Berggangurinn úr Bárðarbungu nálgast Öskju

Þróun skjálftavirkni

Tæplega tuttugu km eru í beinni loftlínu frá sporði Dyngjujökuls í suðurhlíðar Þorvaldstinds í Öskju. Nú þegar er sá frægi berggangur, sem uppruna sinn úr kviku Bárðarbungu, kominn um þriðjung leiðarinnar undir jökullausu landinu ef marka má mynd hér fyrir neðan.

Getur hugsast að orkan í kvikunni í bergganginum sé svo mikil að hún geti þrýst sér alla leiðina að Öskju án þess að koma upp á yfirborðið? Hvað gerist þegar tvær miklar eldstöðvar tengjast á þennan hátt? Ugglaust væri hægt að yrkja um það tvíræða vísu en alvaran er meiri en svo að það sér reynt hér ... 

Meðfylgjandi kort sem birt er með frétt á mbl.is er afar gott og lýsandi fyrir stöðu mála. Það sýnir vel þróunina, hvernig berggangurinn hefur vaxið og dafnað.

Á leið í Öskju

Athygli vekur hversu margir stórir skjálftar hafa orðið vegna berggangsins. Aðeins í dag, sunnudag, hafa frá miðnætti orðið 39 skjálftar stærri en 3 stig, og það aðeins í norðanverðum bergganginum.

Ég held að fjöldi skjálfta í norðan verðum Vatnajökli hafi á sama tíma verið 1.123, langflestir á sama stað.

Þetta held ég að sé algjör einsdæmi í sögu jarðskjálftamælinga, sel það þó ekki dýrara en ég keypti ...

Gleymum þó ekki sjálfri Bárðarbungu. Þar hafa orðið miklir skjálftar og ekki útséð um að þar geti dregið til tíðinda.

Ekki er heldur útilokað að eldur verði uppi á tveimur stöðum samtímis. 

 

 


mbl.is Skjálftavirkni fyrir norðan jökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjósi á annað borð finnst varla betri staður en framan við Dyngjujökul

140824 kl 1202Berggangurinn sem myndaðist í síðustu viku austan við Bárðarbungu hefur lengst gríðarlega og er nú orðinn líklega um 40 km langur og er án efa kominn undan Dyngjujökli og er undir flæðunum fyrir framan hann.

Þetta má greinilega sjá á meðfylgjandi mynd frá því um kl. 12 í dag. Til samanburðar er mynd frá því í gærmorgun. Í fyrstu var stefna berggangsins SV-NA.

Á efri myndinni sést hvernig stefna gangsins hefur breyst og er nú nær því að vera S-N.

Á neðri myndinni sem tekin var af vefnum um hádegi í gær sést hvernig staðan var þá og hversu miklu munar á stöðunni á tveimur dögum. 

140823 Bárðarb og Dyngju kl 1308

Þetta eru áhugaverðir tímar. Sú spurning brennur á fólki hvort gjósi og þá hvar.

Jarðvísindamenn eru ekki margorðir og varast að vera með miklar yfirlýsingar. Nóg er að aðstæður hafi verið slíkar í gær að talið var að gos hefði byrjað undir Dyngjujökli. Vont er að gefa út ranga tilkynningu og enn verra er að gefa út spár sem byggjast á getgátum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að kvika flæðir undir jarðskorpunni og ástæðan er þrýstingur að neðan. Til að losni um þennan þrýsting þarf annað hvort að gjósa eða kvikan fái að streyma eitthvað lárétt án þess að koma upp á yfirborðið. Smám saman léttir þetta á þrýstingnum.

140824 Afskekkt2

Gjósi á annað borð í kjölfar þessara umbrota í Bárðarbungu og Dyngjujökli er varla hægt að finna „betri“ stað eða afskekktari en sporð Dyngjujökuls eða flæðurnar þar fyrir framan. 

Þarna eru engin mannvirki, aðeins vegaslóðir sem engu skipta. Það væri mikil mildi ef gosið kæmi þarna upp og þá myndi hraun renna og eflaust hlaðast upp og hugsanlega mynda dyngju með tímanum.

Á þessum kortum Landmælinga Íslands sést skýrt hvar hugsanlegur gosstaður er. Varla er hægt að kvarta yfir staðarvalinu ... 

Ísland

 


mbl.is Litakóða vegna flugs breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband