Bernhöftsbakarí er ódýrara en Sandholts

Ég gekk Laugaveginn í dag sem líklega telst ekki til tíðinda, hvorki hjá mér né öðrum. Hins vegar mun ég eiga fleiri spor þar í framtíðinni en áður, því undanfarnar vikur höfum við feðgar verið að standsetja húsnæði á miðjum Laugaveginum þar sem við munum væntanlega hafa skrifstofur ásamt fleirum.

Í hádeginu rölti ég svo út og ætlaði mér að kaupa eitthvað til að seðja sultinn. Undir stillönsum nokkru ofar er Sandholt bakaríið og þar gekk ég inn. Óhætt er að orða það þannig að ég hrökklaðist út aftur. Verðið var slíkt að ég hefði ábyggilega getað farið inn á einhvern veitingastað og keypt mér þokkalega máltíð fyrir sama pening.

Langloka með sneið af kalkún og grænmeti kostaði tæpar 1.500 krónur. Þó girnileg væri fannst mér verðið of hátt. Sama fannst mér um tvær náskyldar brauðsneiðar sem þó voru aðskildar með girnilegu áleggi og kostuðu tæplega eitt þúsund krónur. 

Sumir segja að verðalag á Laugaveginum miðist við að féfletta útlenda ferðamenn. Nærri má liggja að heilt brauð kosti í Sandholt 10.000 krónur og kalkúnninn hátt í 100.000 krónur ef hvort tveggja væri ekki hlutað niður. Dýr myndi Hafliði allur, var eihvern tímann sagt.

Á horninu á Bergstaðastræti og Spítalastígs hefur æði lengi verið starfandi bakarí sem nefnist Bernhöftsbakarí og raunar var það áður á horninu á móti. Nafnið kemur frá Tönnies Daniel Bernhöft sem kom hingað til lands 1834 og stofnaði bakarí. Og hvar skyldi það hafa verið? Jú, þar sem nú heitir Bernhöftstorfan ofan við Lækjargötu. Síðar flutti bakaríið að Bergstaðastræti 14 og enn síðar yfir götuna í húsið sem ber númerið þrettán.

Og það var einmitt í Bernhöftsbakaríi sem ég keypti tvö stór rúnstykki með skinku og osti sem afar kurteis og greiðvikin afgreiðslukona smurði fyrir mig. Þetta kostaði um 800 krónur.

Staðan er því þannig á fyrsta vinnudeginum á nýju skrifstofunni að verðlag í Sandholtsbakaríi á Laugaveginum vekur ekki áhuga minn. Hins vegar Bernhöftsbakarí sá staður sem ég mun hingað til leggja leið mína þegar garnirnar gaula á vinnudegi.


Skjálftar í Bárðarbungu eru ekki fyrirboðar eldgoss

Af leikmannsins hálfu virðast stórir jarðskjálftar vera frekar sjaldgæfir í Bárðarbungu. Stöku sinnum verða þar þó skjálftar upp að þremur stigum. Flestir eru miklu minni og mun sjaldgæfari og raunar hefur skjálftum fækkað frá því eldgosið í Holuhrauni hætti.

Gera má ráð fyrir að dragi til tíðinda í Bárðarbungu eða nágrenni muni jarðskjálftum stórfjölga og stórir skjálftar verða miklu fleiri og tíðari. Þetta er það sem gerðist við síðustu umbrot þegar Bárður dældi kvikunni til norðurs og hún fann sér leið upp úr gamla Holuhrauni, hugsanlega gamlan „farveg“.

Þó svo að nokkrir stórir skjálftar mælist á þessum slóðum er engin ástæða til að skelfast og búast við hinu versta. Hafi hraunið úr síðasta eldgosi komið úr kvikuhóli sem þarf að fyllast og mynda þrýsting til að atburðirnir endurtakist þá verður að athuga að aðeins hluti af kvikunni kom upp á yfirborðið í Holuhrauni. Mikið af henni dreifðist út og suður, norður og niður inni í jarðskorpunni ef taka má svona óhefðbundið til orða þegar um þessi mál er rætt. Af því má ráða að tómarúmið þarna niðri sé talsvert mikið.

Eflaust draga jarðfræðingar margvíslegar ályktanir af upplýsingum sem fást frá Bárðarbungu og svæðinu þar í kring. Ein af eim er ábyggilega sú að kvika streymir nú upp í hið meinta hólf sem á að vera þar undir.

Hins vegar er gegnir tíminn mældur í dögum, vikum, mánuðum og árum, afar afstæðu hlutverki í öllu þessu og hugsanlega ekki mikilsverðu.

Til skýringar þessu má nefna að Katla á að hafa gosið fyrir löngu miðað við meðalfjölda ára á milli gosa. Þó hún hafi látið á sér bæra í nokkur skipti frá því 1918 hefur ekkert gerst sem máli skiptir. Þannig kann það að verða með Bárðarbungu að ekkert gerist næstu hundrað árin. 

Í þetta reyna jarðfræðingar að ráða og nokkuð öruggt má telja að dragi til tíðinda munu mælitæki í kringum Bárðarbungu nema umbrotin með nokkrum fyrirvara. Þá verður óhætt að segja að tíminn skipti máli og hann er að því leyti viðfangsefni jarðfræðinga.

Svo verður að taka það með í reikninginn að enginn völva, spámaður né draumspakt fólk hefur spáð fyrir um gos í Bárðarbungu eða nágrenni (og raunar spáði enginn fyrir um síðasta gos í Holuhrauni). Er þá ekki bara ástæða til að slappa af.

Munum þó að það þarf ekki ófreskan mann til að spá eldgosi á Íslandi. Meira að segja sá sem hér lemur á stafaborð telur að meiri líkur en minni séu á eldsumbrotum á þessu ár ... eða næsta ...


mbl.is Skjálftarnir hafa ekki meiri þýðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband