Stefán J. Hafstein kallar þjóðina aula fyrir stuðning við Ólaf Ragnar

Líkur benda til að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sé nú búinn að glata öllum fyrrum vopnabræðrum sínum í pólitík liðinna ára, samherjum úr Alþýðubandalaginu gamla, Vinstri grænum og Samfylkingunni og öðrum álíka.

Eflaust þykir forsetanum þetta slæmt, að hafa misst sína gömlu félaga sem flest allir hafa snúist hatramlega gegn honum. Þó er huggun harmi gegn að hafa stuðning yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Þegar þetta er vegið og metið skiptir þjóðin meira máli.

Einn þeirra sem doldið mikið langar til að verða forseti, Stefán Jón Hafstein, skrifar um margt í óvenju stuttri. Að hætti margra vinstri manna finnur hann upp skrýtinn frasa, „sjálfstraust kjósenda“. Hann  segir í upphafi greinarinnar (feitletranir eru mínar):

Traust á valdastofnunum og áhrifafólki er í lágmarki sem er hættulegt í lýðræðisríki, því slíkt grefur undan annars konar trausti sem þarf að vera til staðar: Sjálfstrausti kjósenda. „Þetta þýðir ekkert“ viðkvæðið heyrist æ oftar, vonleysi um nauðsynlegar breytingar tekur við og fólk kýs að grafa sig í fönn og reyna að gleyma með því að skipuleggja kósíkvöld til að lifa af. 

Mér þótti þetta athyglisvert og hélt nú að maðurinn myndi halda áfram með vangaveltuna um „sjálfstraust kjósenda“ en hann fimbulfambar bara áfram og gleymir allsnögglega frasanum um leið og hann hefur skrifað hann og heldur svo út á víðáttur algleymisins.

Að vísu viðurkennir Stefán Jón því fram að Ólafur Ragnar hafi fullt leyfi bjóða sig fram í fimmta sinn sem forseti lýðveldisins en sendir honum kalda sneið:

Ég ver því rétt frambjóðandans til að komast að niðurstöðu með sjálfum sér, því enginn áhrifamaður í þjóðfélaginu er jafn berskjaldaður gagnvart þjóðarvilja og forseti. Nú er gott tækifæri til að þakka forseta það sem vel hann hefur gert og kveðja fortíðina. Ef forseti þekkir ekki vitjunartíma sinn gerir þjóðin það.

Hér er sumsé hvatning um að Ólafur Ragnar bjóði sig ekki fram aftur. Svo tekur hann til við að nota orðið „þaulseta“ sem jafnan hefur verið haft um þann sem lengi situr í óþökk húsráðanda eða heimilisfólks. Þá er Stefán Jón kominn í hring og búinn að gleyma skoðun sinni um að kjósendur beri ábyrgð á þeim sem þeir velja sem forseta hverju sinni.

Varla þarf að skýra það út fyrir lesendum að þó Ólafur Ragnar Grímsson hafi setið á forsetastóli í fjögur kjörtímabil flokkast það ekki sem þaulseta. Hann var kjörinn í almennum kosningum og var því boðinn velkominn og situr í embætti sínu með fulltingi og velvild þjóðarinnar. Skiptir engu hvað Stefán Jón Hafstein eða aðrir andskotar forsetans segja og hugsa. Og eftirfarandi orð Stefáns Jóns í niðurlagi greinarinnar eru því óskiljanleg:

Ef núverandi forseti og þaulseta hans er vandamál, er það ekki hans vandamál. Forseti er á ábyrgð þjóðarinnar og ef hún aulast ekki til að skilja út á hvað lýðræði og samfélagsleg ábyrgð ganga fær hún bara það sem hún á skilið. Aftur, aftur, aftur, aftur og aftur. Fimm sinnum að lágmarki.

Ef við, þjóðin, kjósum Ólaf Ragnar enn og aftur sem forseta þá er það bara gott og bendir síst af öllu til þess að við, þjóðin, skiljum ekki hvað lýðræði og samfélagsleg ábyrgð er. 

Það verður bara að hafa það að gáfumenni eins og Stefán Jón Hafstein sé ofboðið og kalli þjóðina aula fyrir vikið.

Í beinu framhaldi af þessu lýsi ég því hér með yfir að ég mun styðja Ólaf Ragnar gefi hann aftur kost á sér í embætti forseta Íslands næstu fjögur árin. Ég veit að þjóðin mín mun gera það líka.


Bloggfærslur 13. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband