Landvernd og Ferðafélagið ráðast gegn öflugustu landgræðslujurtinni

heiðmörkEinu sinni var Landvernd í fararbroddi þeirra sem vildu græða upp landið. Félagið var stórhuga, útvegaði grasfræ og áburð og hvatt fólk til að grípa poka á bensínstöð á leið í sumarfríið og verða þannig að einhverju gagni.

Þessi tími er löngu liðinn. Nú hefur Landvernd fengið ótrúlegasta bandamann sem hugsast getur í svo óskiljanlegt verkefni að engu tali tekur. Eftirfarandi auglýsing birist í ferðaáætlun FÍ undir fyrirsögninni „Lúpínuferð með Landvernd“

Fararstjóri: Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Ferðafélag Íslands og Landvernd hafa um árabil átt farsælt samstarf um ferðir á viðkvæm svæði sem ratað hafa í umræðuna. Í þessari ferð verður sjónum beint að lúpínunni og ekið inn á hálendið, þar sem þátttakendur fræðast um útbreiðslu plöntunnar og taka höndum saman við að eyða henni.

Verð: 6.000/9.000. Innifalið: Rúta og fararstjórn.

Mér er eiginlega öllum lokið. Þarna sameinast tvö þekkt og virt félög krafta sína í að eyða lúpínu, afkastamestu landgræslujurt sem þekkist. Hvernig getur svona gerst? Síðan hvenær urðu Landvernd Ferðafélag Íslands gróðureyðingafélög? Guðmundur sá sem nefndur er fararstjóri starfar sem framkvæmdastjóri Landverndar.

Hvaleyrarvatn

Tötrar Íslands

Sérfræðingar segja nú að við landnám Íslands hafi það bókstaflega verið skógi vaxið rétt eins og haldið er fram í Landnámu. Talið er að skógar hafi þakið um 15-40% landsins í stað um 1% nú og raunar sé það svo að gróður hafi þá þakið allt að þremur fjórum hlutum landsins.

Síðan hefur margt gerst. Til að þjóðin hafi getað lifað af í landinu þurfti hún eldivið og þar að auki voru skógar landsins ótæpilega beittir. Þekkingin var ekki meiri en sú að ágangur forfeðra okkar á gróðurríkið var slíkur það nær gjöreyddist.

Þeir eru til sem í dag dásama gróðurleysur Íslands rétt eins og það sé hið eina og rétta ástand landsins. Þeir eru einnig til sem hamast svo hatramlega gegn lúpínunni að þeir skipuleggja ferðir til að slíta hana upp. Landvernd og Ferðafélag Íslands ætla nú að bætast í hóp hryðjuverkamanna í íslenskri náttúru. Eins og ekki hafi nóg gerst á undanförnum öldum og í dag sé ekki við nógu ramman reip að draga í náttúruverndarmálum þó þetta komi nú ekki líka til.

 

IMG_0183 Bæjarstaðarskógur, fólk á göngu - Version 2

Lúpínan græðir landið hraðar en annar gróður

Hvað er lúpína og hvers vegna telst hún landgræðslujurt. Jú, hún er þeim kostum búin að hún framleiðir köfnunarefni, nitur, úr andrúmsloftinu og bætir þannig jarðveginn. Fyrir vikið auðveldar hún öðrum jurtum lífið, gerir þeim kleift að vaxa á þeim stöðum sem enginn gróður hefur vaxið í hundruð ára. Ófrjóir melar blómstra með lúpínu og á eftir kemur annar gróður.

Takið til dæmis eftir áreyrum í Morsárdal þar sem lúpínan hefur auðveldað birkiskóginum að breiðast út.

Sjáið Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn fyrir ofan Hafnarfjörð sem fyrr á árum hafði orðið uppblæstri að bráð. Þar var lúpínu sáð fyrir nokkrum áratugum og nú er þarna gróskumikil og fallegur birkiskógur og margvíslegur annar lággróður í frjósömum moldarjarðvegi sem að mestu er til kominn vegna hennar.

IMG_3341Takið eftir ævintýrinu í Heiðmörk fyrir ofan Reykjavík. Þar hefur verið sýnt fram á að lúpínan hafi stuðlað að auknum vexti gróðurs og síðan hafi hún hörfað. Þetta má glöggt sjá þegar bornar eru saman loftmyndir frá mismunandi tímum.

Á blómatíma Landverndar átti að græða landið með grasi og tilbúnum áburði. Þetta var reynt með miklum tilkostnaði og erfiðleikum. Á vegum Landgræðslunnar var í áratugi flogið með grasfræ og og þjóðin fylgdist með stolt með. Sagt er að milljörðum hafi verið varið í landgræslu en árangurinn var allof lítill miðað við allt erfiðið. Um það veit þjóðin eflaust lítið.

 

Lúpínan breytir til hins betra

Lúpínan vex hratt, dreifir sér víða, haðar en allar aðrar jurtir og það leggja margir henni til lasts en aðrir lofa. Ágúst H. Bjarnason segir í afar fróðlegri vefsíðu sinni, „Fróðleikur um flóru og gróður“ (feitletrun er mín):

Mörgum er í nöp við lúpínu. Ýmsar ástæður valda því. Sumum finnst hún ljót, en við því er ekkert að gera. Aðrir vilja halda í „ósnortna“ mela og telja þá höfuðprýði landsins. Slík afstaða lýsir ótrúlegu skilningsleysi á mikilvægi gróðurs yfir höfuð og er erfitt við slíku að gera. Og svo eru þeir, sem vilja, að melarnir fái að vera í friði og gróa upp „af sjálfsdáðum“.

Mergurinn málsins er sá, að sumt fólk óttast, að lúpínan útrými öðrum tegundum. Það er náttúrlega fjarstæða, en hitt er sönnu nær, að hún breyti einu gróðurfélagi í annað. Með tíð og tíma gisna lúpínu-breiðurnar og aðrar tegundir sækja í sig veðrið. Þetta er breytilegt eftir landshlutum, en á Suðvesturlandi og Suðurlandi eru dæmi um, að hrútaberjaklungur og blágresi hafi lagt undir sig uppgræddar lúpínubreiður. Meira að segja hefur sjaldgæf, friðlýst plöntutegund, ferlaufungur (krosslaufi), haslað sér völl innan um lúpínu á einum stað.

Margir þeirra sem leggjast gegn lúpínu halda því fram að gróðurfar verði einsleitt fái hún að vaxa óáreitt. Þetta er auðvitað rangt vegna þess að lúpínan auðvelda öðrum tegundum jurta að ná fótfesti. Ágúst H. Bjarnason segir um þetta á vefsíðu sinni:

Vissulega má taka undir það að nokkru leyti, að lúpína er þegar orðin all áberandi í gróðurríki landsins. Meginorsökina má rekja til þess, hve landið er illa farið, gróður og jarðvegur víða horfinn út í hafsauga. Það eru slík svæði, sem lúpínan leggur undir sig, og getum við því fáum um kennt nema okkur sjálfum.

Skynsamlegast er að hefja nú þegar öfluga skógrækt á öllum láglendismelum og lúpínuökrum og planta á hverjum stað þeim tegundum, sem reynslan hefur kennt mönnum að þrífast þar bezt.

Á 20-40 árum munum við þá endurheimta frjósamt land, þar sem nú ríkir auðnin ein, og lúpínan mun hörfa í skugga trjánna. Þegar melarnir hafa klæðzt trjágróðri, er unnt að breyta ákveðnum hlutum þeirra í akurlendi eða nýta sem beitiland fyrir búsmala. Þetta ferli með hjálp lúpínu tekur ekki nema hálfa mannsævi.

 

Ræktun með lúpínu er töfrum líkust

Stórmerkilegar greinar og hugleiðingar um kosti lúpínu sem landgræðslujurtar er að finna í skrifum Gunnars Einarssonar, sauðfjárbónda að Daðasstöðum, sem eru skammt sunnan við Kópasker. Hann hefur á víðaáttumiklu landi sínu unnið að uppgræðslu og notar lúpínuna óspart með stórkostlegum árangri. Þessar greinar má finna á Facebook undir hópnum sem kallar sig „Vinir Lúpínunnar“. 

Gunnar segir meðal annars í grein á landbúnaður.is:

Mér leist strax mjög vel á lúpínu sem landbótajurt, þegar ég kynntist henni sem unglingur fyrir ofan Hafnafjörð. Áður en ég varð bóndi fékk ég fjölskylduna með mér til að týna lúpínufræ, sem ég svo sáði með góðum árangi. Ég sá líka, að eftir að við fluttum hingað norður, að lúpínan gæti gert okkur mögulegt að rækta melana margfalt hraðar upp.

Þrátt fyrir góðan ásetning fórum við ekki að nota lúpínu til ræktunar fyrr en við gátum fengið fræ frá landgræðslunni. Ræktunin með lúpínunni hefur verið töfrum líkust. Það er geysilega gaman að sjá lúpínuna breyta öllu þessu landi, sem áður voru ófrjósamir melar, í gott beitiland.

 

Frá barnæsku hef ég fylgst með sigri hrósandi landgræðslumönnum með grasfræ og áburð sem telja okkur trú um velgengni í uppgræðslu lands - og hrifist með. Þó vissulega hafi tekist að græða upp á ákveðnum stöðum, oft með ærinni fyrirhöfn og kostnaði, hefur það þó ekki farið framhjá þeim sem ferðast um landið að tötrarnir hafa lítið breyst. Hugsanlega hefur hlýnandi veður á síðustu tveimur áratugum hjálpað til að styrkja og auka gróður. Dæmi um slíkt sér maður glöggt á samanburð á myndum. Að öðru leyti hefur ekki mikið gerst.

Á síðustu árum hefur orðið gjörbreyting í gróðurframvindu hér á landi og þá sérstaklega með tilkomu lúpínunnar. Víða um land sér maður breytingar, kominn er gróður þar sem áður voru gróðuleysur. Jafnvel hátt í fjallahlíður sér maður blómstrandi lúpínu.

Svo gerist það að á Facebokk sjást myndir af sigri hrósandi hryðjuverkamönnum með lúpínu í höndunum sem þeir hafa rifið upp úr gróðurlausum melum. Í þennan litla hóp virðist Landvernd og Ferðafélagið ætla að skipa sér í.

Er nema von að maður örvænti um framtíð þjóðar í gróðurlausu landi. Það er þó huggun harmi gegn að lúpínan er orðin svo útbreidd hér á landi að útilokað er að hafa hemil á henni. Verkefni Landverndar og Ferðafélagsins eru því fyrirfram gjörtöpuð - og það er vel.

Hitt er verra að félögin tvö skuli leggja í þessa vegferð í stað þess að efna til kynningar og verkefna í uppgræðslu á þeim stöðum sem lúpínan hefur náð fótfestu, nefna má skógrækt. Um slíka krafta myndi miklu muna.

 


Bloggfærslur 8. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband