Gáfuðustu Íslendingarnir og þeir dómgreinarlausustu

DV leitaði til málsmetandi álitsgjafa í leit að gáfaðasta núlifandi Íslendingnum.

Fjölmargir komust á blað en álitsgjafar blaðsins eru samróma um að frú Vigdís Finnbogadóttir sé gáfuðust okkar allra. Aðrir þekktir Íslendingar sem komust á listann eru Davíð Oddsson, Katrín Jakobsdóttir og Andri Snær Magnason. 

Nú er búið að finna út hverjir eru gáfaðastir Íslendinga. Dv.is slær þessu upp á vef sínum í dag og þykir einstaklega mikill sómi að, sérstaklega ef DV selst meira fyrir vikið. Listinn yfir gáfumennin er þó ekki birtur á vefsíðunni og ekki nennti ég að kaupa mér blaðið, til að skoða listann. Ég er nægilega gáfaður til að láta ekki fallerast fyrir ómerkilegum trixum sem maður hefði ábyggilega fallið fyrir í menntaskóla.

Hins vegar þykist ég vita að allir sem eru á gáfumannalistanum séu þekkt fólk. Þar af leiðandi er þar enginn af vinum mínum, kunningjum og samstarfsmönnum um ævina því „frægðin“ hefur ekki verið þeirra fylginautur. Engu að síður lít ég óskaplega mikið upp til fjölmargra þeirra fyrir gáfur, atgervi og ekki síður manngæsku. Þó er fjarri mér að vilja eða geta raðað þeim upp í gáfnafarsröð. Á því sviði er ég einfaldlega ekki nógu gáfaður.

Hitt er svo annað mál, hverjir láta hafa sig út í þann leik að draga menn í dilka eftir gáfum. Hvernig í ósköpunum er til dæmis hægt að setja mann eins og Andra Snæ Magnason í sæti á eftir Vigdísi Finnbogadóttur? Hver er eiginlega þess umkominn að geta dæmt um gáfur með því að fylgja aðeins yfirborðslegum forsendum og haldið því jafnframt fram að einn sé gáfaðri öðrum.

Einu sinni skrifaði ég grein í Morgunblaðið og nefndist hún „Vitlausasti þingmaðurinn“ og átti þar við samflokksmann minn sem gerði sig sekan um tóma steypu er hann ritaði grein sem hann kallaði „Vitlausasta framkvæmdin“ eða eitthvað í þeim dúr. Maðurinn var þó langt í frá vitlaus, frekar dálítið gáfaður eins og flestir. Þó fannst mér að dómgreind hans væri lítið í snertingu við heilabúið er hann myndaði sér áðurnefnda skoðun og færði ég ágæt rök fyrir því, þó ég segi sjálfur frá.

Þannig er oftast. Engin innistæða er fyrir upphrópunum um heimsku og þar af leiðandi ekki heldur fyrir ofurgáfum. Því fer fjarri að Vigdís Finnbogadóttir sé „gáfuðust“ Íslendinga og Andri Snær Magnason sá „næstgáfaðasti“. Svona uppáhaldslistar eru einfaldlega marklausir og barnalegir.

Hitt er þó til umhugsunar hvort að þessir „álitsgjafar blaðsins“ í þessari umfjöllun fái ekki sæmdarheitið „dómgreindarlausustu“ Íslendingarnir:

 

  • Benedikt Bóas Hinriksson blaðamaður
  • Bjarni Eiríksson ljósmyndari
  • Einar Lövdahl, ritstjóri Stúdentablaðsins
  • Elmar Garðarsson stjórnmálafræðingur
  • Guðríður Haraldsdóttir, ritstjóri Vikunnar
  • Guðrún Hildur Ragnarsdóttir, formaður meistaranema við stjórnmálafræðideild HÍ
  • Guðfinnur Sigurvinsson sjónvarpsmaður
  • Halldór Högurður þjóðfélagsrýnir
  • Helga Dís Björgúlfsdóttir blaðakona
  • Hilda Jana sjónvarpskona
  • Jóhann Einarsson, formaður Vélarinnar
  • Malín Brand blaðamaður
  • Margrét H. Þóroddsdóttir, stud.jur., formaður Lögréttu
  • Una Björg Einarsdóttir, MA í mannauðsstjórnun 

 


Bloggfærslur 26. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband