Ruddaskapurinn í umferðinni

MIMG_5052yndin hér til hliðar er tók ég í bílastæðahúsinu við Hverfisgötu þegar ég var að fara núna í lok vinnudags. Bíllinn minn er lengst til vinstri. Fólkið sem var á rauða bílnum hitti ég eftir að hafa tekið myndina.

Sá á þeim hvíta var hvergi sjáanlegur enda ábyggilega að flýta sér. Þess vegna lagði hann illa í stæðið, lokaði aðkomunu fyrir bílstjóra rauða bílsins og sýndi þar með af sér ókurteisi og leiðindi.

Þetta er alltof algengt í umferðinni í Reykjavík. Sumum er andsk... saman þó þeir trufli eða tefji aðra. Aðalatriðið er að komast sjálfur leiðar sinnar. Fólk á ekki að sætta sig við svona framkomu, láta viðkomandi vita eða birta myndir af „ódæðisfólkinu“.

Þegar ég ók heim á leið og þá lenti ég í því að ökumaður bíls á vinstri akrein ók löturhægt svo ekki var hægt að komast fram úr honum enda óslitin bílaröð hægra megin. Loks kom að því að hann beygði til vinstri og staðnæmdist við umferðaljós. Um leið og ég ók framhjá honum sá ég að blessaður maðurinn var upptekin við að senda SMS skilaboð í símanum sínum.

Mikið er nú gott að sumir getið gert hvort tveggja, ekið (þó hægt fari) og sent SMS. Ég gæti ábyggilega náð góðri færni í hvort tveggja ef ég legði mig fram, en held mig við aksturinn, enda farsælla og öruggara fyrir mig og umhverfið.


Af hverju á að loka hvítflibbaglæpona inni?

Við rekum refsistefnu. Ég vil að við vinnum í átt að betrun. Ef við lokum fólk inni á það að vera af því að það er hættulegt samfélaginu og við viljum ekki mæta því á götu því við erum ekki örugg. Ég tel að það séu fangar sem eiga ekki heima í fangelsi sem sitja þar núna. Ég nefni sem dæmi fanga sem mikið hefur verið rætt um, hvítflibbaglæpamenn sem sitja á Kvíabryggju. Ég veit ekki alveg af hverju við erum að loka þannig fólk inni. Verðum við hrædd við að ganga fram hjá þannig manneskju á Laugavegi? Er öryggi okkar ógnað? Við hljótum að þurfa að spyrja okkur að því hvort við séum að gera rétt. Það er heilmikið mál að loka fólk inni. Slík vist þarf að vera til betrunar en ekki bara til þess að refsa og niðurlægja.

Þetta segir Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, í viðtali við Fréttablaðið í dag, 11. desember 2015. Henni mælist vel. Hefndarhugurinn er mikill meðal þjóðarinnar, og fer vaxandi. Gömlu bankarnir eiga stóran þátt í hruninu, raunar langmestan og ábyrgðin er þeirra sem áttu þá og stjórnuðu þeim. Þeir hafa verið sakfelldir og fjölmargir dæmdir í fangelsi. Fjölmargir fagna vegna þess að hefndin er svo rík.

Björt Ólafsdóttir leyfir sér þann munað að hugsa málið á annan hátt og hún er nægilega greind og skýr til að þora að segja frá vangaveltum sínum:

Ef fólk er hættulegt samferðamönnum sínum getur verið að það séu engin úrræði önnur en að loka það inni. Þá er líka eins gott að verið sé að vinna að því að skila betri manneskju út í samfélagið aftur. Annars er þetta tilgangslaust; geymsla og mannvonska í raun. Með aðra sem ættu ekki að vera hættulegir manneskjum úti á götu spyr ég, af hverju að loka þá inni, eins og með þessa bankamenn? Af hverju ekki himinháar sektir? Af hverju bönnum við þeim ekki að taka þátt í fjármálakerfinu? Skikkum þá í tíu ára samfélagsþjónustu? Ég er bara að nefna eitthvað. Hvað vinnst með því að loka þessa menn inni? Ég er bara að henda þessu út. Mig langar að fá svar við því. Ef svarið er, þetta er bara svo vont fólk að það verður að loka það inni – það er búið að stela öllum peningunum mínum, þá veit ég ekki hvort við séum nokkuð betri.

Mikið er nú ánægjulegt að vita af þingmanni með sjálfstæðar skoðanir sem hún þorir að viðra í útbreiddum fjölmiðli. Ég er fyllilega sammála henni og hrósa henni fyrir upphaf að því sem vonandi verður málefnaleg umræða.

Ástæða er til að hvetja fólk til að lesa viðtalið við Björt. 


Bloggfærslur 11. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband