Fjölmiðlungar ráða sér ekki fyrir veðurkæti

Brátt skellur óveðrið á hér á höfuðborgarsvæðinu. Þeir munu ekki ráða sér fyrir kæti, fréttamenn sjónvarpsmiðla. Við megum búast við nokkrum hetjum sem fara í svokallað „stand-up“ þar sem hvassast verður - einhvers staðar úti á víðavangi. Þeir munu áreiðanlega reyna að herma eftir Ómari Ragnarssyni sem oftast tókst vel upp við slíkar aðstæður, aldrei fauk hann. Munurinn verður samt orðalagið því þeir munu tala um mikinn vind, ofsalega vind ... Ómar talaði oftast um rok, hvassviðri, storm eða ofsaveður enda vel máli farinn.

Hið versta sem fyrir fjölmiðlunga getur komið er ef veðrið verður ekki eins mikið eins og búist er við. Það væri hrikalegur óleikur og líklega allt veðurfræðingunum að kenna sem kunna ekki að búa til almennilegt verður, eins og allir vita.

„Við skiptum nú yfir til Gunnu sem er í Árbænum en þar er gríðarlegur vind og varla stætt ...“

 


Vindgangur veðurfræðinga er oft til baga

Talsmátinn er oft merkilega skrýtinn. Núorðið tíðkast æ oftar að tala um mikinn eða lítinn vind. Sumir tala meira að segja um vondan vind: „Versti vindur sem hefur komið hérna í 20 - 25 ár“, segir verkefnisstjóri hjá Landsbjörg í viðtali við visir.is. Ég velti því fyrir mér hvernig „besti“ vindurinn sé. Í þokkabót var maðurinn að lýsa veðri sem var ókomið með sömu vissu og það væri afstaðið.

Þegar fólki verður á að tala einhverja rassbögu við blaðamenn er það hlutverk þeirra að lagfæra orðalag. Því miður taka fáir það að sér oft vegna þess að fjölmiðlungar eru ekkert skárri í íslensku máli en viðmælendurnir. Ekki kann það góðri lukku að stýra.

Oft eru veðurfræðingar í fjölmiðlum lakari en þeir ættu að vera. Margir þeirra sem kynna veðurspár í Ríkisútvarpinu tala jafnan um mikinn eða lítinn vind. Þeim virðast ekki þekkja nein heiti yfir vindstyrk. Kunna ekki eða vilja ekki taka sér orð í munn eins og storm, hvassvirði, rok eða andvara. Logni er yfirleitt lýst sem engum vindi ...

Í sannleika sagt gerast ábyggilega fleiri en ég þreyttir á þessum vindgangi, og ég er ekki að reyna að vera fyndinn.

Svona hnignar nú málinu, margir þjást af orðfátækt en bjarga sér með „mikið“ og „lítið“, ekki aðeins þegar um vind er rætt heldur líka úrkomu af ýmsu tagi og hitastig. Nú líður ábyggilega að því að hitastig fyrir ofan frostmark verði kallað litlar eða miklar rauðar tölur og þegar er frost verður talað um bláar tölur.

Oftar en ekki bæta veðurfræðingar ákveðnum greini við sérnöfn. Þeim er tamt að tala um mikinn vind undir Eyjafjöllunum, Kjalarnesinu, Snæfellsnesinu, Hafnarfjallinu, Norðvesturlandinu og jafnvel Ísafirðinum. Er það nú ekki alltof langt gengið? 


Bloggfærslur 7. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband