Hvenær má maður fá uppreist æru og gerast nýtur borgari?

Á fyrstu öldum byggðar á Íslandi voru manndráp einkamál. Hugmyndin um ríkistryggða mannhelgi kom með konungsvaldi. Í stað hefndardrápa milli fjölskyldna, og eftir atvikum sátta þeirra á milli, tryggði ríkisvaldið samfélagsfriðinn með því að gera manndráp að opinberu refsimáli.

Þessi ágætu orð ritar Páll Vilhjálmsson í pistli á bloggsíðu sinni „Tilfallandi athugasemdir“. 

Hefnd er alltaf vond og í eðli sínu ljót vegna þess að þó hún hafi greinilegt upphaf er enginn glöggur endi á henni. Fornsögur okkar segja frá hefndardrápum og líka sáttum. Mörgum er minnistætt niðurlag Harðar sögu og Hólmverja en þar segir (greinaskil og feitletrun en mín):

Þá hafði Hörður nítján vetur og tuttugu er hann var veginn og höfðu honum flestir tímar til heiðurs og metnaðar gengið utan þeir þrír vetur er hann var í útlegð.

Segir og svo Styrmir prestur hinn fróði að honum þykir hann hafa verið í meira lagi af sekum mönnum sakir visku og vopnfimi og allrar atgjörvi, hins og annars að hann var svo mikils virður útlendis að jarlinn í Gautlandi gifti honum dóttur sína, þess hins þriðja að eftir engan einn mann á Íslandi hafa jafnmargir menn verið í hefnd drepnir og urðu þeir allir ógildir.

Hér er átt við að allir voru „löglega“ drepnir vegna vígs Harðar Grímkelssonar og lesandi sögunnar fagnar eflaust í huga sér enda var hann hetja mikil. Hörður var þó útlagi í Hvalfirði síðustu þrjú ár ævi sinnar og var búandfólki þar til mikils ama og tjóns. Tóku bændur því sig til og drápu Hörð og héldu að þar með væri vandinn úr sögunni. Þeir reiknuðu þó ekki með hefndinni.

Löngu síðar gerist það í „siðaðra“ manna þjóðfélagi að rétturinn til hefndar flyst til ríkisvaldsins og heitir eftir það refsing. Hún er gerð að lögum og þeir sem brjóta af sér fá allir svipaða refsingu.

Þrátt fyrir ríkisvæðingu hefndarréttarins hefur hefndarþorstinn ekki aldeilis vikið úr huga fólks. Að sumu leyti er það ósköp skiljanlegt enda æ sjaldgæfara að fólk leyfi sér að fá útrás fyrir þörfina á að hefna.

Stundum er sagt að þjóðfélag Íslendinga byggist á kristilegum gildum. Sjaldnast eru þau gildi útskýrð nánar. Þegar betur er að gáð má segja að þau birtast í nokkrum lífsreglum sem eiga rót sína að rekja til boðorðanna tíu og boðskaps í ritum Nýja Testamentisins. Bregðist mér ekki minnið byggjast þau öðru fremur á kærleika, virðingu fyrir lífi og öðru fólki, réttindum annarra og ekki síst að rækta eigin anda. Þetta og fleira til er flestum mikilvægt hvort sem fólk telur sig kristið eða ekki. Með jákvæðni hugarfarsins byggja menn samfélag og styrkja samstarf milli fólks og þjóða.

Hefndin skilar hins vegar aldrei neinu, hún býr til ástand upplausnar og erfiðleika. Eitrar samfélagið og samskipti fólks.

Á hverju nærist nú allur þessi hefndarþorsti sem lesa má um í fjölmiðlum svo ekki sé talað um athugasemdadálka? Er fólki sjálfrátt að þessu leyti? 

Fjöldinn allur af bíómyndum og sjónvarpsþáttum eru í boði hér á landi og um allan hinn vestræna heim og víðar. Einhvern veginn er það svo að áhugaverðustu myndirnar fjalla um morð, eltingaleik við morðingjann, réttarhöld yfir honum og síðast en ekki síst hefnd makans, barna eða annarra. Jú, þetta er svo óskaplega skemmtilegt, ég viðurkenni það. Smám saman síast þó inn að dauðarefsingin sé réttlætanleg og ef um allt þrýtur megi sá sem á um sárt að binda refsa sjálfur, drepa helv... morðingjann.

Fyrr en varir fer ég að trúa því að hefndin sé mín skoðun og sannfæring og því réttlætanleg. Þá velti ég því fyrir mér hversu oft réttlætinu hafi ekki verið fullnægt af sjálfskipuðum dómara og böðli sem fór einfaldlega mannavillt? Hvar varð um réttlætinguna þegar mistökin uppgötvuðust? 

Ennfremur má spyrja hversu oft brotamönnum verið neitað um tækifæri til betrunar? Sá sem ekki fær betrun leiðist óhjákvæmilega aftur og aftur inn á glæpabraut vegna þess að honum hefur ekki boðist neitt annað.

Þannig snýr samfélagið baki við þeim sem þurfa á því að halda og líf fjölda fólks verður verra.

Margir eru eflaust búnir að gleyma gömlu konunni sem fyrir um sextán árum var myrt heima hjá sér í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Morðinginn fékk auðvitað makleg málagjöld og var dæmdur í sextán ára fangelsi. Nokkrum árum síðar gerast þau undur að sonur konunnar heimsótti morðingja móður sinnar í fangelsið, ræddi við hann og fyrirgaf honum ódæðið ... Það hafði hins vegar engin áhrif og ódæðismaðurinn hélt áfram á glæpabrautinni eftir að hann losnaði úr fangelsi.

Niðurstaðan er því sú að hin kristilegu gildi eru ekki algild í þjófélaginu. Sumir trúa á fyrirgefninguna en aðrir styðja sig við hefndina.

Ekki veit ég hvað einsatklingur þarf að sitja lengi í fangelsi til að öðlast rétt til lífs á ný. Ef til vill leggst dómstóll götunnar alfarið gegn því að nokkur maður fái uppreist æru sinnar, geti snúið aftur, tekið þátt í þjóðfélaginu og gerst nýtur maður þrátt fyrir glæp sinn. Eflaust kunna sumir að benda á ódæðismanninn sem myrti gömlu konuna í fjölbýlishúsinu og segja að mönnum sé ekki viðbjargandi.

Vera má að enginn geti breyst til hins betra. Þá er vissara að fjölga fangelsum og auka refsingar því einhvern tímann sagði kunnur maður að sá einn sem syndlaus væri ætti að kasta fyrsta steininum. Ábyggilega er leitun að slíkum manni, hann finnst þó einna síst í athugasemdakerfum fjölmiðla eða meðal þeirra sem hæst hrópa.


Bloggfærslur 19. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband