Þar getur hann fundið merki fyrir flestar atvinnugreinar og vörutegundir sem teiknuð hafa verið.

Teiknarinn getur líka með því að fletta upp í uppsláttarbók sparað sér mikla vinnu og vangaveltur. Hann velur bara eitt merkið og breytir því smávegis og hirðir síðan launin, en að teikna merki kostar fleiri hundruð þúsunda króna.

Nei, það getur varla verið að teiknarar beiti slíkum aðferðum. Það myndi fljótlega draga úr aðsókninni, spyrjist þetta út.

Blaðamaður fletti upp í nokkrum uppsláttarbókum og fann mörg merki sem líktust íslenskum merkjum.Það er þó langt frá því að verið sé að hala því fram að hugmyndirnar séu stolnar. Það er ekkert nýtt undir sólinni og sagan hefur fyrir löngu kennt okkur að hugsanir manna beinast inn á mjög svipaðar brautir hjá hverjum og einstökum.

Í þeirri von að íslenskir teiknarar misvirði það ekki, þá birtum við hér nokkur merki og tvíbura þeirra erlendis og á það að sýna, að þrátt fyrir að milljónir kílómetra skilji teiknara að og ekkert samband sé á milli, þá getaniðurstöður þeirra orðið svipaðar.

Þetta var heilsíðu umfjöllun og hér er mynd af síðunni. Hægt er að stækka hana með músarsmelli.

Merki

 


Yfir þrjú þúsund jólakveðjur út í tómið

JólakveðjurÍ morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum bestu óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fók er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Þetta hef ég hins vegar gert á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum.

Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna þann hálfra aldar gamla sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins.

Nei, nei, nei ... Því er nú víðsfjarri, en úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín eða þeirra sem ég þekki.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt kann þó að vera jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir þrjú þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Ýmsum kann að finnast það álíka sorglegt.

Hitt er nú dagsatt að Ríkisútvarpið græðir í kringum tíu milljónir króna á tiltækinu. Í anda samkeppnis og þjóðþrifnaðar hyggst ég nú um áramótin bjóða landsmönnum að hrópa nýárskveðjur af svölunum heima. Takist vel til mun ég hrópa jólakveðjur af svölunum á næsta ári. Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,5% lægra.

Fyrst verið er að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna, í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks, þá staðreynd að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í tómið.

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obboðslega jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölum á Þorláksmessumorgni.

(Vilji svo til að einhver glöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal tekið fram að höfundur fer jafnan út á svalir þennan dag)

(Myndin er af sérútbúnu ökutæki við dreifingu á jólakveðjum Ríkisútvarpsins. Hugsanlega  blandast einhver snjór með kveðjunun, en það er nú bara svoooo jólalegt)


Hápólitísk yfirlýsing gegn einkabílnum, þvingun og refsing

Til hvers höfum við samgöngukerfi? Það er til að koma fólki og vörum á milli staða. Það er ekki til þess að koma þessum járnhylkjum sem heita bílar á milli staða.

Þetta er hápólitísk yfirlýsing Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, sem hann leggur fram fyrir hönd borgarstjórnarmeirihlutans. Hún er einfaldlega hótun. Noti menn ekki almenningsfarartæki verður okkur gert illmögulegt að nota einkabílinn. 

Svona hótun rímar ansi vel við þær skoðanir sem meirihlutinn hefur haft á orði undanfarin ár. Og ekki nóg með það. Sambærilegar pólitískar yfirlýsingar hafa hrotið af munni lykilstarfmanna borgarskipulagsins, rétt eins og það sé þeirra að hafa opinbera skoðun á stefnumörkun borgarinnar.

Okk­ur finnst strætó ekki vera að tefja einka­bílaum­ferð. Í strætó er fullt af fólki sem gef­ur meiri mein­ingu í um­ferðar­kerf­inu en þegar einn eða tveir eru í hverj­um bíl. Þar af leiðandi finnst okk­ur rétt­læt­an­legt að strætó hægi á um­ferð endr­um og eins.

Þetta sagði Pálmi Freyr Randversson, í fjölmiðlum fyrir rúmum tveimur árum og er  einungis staðfesting á þeirri fyrirætlan núverandi borgarstjórnarmeirihluta að útrýma einkabílnum úr borginni. Hið sama endurtók Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi, í viðtali í morgunútvarpi Bylgjunnar í gær.

Ég er algjörlega á öndverðri skoðun. Samgöngukerfið er einfaldlega til þess að koma ökutækjum á milli staða, bílum, flutningabílum og fólksflutningabílum. Hluti af því er einnig ætlað til að auðvelda gangandi, hlaupandi og hjólandi fólki ferðir þess.

Verkefni stjórnvalda er því einfaldlega fólgið í því og gera samgöngukerfið þannig að fólk komist á milli staða.

Það getur aldrei verið hlutverk borgaryfirvalda eða sveitarstjórna að þvinga fólk til að nota einn samgöngumáta umfram annan. Það getur ekki endað vel sé stefnan sú að fara gegn vilja og þörfum íbúanna, hvað þá að reka grímulausan áróður fyrir almenningssamgöngum og hindra um leið notkun á einkabílnum.

Borgarbúar geta ekki annað en staðið upp og mótmælt yfirgangi borgarstjórnarmeirihlutans. Starfshættir hans eru ótækir. Þeim finnst í lagi að tefja umferð einkabíla þegar frjálslynt fólk segir að ástæða sé til að auðvelda alla umferð.

Ætlum við að láta þetta lið stjórna borginni, segja okkur hvernig við eigum að ferðast um borgina, þvinga okkur til að láta að kröfu sinni, refsa okkur ef við gerum það ekki?

Ég segi einfaldlega nei.


Bloggfærslur 23. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband