Með náttúrupassa vex báknið og frelsið er takmarkað

Einstaklingum sem náð hafa 18 ára aldri er skylt að afla sér náttúrupassa gegn gjaldi, sbr. 3. mgr. heimsæki þeir ferðamannastaði á Íslandi sbr. 2. mgr. Einstaklingar sem eru með lögheimili eða sækja fasta vinnu á svæðum þar sem náttúrupassinn gildir sbr. 2. mgr. þurfa þó ekki að afla sér náttúrupassa vegna veru sinnar á þeim svæðum.

Náttúrupassinn gildir á þeim ferðamannastöðum á Íslandi sem eru aðilar að framkvæmdaáætlun um uppbyggingu og viðhald innviða á ferðamannastöðum sbr. 6. gr. 

    Gjald fyrir náttúrupassa skal vera eftirfarandi:  

  • a. 2.000 kr. fyrir fjóra daga.
  • a. 2.000 kr. fyrir fjóra daga.
  • b. 3.000 kr. frá fimm dögum til fjögurra vikna.
  • c. 5.000 kr. fyrir lengri tíma en fjórar vikur. Gildistíminn er fimm ár. 

    Gjaldið skal renna óskipt til Náttúrupassasjóðs.

Svona lítur þetta út, 7. greinin í frumvarpi til laga um náttúrupassa. Munum að passinn er aðeins leyfi til ferðalaga engin þjónusta fylgir, ekkert leyfi til að tjalda er innifalið.
 
Íslendingar skulu sem sagt greiða pening fyrir fá allra náðarsamlegast að ferðast um landið sem við og forfeður okkar hafa frá landnámi fengið óhindrað að fara um. Nú á að skattleggja okkur vegna þess að stjórnvöld hafa ekki verið svo forsjál að taka til hliðar hluta af gríðarlegum tekjum af ferðaþjónustunni sem safnast hafa í ríkissjóð undanfarinn áratug. 

Í þokkabót skal setja upp stofnun sem nefnist Náttúrupassasjóður með starfsfólki og stjórn. Stofnunin á að passa upp á fjármuni sem innheimtast og útdeila þeim. Að málum eiga að koma allir hagsmunaaðilar nema almenningur í landinu, hann er undanskilinn frá öllu nema skattheimtunni.

Munum að þetta er skattheimta á þjóð sem þegar fyrir er þunglega skattlögð. Ástæðan er eins og að framan greinir, stjórnvöld geta ekki séð af vaxandi tekjum af ferðaþjónustunni í náttúruvernd og uppbyggingu ferðamannastaða.

Ég hef fyrir framan mig frumvarp til laga um náttúrupassann. Ljóst má vera að mikill ágreiningur verður um hann og hart barist gegn samþykktinni. Ég hef líka þá trú að Sjálfstæðisflokkurinn munu skiptast í tvo hópa um málið vegna þess að það gengur þvert gegn grundvallargildum flokksins um frelsið.

Ágætt er að lýsa því hér yfir að ég mun aldrei greiða þennan skatt og mun þó ekki sitja heima með hendur í skauti heldur ferðast um land mitt eins og ég hef gert hingað til - og berjast gegn óréttlætinu. 


Engar samningaviðræður, enginn pakki - aðeins aðildin ein

...hvað er forsvaranlegt að eyða miklum fjármunum í að mennta þjóð sem, þrátt fyrir einhverja lengstu skólagöngu í heimi, nennir ekki að lesa sáraeinfaldan texta? Skilur ekki að það eru engar samningaviðræður í gangi. Skilur ekki að það er enginn pakki til að kíkja í. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (HHÍ) er einstaklega skýr í þessum efnum. Viðræðurnar snúast um tímasetningar upptöku 100.000 blaðsíðna af regluverki sambandsins. Ekkert annað.

Á einfaldan hátt rökstyður Ragnhildur Kolka, námsmaður í HÍ, þá ótrúlegu staðreynd að meirihluti landsmanna virðist ekki vita út á hvað viðræðurnar við Evrópusambandið ganga. Þetta gerir hún í grein í Morgunblaði dagsins og nefnist hún „Ef greind er normið þá fyrst verður heimskan áhugaverð“. 

Ragnheiður er ritar góða grein og færir góð rök fyrir máli sínu. Hún segir:

Skýrsla HHÍ gerir ágæta grein fyrir landbúnaðarkaflanum. Margumræddar undanþágur Finna og Svía vegna heimskautalandbúnaðar eru aðeins tímabundnar og getur sambandið, hvenær sem er, ákveðið að þessar tvær þjóðir hætti að styrkja þessa útkjálkabændur. Sjávarútvegurinn er enn ólíklegri til að fá varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu sambandsins. Auðvitað geta menn bundið vonir við að fá tímabundinn ráðstöfunarrétt á ca. 100 dósum af síld eins og Malta, en þó er líklegra að Evrópusambandið haldi sínu striki eins og Norðmenn fengu að reyna þegar þeir sóttu um síðast. „Ausgeschlossen“, fiskimiðin skulu vera undir stjórn ESB og ekkert múður.

Þeir sem ekki eru fullkomlega sannfærðir um réttmæti orða Ragnhildar ættu einfaldlega að lesa reglur ESB um aðildarumsókn, lesa að auki skýrsluna sem hún nefnir og íhuga orð stækkunarstjórans þegar hann sagði að Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi utanríkisráðherra, viðstöddum, að engar varanlegar undanþágur væri gefnar frá umræðuefni umsóknarþjóðarinnar í 35 köflum. 


Einstaklega falleg frásögn

Frásögnin af feðgunum Geir Gunnlaugssyni, lækni, og syni hans Gunnlaugi er falleg. Hún hefur engu að síður stærri skírskotun en ætla mætti í fljótu bragði.

Ekki aðeins er hún um fórn sem annar aðilinn telur sjálfsagða og hinn kann að þiggja - það síðarnefnda er ekki svo einfalt sem margir hyggja.

Sagan segir okkur líka frá því hversu fjölskyldan skiptir miklu máli í þjóðfélaginu, þrátt fyrir allar breytingar á menningu, búsetu og aðstæðum. Hún segir okkur líka þá einföldu staðreynd að fólk leitar til þess sem gefur því frið og markmiðið hvers og eins er að geta notið tilverunnar með sínu fólki, stundað störf sem gerir kleift að eignast húsnæði, mat og annað sem hugur hvers og eins stefnir að.

Á ferðum mínum hér á landi og erlendis hef ég fundið þann eina sannleika sem ég held að öllum sé æðri og hann er sá að fólk vill fá að vera í friði með þeim sem það kann vel að umgangast. Þetta segir fólk beint og óbeint hér á landi, í Evrópu, Ameríku, Asíu og Afríku. Ábyggilega 90% fólks er gott fólk. Svo eru það hin tíu prósentin sem, þeir sem ávallt tekst að eyðileggja fyrir öðrum með yfirgangi, spillingu og þaðan af verra. Dæmin eru allt í kring, í öllum heimsálfum.

„Það kom aldrei neitt annað til greina,“ sagði Geir Gunnlaugsson. Því miður er það svo að víða um lönd virðist allt annað vera ráðandi en þessi einfalda speki.

 


mbl.is Geir landlæknir gaf syni sínum nýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband