Lúpínan í blóma

ÚlfarsfellGleymum því nefnilega ekki að lúpínan er að bæta fyrir misgjörðir okkar og illa meðferð á landinu okkar, hún er að leggja undir sig örfoka land og auðnir, sandfláka og urðir; allt verður fagurblátt og af því sæt angan.

Þegar við erum öll öll, þegar mannkynið hefur komið sjálfu sér fyrir kattarnef, sem verður eflaust fljótlega, en þó vonandi ekki strax, mun lúpínan skríða yfir allt, Ísland verður Bláland, en síðan víkur hún fyrir grasi og öðrum gróðri, hneigir höfuð og hörfar kurteislega.

Segðu mér nú, kæri lesandi: Er ekki miklu betra að hafa sem fyrirmynd svo ósérhlífna og vinalega jurt og lúpínu, plöntu sem framleiðir áburð úr loftinu einu saman, græðir örfoka land og býr undir annan gróður? Ætti það ekki að vera takmark okkar Íslendinga að gera heiminn betri líkt og lúpínuskúfurinn frjói?

Svona skemmtilega ritar hinn ágæti blaðamaður Árni Matthíasson, í Pistil Morgunblaðs dagsins. Mikið er ég nú sammála honum, eins og svo oft áður.

Í gær rölti ég í veðurblíðunni upp á Úlfarsfell og hafði nú alveg gleymt því að núna er lúpínan í blóma. Þar eru miklar og fagar breiður af henni leggur sætan ilminn fyrir vit göngufólks. Svona er þetta víða um land þar sem lúpínan hefur náð fótfestu. Lúpínubreiðurnar eru sem ævintýraland. Ekki spillir heldur fyrir að hún bætir jarðveginn og undirbýr hann fyrir aðrar jurtir.

Margir sjá ofsjónum yfir lúpínunni og vilja með öllu móti losna við hana og heyrst hefur um rándýrar herferðir gegn henni. Í hryðjuverkum gegn þessari fallegu og gagnlegu jurt hafa sumir lagt á sig að rífa hana upp með rótum og jafnvel eitra fyrir henni með stórhættulegum efnum. Líklega er ástæðan sú að þörf er á að vernda gróðurleysur landsins ... eða hvað?

En hvernig má losna við lúpínuna? Jú, það er einfalt. Hún víkur umsvifalaust fái hún ekki næga birtu. Því er um að gera að fylgja í „fótspor“ lúpínunnar og gróðursetja tré. Það hefur víða verið gert með frábærum árangri. Ég hlakka til þess tíma, sem hlýtur að vera örskammt í, að skógræktarfélög á höfuðborgarsvæðinu taki nú til við að gróðursetja tré í lúpínubreiður á Úlfarsfelli, Ásfjalli, við Rauðavatn, meðfram Suðurlandsvegi og miklu víðar. Ég er viss um að þúsundir manna myndu vilja taka þátt í slíku átaki enda vart til göfugra verkefni en að rækta skóg (og lúpínu).

Er ekki kominn tími til að fá almenning með sér í skógræktina?


Bloggfærslur 8. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband