Tóm rökleysa hjá Björgu Evu Erlendsdóttur

Formaður fjárlaganefndar ber nú á borð fyrir alþjóð ýmsar frumlegar og næstum hugvitssamlegar rangfærslur um fjármál Ríkisútvarpsins. Og virðist markmiðið vera að þokuleggja alla umræðu um hvert stefnir með almannaútvarpið, nú þegar menntamálaráðherra hefur ekki náð í gegn bráðnauðsynlegu frumvarpi um óbreytt útvarpsgjald í ríkisstjórn.

Þetta skrifar Björg Eva Erlendsdóttir, fyrrum fréttamaður á Ríkisútvarpinu, núverandi starfsmaður vinstri flokka í Norðurlandaráði, og hún situr í stjórn Ríkisútvarpsins og var áður stjórnarformaður þess. Þetta er nú langur listi og raunar hið eina sem telst fróðlegt úr greininni í Morgunblaði dagsins. 

Björg Eva leiðréttir engar rangfærslur um fjármál Ríkisútvarpsins. Þess í stað gerir hún eins og þrautþjálfaðir stjórnmálamenn, kastar fram frösum. „Árviss aðför ...“, „óvildarmenn“, „launsátur“, „almannaútvarp“ og álíka sem henni virðist tamara að nota en rök. Þar að auki tekur hún til við að spá fram í tímann og ályktar sem svo að það sé sannleikur rétt eins og þegar horft er til fortíðar. Til viðbótar vitnar hún í orð formanns Samfylkingarinnar í „röksemdafærslu“ sinni en því miður er ekki mikil hjálp í þeim.

Ég er bara engu nær um rangfærslur um Ríkisútvarpið eftir lesturinn. Greinin er einfaldlega illa skrifuð.

Hitt veit ég að Ríkisútvarpið er í miklum fjármálalegum erfiðleikum og Björg Eva ber ábyrgð á þeim rétt eins og aðrir. Ég veit einnig að þetta fyrirtæki er í samkeppni við önnur fjölmiðlafyrirtæki sem engan styrk fá frá hinu opinbera.

Krafa mín er því einfaldlega sú að stjórn fyrirtæksins reki það skikkanlega og verði aldrei baggi á hinu ríkissjóði. Annað er tóm vitleysa og rugl.


Bloggfærslur 12. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband