Á heimilið eða gatan að sjá um uppeldi barnanna?

Ég hef ekki nennt að hafa mikla afstöðu til þess hvort fara eigi með börn í kirkju fyrir jólin. Er reyndar helst á því að börnin eigi að ráða þessu sjálf? Maður ætti að gera sem minnst af því að troða trú eða pólitík upp á börn. Það fer best á því að þau uppgötvi slíka hluti sjálf. Líklega er það þó fremur lítil trúarupplifun að fara í stórum hópi í kirkju, eins og börn eru oft fyrir jólin, uppnumin og spennt.

Þetta segir Egill Helgason í fróðlegum pistli sínum á vefsíðunni Eyjan. Um orð hans má ábyggilega deila. Ég hef hins vegar haft þá skoðun að farsælla sé að foreldrar sjái um uppeldið á börnunum sínum heldur en að þau „uppgötvi“ hlutina sjálf.

Uppeldið gengur yfirleitt út á það að kenna börnum góða siði. Allir foreldrar telja sig geta miðlað af eigin þekkingu og reynslu. Þannig berst það sem gott þykir á milli kynslóða ... og hugsanlega einnig það sem miður þykir.

Varla kennir nokkurt foreldri barni sínu að reykja. Þau finna það út einhvers staðar annars staðar. Varla kenna foreldrar börnum sínum að stela, segja ósatt, meiða aðra, leggja aðra í einelti ... Allt þetta og meira til lærist annars staðar en á heimilinu. Hlutverk foreldra er að leiðrétta það sem miður hefur farið, í því er uppeldið fólgið.

Sé einhver þannig gerðurað hann vilji afsala sér hlutverki sínu sem uppalandi til einhverra óskilgreinds fólks úti í bæ þá verður bara svo að vera. Er hins vegar nokkur vissa fyrir því að þetta fólk boði annað en það sem slæmt er? Þegar öllu er á botninn hvolft er frekar líklegt að börnin læri fátt mikilvægt utan heimilisins ... og auðvitað skólans.

Svo kann það að gerast að einn góðan veðurdag uppgötvi foreldrarnir að börnin þeirra vilji ekkert með það sem þeir meta mikils. Hvort hefur þá brugðist, heimilið eða gatan sem uppeldið var útvistað til.

Væntanlega er þá skólinn sá varnagli sem bjargað getur barni frá því að hafa engan heima sem tekur þátt í uppeldinu. Um það eru mörg dæmi, líka um heimilin sem brugðust.


Bloggfærslur 21. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband