Gagnrýnislaus skýrsla um seðlabankastjórann

Eftir að Morgunblaðið hafði birt fréttir sínar og bankaráð bankans hafði sannreynt að þær voru réttar óskaði það eftir áliti Ríkisendurskoðunar á málinu. Endurskoðun tók sér langan tíma til vinnslu þess álits og því vakti það mikla undrun hversu veikt og vandræðalegt það var, er það loks barst. Skýrslan virðist leggja framburð fyrrverandi formanns bankaráðsins til grundvallar gagnrýnislítið og án frambærilegrar skoðunar og þar er dregin upp sú mynd að bankastjórinn
sjálfur hafi ekki haft neitt með þessar greiðslur til sjálfs sín að gera og varla haft vitneskju um þær! Þessir örlætisgerningar hafi allir verið gerðir að frumkvæði og á ábyrgð formanns bankaráðsins og hann hafi ekki rætt þær við nokkurn mann. Seðlabankastjórinn vissi og veit fullvel að bankaráðsformaður hefur ekkert stöðulegt umboð til slíkra verka frekar en einstaklingur úti í bæ. Hafi þessar miklu summur borist óvænt inn á bankareikninga hans, eins og Íslenskar getraunir hefðu sent þær, hlaut hann að rannsaka málið.

Þannig segir núna í Reykjavíkurbréfi sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um mál Seðlabankastjóra og varpar án efa óþægilegu ljósti á málarekstur sem verið hefur til mikilla vandræða í stjórnsýslu og stjórnmálum undanfarin misseri.
 
Már Guðmundsson er án efa góður hagfræðingur og hefur eflaust staðið sig nokkuð vel sem seðlabankastjóri. Launadeila hans við bankans og raunar fyrrverandi ríkisstjórn skyggir þó dálítið á. Ljóst er að fyrrverandi forsætisráðherra lofaði Má miklu hærri launum en hann fékk, launum sem væntanlega eru við hæfi hjá stórþjóðum en ekki hér á landi. Síðan gerist það að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna setur reglur um að laun á vegum hins opinbera megi ekki vera hærri en nemur launum forsætisráðherra. Má þótti þetta ekki gott og heimtaði að fá umsamin laun og ræddi lengi við fyrrum forsætisráðherra en gekk þar bónleiður til búðar. Þegar launin lækkuðu svo með reglugerð varð Már verulega ósáttur og fór í mál við launagreiðanda sinn, Seðlabankann sem hann veitir forstöðu. Hann tapaði málinu. Þá gerast þau ósköp að Seðlabankinn greiðir málskostnað Más, og að sjálfsögðu sinn eigin. Bankinn greiðir því allan kostnað vegna málareksturs Seðlabankastjóra við Seðlabankann.
 
Allt þetta er hið furðulegasta dæmi. Víst má vera að stjórn einkafyrirtækis myndi aldrei sætta sig við að framkvæmdastjórinn færi fram með þessum hætti. Hann yrði rekinn, bótalaust.
 
Mogginn fletti ofan af málinu og í kjölfarið var embætti ríkisendurskoðanda látið rannsaka málið. Út kom skýrsla sem virðist hvorki fugl né fiskur. Rannsóknin er einungis til málamynda og gerð til að koma þeirri hugmynd inn að fyrrum formaður bankaráðsins hafi upp á sitt eindæmi látið bankann borga málskostnaðinn og það án vitundar bankastjórans. Um þetta segir í Reykjavíkurbréfinu:
 
Ef um löglega greiðslu til bankastjórans er að ræða hafa þeir sem sjá um greiðslur fyrir bankann fulla heimild til að afgreiða þær og/eða gera athugasemdir og óska eftir skýringum. Annars væri ekki hægt að greiða bankastjóranum laun eða aðrar greiðslur um hver mánaðamót. Embættismennirnir hafa bæði rétt og skyldu til að kanna, þegar mál er óvenjulegt, hvort formskilyrði, eins og samþykkt bankaráðsins, liggi fyrir. Fletta hefði mátt staðfestum fundargerðum bankaráðsins, sem allmargir embættismenn bankans hafa aðgang að. Eins hefði mátt spyrja annan hvorn, bankastjórann eða aðstoðarbankastjórann, hvort greiðslan væri lögmæt.
 
Auðvitað er þetta rétt hjá höfundi Reykjavíkurbréfsins enda benda líkur til að hann þekki eitthvað til innanstokks í Seðlabankanum og viti þar af leiðandi fullvel hvað hann er að tala um. En svo bæti hann um betur og segir þetta:
 
Það er ekki annað að sjá en að þau pólitísku skoðanasystkin Már Guðmundsson og Lára Júlíusdóttir hafi verið mánuðum saman að bralla með þessar greiðslur til Más og farið vitandi vits framhjá bankaráðinu, eina aðilanum sem hugsanlega hefði mátt taka slíka ákvörðun. Margir fundir eru haldnir í bankaráðinu, þar sem þau sitja bæði, og hvorugt þeirra upplýsir um málið. Bæði hafa þó augljósa upplýsingaskyldu. Brotaviljinn er því einarður. Án Morgunblaðsins væri málið enn í þagnargildi. Æpandi þögn.
 
Ekki nóg með að höfundurinn dragi þessa ályktun sem hlýtur að rökrétt, hann bendir til viðbótar, mjög kurteislega á eftirfarandi staðreyndir (greinaskil eru mín):
 
Það sem vekur mesta athygli, en er ekki minnst á í skýrslu Ríkisendurskoðunar, er það að innri endurskoðandi bankans kemur aldrei auga á hin augljósu misferli, þótt þau standi yfir svona lengi.
 
Ekki verður séð að bankastjórinn, aðstoðarbankastjórinn, formaður bankaráðsins eða rekstrarstjórinn, sem innir greiðslurnar af hendi án þess að samþykkja þær, hafi nokkru sinni leitað til innri endurskoðandans um álit á málinu. Vafalítið hlýtur að vera að innri endurskoðandi hefði tekið í taumana hefði hann vitað hvað var um að vera, og væntanlega kallað til lögreglu.
 
Ekki verður séð af skýrslu Ríkisendurskoðunar að við yfirferð málsins hafi nokkru sinni verið rætt við innri endurskoðandann um það hvernig þetta mál mætti hafa farið framhjá því embætti. Nú hefði það átt að vera hægðarleikur, þar sem innri endurskoðandi bankans, sá aðili sem hefði átt að setja puttann á þá brotastarfsemi sem þarna átti sér stað, er systir ríkisendurskoðanda.
 
Er það með miklum ólíkindum að ríkisendurskoðun, sem túlkar vanhæfisreglur um starfsmenn Seðlabankans svo vítt, eins og gert er í álitinu, skuli ekki hafa séð að Ríkisendurskoðandi var vita vanhæfur til að fara með mál af þessu tagi og raunar aðallögfræðingur og staðgengill hans einnig, þegar af þeirri ástæðu og vegna annarra tengsla sem eru þýðingarmikil í málinu.
 
Enginn innan Seðlabankans sagði eitt aukatekið orð um greiðslur á málskostnaðnum, áttu þó fjölmargir hlut að máli, samkvæmt Reykjavíkurbréfinu. Gerðu embættismenn aðeins það sem fyrir þá var lagt og hver stýrði þar málum, formaður bankaráðsins sem ekkert boðvald hefur, eða var það seðlabankastjóri sjálfur?
 
Ljóst má vera að sumir eru á þeirri skoðun að Már Guðmundsson sé góður kostur sem Seðlabankastjóri. Hins vegar hefur hann gert alvarleg stjórnunarleg mistök sem benda til þess að hugsanlega þurfi að líta til annarra umsækjenda.
 
Í upphafi var afar undarlega staðið að ráðningu Más og bendir flest til þess að enn sé talsvert ósagt um þau efni. Blandast þar óhjákvæmilega inn í málið fyrrum forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar og fyrrum allsherjarmálaráðherra og formaður Vinstri grænna.
 
Getur til dæmis verið að þau Jóhanna og Steingrímur hafi lofa Má Guðmundssyni hærri launum og hlunnindum sem ekki var unnt að standa við vegna pólitísks vandræðagangs í stjórnsýslu síðustu ríkisstjórnar?
 
Í það minnsta er þarf að rannsaka málið mun ítarlegar og betur en embætti Ríkisendurskoðanda gerði. Hins vegar verður að segjast eins og er að Ríkisendurskoðandi ollu verulegum vonbrigðum með skýrslu sinni.

Bloggfærslur 5. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband