Samfylkingin skipuleggur atvinnuhúsnæði í grænum Laugardal

Hjálmar Sveinsson, varaformaður Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir rétt að búið sé að opna fyrir möguleikann á því að á þessu svæði rísi tveggja til fjögurra hæða háar byggingar en að ekkert sé ákveðið í þeim efnum. 

aðalskipulag

Þetta segir í frétt á bls. 19 í Morgunblaðinu í dag. Þar viðurkennir formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að verið sé að ræða um breytingar á nýtingu Laugardals, byggja í stað þess að hafa hann sem grænt svæði til útivistar. 

Þarna er fyrirhugað að byggja múr, blokkarmúr, þar sem nú er gróskumikill trjágróður og mikil prýði fyrir dalinn og Suðurlandsbraut. 

Að vísu er Samfylkingin á harðahlaupum frá þessum áætlunum og þykist ekkert vita, þær séu á annarra vegum. Formanninum, Hjámari Sveinssyni, vefst hreinlega tunga um höfuð í þessu viðtali og hann fabúlerar um „tortryggni“, „... mikilvægt að menn átti sig á staðreyndum...“ og annað álíka. Alveg dæmigert fyrir talsmáta pólitísks flóttamanns í íslenskri stjórnmálaumræðu.

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar, bendir á að fjögurra hæða blokk verði sex hæða frá Laugardal séð vegna hallans í landinu.  Þar að auki verður pláss myndað fyrir baklóðir blokkanna. Hann segir í viðtalinu við Morgunblaðið:

Við vitum ekkert hvernig starfsemi verður þarna svo þar gætu menn verið með bílaverkstæði, bílhræ og vörugáma sem myndu blasa við fólki frá dalnum séð. Þessar blokkir takmarka og jafnvel eyðileggja svæðið fyrir neðan varðandi möguleika á íþróttavöllum og skuggavarpið verður alveg rosalegt. 

Skúli Víkingsson, jarðfræðingur og formaður samtakanna Verndum Laugardalinn, segir í viðtali við Morgunblaðið.

Ef þessi áform ganga eftir munum við ekki sjá gróður og göngustíga heldur bakhliðar blokka sem verða með svipuðu móti og gengur og gerist í Síðumúla

Ég efa það ekki að í dag flykkjast sumir á kjörstað og geta ekki beðið eftir því að greiða Samfylkingunni atkvæði vegna einstakrar frammistöðu í skipulagsmálum borgarinnar síðustu fjögur árin svo ekki sé talað um þá framtíðarsýn sem hér er lýst.

Ég er að minnsta kosti ekki einn þeirra og kýs Sjálfstæðisflokkinn, ekki síst vegna skipulagsmála.


Hvar á að kjósa?

Heimili

Ég flutti milli hverfa í vetur sem leið og var ekki alveg viss hvort ég ætti að kjósa í gamla hverfinu eða því nýja. Af rælni leitaði ég á vef Sjálfstæðisflokksins, xd.is, og sá að þar eru þeir með þetta rafrænt.

Ég þurfti aðeins að slá inn kennitöluna mína og þá kom í ljós að ég ætti að kjósa í nýja hverfinu.

Í gamla daga var alltaf miðað við kjörskrá frá 1. desember en nú er þetta allt miklu fullkomnara og kjörskráin nærri því rétt miðað við að fólk tilkynni tímanlega um flutning.

Þetta er alveg til fyrirmyndar hjá stjórnvöldum og ekki síður Sjálfstæðisflokknum. 


Ég kýs Sjálfstæðisflokkinn og og horfi til nýs dags

Samfylkingin gerði ekkert til hjálpar heimilunum eftir efnahagshrunið, var eiginlega til óþurftar í ríkisstjórninni 2009-2013. Forystu menn flokksins hlógu að núverandi ríkisstjórnarflokkum þegar þeir settu í stefnuskrá sína að leiðrétta þann skaða sem heimili landsins höfðu orðið fyrir.

Og þegar ríkisstjórnin efndi loforð sitt hélt Samfylkingin því fram að leiðréttingin væri of lítil og fleiri fengju aðstoð en þurftu ...

Á sama tíma lofar Samfylkingin í 3000 leiguíbúðum á næsta kjörtímabili, sem þýðir 75 milljarðar króna. Flokkurinn pælir hins vegar ekkert í fjármögnuninni né heldur hvort leigjendur séu allir í sama vanda, ábyggilega.

Ég skal segja ykkur, lesendur góðir, að það er slæmt að vera leigjandi. Ég hef reynsluna. Það er miklu, miklu betra að vera eigandi íbúðar og ráða yfir sínu hvar og hvernig maður býr. 

Þess vegna á að hvetja almenning til að eiga sína íbúð, letja til leigu. Kjósi einhverjir leigumarkaðinn á borginni ekki að vera á honum í samkeppni við þá sem vilja leigja út eignir sínar.

Samfylkingin heldur upp bæði fasteignaverði og okurleigu í borginni með því að bjóða ekki upp á nægilega margar lóðir til nýbygginga. Þannig hefur það verið síðustu árin, þannig var það með R-listann alræmda.

Þess vegna hefur Mosfellsbær, Kópavogur, Seltjarnarnes, Garðabær og Hafnarfjörður stækkað margfalt meira hlutfallslega en Reykjavík.

Hversu skynsamlegt er að kjósa þá sem lofa öllu fögru en hafa ekki hugmynd um hvernig eigi að framkvæma hlutina? Hvernig er hægt að kjósa Samfylkinguna og 75 milljarða leiguíbúðaloforð hennar? Ég hef hlustað á Dag B. Eggertsson fullyrða að hægt sé að standa við loforðið, en ég skil ekki Dag. Svo virðist sem hann komist aldrei að kjarna málsins ... en mikil ósköp sem hann talar fallega og lengi, of lengi.

Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að ég ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum. Ég lítil til framtíðar, horfi til nýs dags með bjartsýni.

Ég skora á alla, hvar í sveitarfélagi sem þeir búa, að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.  


Bloggfærslur 31. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband