Nátthagadalur, besta leiðin að gosstöðvunum og nóg af bílastæðum

210329 Gönguleið gos Athuganir á gervitunglagögnum benda til þess að kvikugangurinn, sem myndaðist vikurnar fyrir gosið, og opnaðist í Geldingadölum, sé ekki að fara að mynda nýjar gosstöðvar annarstaðar yfir ganginum.

Svo segir í yfirliti á vef Veðurstofu Íslands frá 26.3.21.

Í upphafi goss var ekki talið ráðlegt að búa til gönguleið að gosstöðvunum með því að fara um dalinn sem kenndur er við Nátthaga, Nátthagadal. Ástæðan var sú að gangurinn er talinn vera undir dalnum og þar gæti gosið. Ekki er lengur talin hætta á þessu.

Um Nátthagadal er langbesta aðgengið að gosstöðvunum. Engin hætta á ferðum. Engin þörf á að göngufólk sé með brodda, ísöxi eða annan álíka útbúnað.

Nátthagadalur er rétt rúmlega einn km að lengd, því sem næst rennisléttur. Hann þrengist innst og endar í víðu gildragi sem er afar auðvelt yfirferðar, hvort heldur er upp eða niður. Fyrir ofan er dalverpi sem kalla má Geldingadal eystri. Úr honum er auðvelt að ganga á fellið vestan þess og af því norðanverðu er gott útsýni yfir Geldingadal, eldstöðvarnar og hraunið.

Besta gönguleiðin

Þetta er besta gönguleiðin að gosstöðvunum og miklu minni hætta á óhöppum og slysum í bröttum gönguleiðu sem nú hafa verið stikaðar. Sagt er að um síðir muni hraunið renna ofan í Nátthagadal, það er að segja dragist gosið á langinn eins og spáð er.

IMGL4108 copy10.000 bílastæði

Nátthagadalur er geysistór, líklega nærri 250.000 fermetrar og er þá aðeins sléttlendið talið. Hæglega mætti koma þar fyrir fjölda bílastæða. Með góðri skipulagningu nærri tíu þúsund og er þó æði rúmt um alla.

Gjaldtaka

Landeigendur ættu að taka sér það fyrir hendur að útbúa bílastæði og rukka um 500 krónur fyrir stæðið, jafnvel 1000 krónur. Tekjurnar ættu að duga fyrir skipulagningu dalsins og gerð gönguleið upp gildragið sem áður var nefnt. Jafnvel tvo göngustíga, einn til uppferðar og annan niður. Og hagnaður ætti að vera nógur.

IMGL4148 copyLandspjöll

Einhver kann að spyrja hvort landspjöll fylgi ekki svona bílastæðum. Því er til að svara að dalurinn er algjörlega ógróinn. Renni hraun niður í dalinn þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af raskinu.

Renni hraun ekki í dalinn er einfalt mál að slóðadraga hann og útmá þannig öll merki um akandi umferð. Að því loknu má einfaldlega sá og rækta þar gras eða byrja á trjárækt. Lúpínan er góður grunnur fyrir annan gróður.

Lögreglan

Hingað til hefur lögreglan verið sofandi. Ekkert vitað hvað eigi að gera eða hvernig og virðist ekki taka ábendingum. Ávirðingarnar eru fjölmargar:

  1. Almenningur er látinn leggja bílum sínum á annarri akrein þjóðvegarins.
  2. Einstefna er tekin upp.
  3. Bílastæði eru svo fágæt að fólk gengur jafnvel frá Grindavík sem er óboðlegt.
  4. Lokun þjóðvegarins við Krýsuvíkurafleggjarann eru til mikils óhagræðis fyrir fólk.
  5. Gerð er gönguleið um illfært land.
  6. Ekkert er hugað að gönguleið um Nátthagadal.
  7. Fólki er smalað frá gosstöðvunum vegna þess að björgunarsveitarmenn eru sagði þurfa að sofa.
  8. Landeigendur loka landi sínu og lögreglan tekur að sér að gæta þess.
  9. Í stað þess að auðvelda fólki aðgengi að gosstöðvunum er það torveldað.
  10. Vegna gaseitrunar var sett upp varagönguleið enn fjarri Geldingadal en sú fyrri.

Fleira mætti telja. Nú er eiginlega nóg komið.

Hingað til hefur allt komið lögreglunni á óvart. Hún þekkir ekki landið, hefur enga reynslu af gönguferðum í óbyggðum og tekur yfirleitt rangar ákvarðanir eins og glögglega má sjá af handarbaksvinnubrögðum hennar í upphafi goss.

Er ekki kominn tími til að velviljað fólk taki lögregluyfirvöld tali og leiði þeim fyrir sjónir hagsmuni almennings?

Myndir

  1. Efsta myndin er kort af dalnum og gönguleiðinum upp að gosstöðvunum. Punktalínurnar eru gönguleiðirnar sem yfirvöld létu gera. Gulu línurnar eru annars vegar hugsanleg bílastæði í Nátthagadal og svo gönguleiðin upp úr honum.
  2. Nátthagi eða Nátthagadalur. Stór og mikil dalur. Innst má sjá gildragið sem auðvelt er að ganga upp að gosstöðvunum.
  3. Síðasta myndin er tekin í gildraginu. Þá var farið að snjóa en greinilega má sjá að þarna er tiltölulega aðvelt að ganga og brattinn lítill. Hentar öllu göngufólki.

 

 

 


Hálfur gígurinn í Geldingadal hrundi í nótt

GígurEinhvern tímann um miðja nótt hrundi gígurinn í Geldingadal. Þetta má greinilega sjá á beinu vefstreymi Ríkisútvarpsins.

Enginn hefur enn tekið eftir þessu enda snjóar núna þegar þetta er skrifað. Kosturinn við streymið er sá að hægt er að skoða síðustu klukkustundir en ég get samt ekki séð hvenær í nott hann hrundi.

Streymið hjá Mogganum liggur niðri en upplausnin þar hefur verið mjög mikil þar og gaman að horfa á gosið á stórum skjá og ekki síður að heyra drunurnar.

Hér er mynd sem ég tók af gígnum í síðustu viku og sést nokkuð vel hvað gerst hefur.

IMGL4267 copy AurGígurinn er núna opin til norðurs eða norðvesturs. Helmingur hans hrundi en gosið er óbreytt. Þetta hafði engin áhrif á það. Líklega mun þetta þýða að hraunið heldur næstu daga áfram að renna í dalinn en ekki úr honum í Geldingadal eystri.

Nú er gígurinn ekki ósvipaður gígnum á Fimmvörðuhálsi. Sá er lokaður til suðvesturs, er hálfur eins og þessi. Svo kann ýmislegt að breyst þegar dagar líða.


Alls ekkert útivistarveður Ríkisútvarpsins

RúvEinhvern tímann kemur að því að fyrirsögnin á vef Ríkisútvarpsins verður rétt. Undanfarna daga hefur hún ekki verið það. Stofnunin kallar sig „útvarp í almannaþágu“ og álíka en stendur ekki alltaf undir nafni, ekki frekar en aðrir fjölmiðlar. Allir þykjast vera í þágu lesenda, hlustenda og áhorfenda en svo er ekki alltaf. Því miður.

Gallinn er sá að Ríkisútvarpið er með beint streymi frá gosstöðvunum í Geldingadal. Í útsendingunni má glögglega sjá að ágætt útivistarveður hefur verið flesta daga síðan gosið byrjaði.

En hvað er gott veður til útvistar? Sumir segja að veðrið skipti engu máli, bara klæðnaður fólks og annar útbúnaður til göngu. 

Aðrir hafa fundið upp orðið „gluggaveður“. Það notar „of-fólkið“ og sparar það ekki. Úti er of kalt, of hvasst (of mikill vindur á fjölmiðlamáli), of mikil rigning (eða bara rigning), of lítil sól. Viðbárurnar eru margar og aumar.

Ríkisútvarpið hefur hins vegar tekið að sér það verkefni að segja fólki til um útivist en hefur því miður nær alltaf rangt fyrir sér. Sífelldur áróður gegn útvist er lítt hvetjandi. Byggir upp bölvaðan aumingjaskap sem endar með því að fólk leggur upp laupanna heima í stofu horfandi og étandi sykurvörur. Þá væri nú meiri mannsbragur á því að berjast á móti vindi á „Kaldadal“: 

Ég vildi óska, það yrði nú regn
eða þá bylur á Kaldadal,
og ærlegur kaldsvali okkur í gegn
ofan úr háreistum jöklasal.

Þurfum á stað, þar sem stormur hvín
og steypiregn gerir hörund vott.
Þeir geta þá skolfið og skammast sín,
sem skjálfa vilja. Þeim er það gott.

Undir Kaldadal heitir þetta ljóð eftir Hannes Hafstein, tvö erindi af fimm. 

Ég þreytist ekki að vitna í bók Guðmundar Einarssonar listamanns frá Miðdal:

„Íslendingar eru skyldugir til að leggja stund á göngur og skíðaíþrótt, þá vaxa þeim ekki fjarlægðir í augum. Sund, leikfimi og fleiri íþróttir eru ágætur undirbúningur fyrir fjallgöngumann jafnframt því, að hann beri virðingu fyrir líkama sínum. Ég veit, að fyrstu tilraunum fylgir nokkur hætta, ef ekki er reynt fólk með í för. En það aftrar mér ekki frá að hvetja fólk til að ganga á fjöll.

Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum. Ég hef séð kunningja minn hrapa til dauða í Alpafjöllunum, en það fékk mér ekki eins mikillar sorgar og að sjá fjölda fólks, sem ég þekki, grotna niður af fitu, leti og óreglu.“ (Fjallamenn, blaðsíða 161)

Í stað þess að letja fólk til útiveru eiga fjölmiðlar eða hvetja. Ekki láta fréttirnar fjalla um örfáa göngumenn sem eru illa búnir á ferð sinni að gosstöðvunum heldur lífsreynslu þeirra sem farið hafa.

Alamannavarnardeild Ríkislögreglustjóra vildi í upphafi goss að fólk gengi í Geldingadal frá Bláa lóninu eða Grindavík. Ég þekki fólk sem það gerði og komst til baka nær örmagna eftir nær ófæra leið yfir hraun og hlíðar. Og ekki hefur Ríkislögreglustjóri beðist afsökunar á frumhlaupi sínu. Líklegast stunda engir starfsmenn þar útivist. Þekkingarleysi er alvarlegur galli hjá valdstjórninni.

En um síðir verður fyrirsögnin á vef Ríkisútvarpsins rétt, einhvern tímann kann að vera að veður til útivistar verði vont og jafnvel kann sú stund að renna upp að einhver útivistarmaður taki að sér ritstjórn vefsins.

Ruv 2Eftirskrift

Pistillinn birtist klukkan 08:25 og ég tók eftir því um nú hádegið að fyrirsögninni hefur loks verið breytt. Það er gott. Sjá meðfylgjandi mynd. 

 


Firn að sjá og heyra í Geldingadal

IMGL4156 1 AurNáttúra landsins er blind og miskunnarlaus. Hún getur verið fögur og heillandi en vissara er að halda vöku sinni, vera vel klæddur og fylgjast með umhverfinu. Við félaganir lentum í suðvestan útsynningi, hríð, snjókomu og frosti þegar við gengum upp að gosstöðvunum í Geldingadal. En á milli hryðja var ekki hægt að kvarta yfir veðrinu. Sá sem er vel klæddur og veit hvert hann er að fara, þekkir áttirnar, kemst þó hægt fari. 

Af meðfæddri óhlýðni gat ég ómögulega farið stikaða gönguleið að gosstöðvunum. Sé enga ánægju í að hanga í óslitinni fimm km halarófu, troða drullu og renna til í flughálli brekku.

IMGL4195 AurorMeð erfiðismunum gat ég talið ferðafélaga mína á að fylgja mér. Þeir sáu ekki eftir því þó hlýðnin við valdstjórnina væri í fyrstu að drepa þá. Nú mæla þeir óspart með þessari leið og gefa lítið fyrir yfirvöld.

Eftir að hafa skoðað aðstæður valdi ég dalinn þar sem Nátthagi er, Nátthagadalur er réttnefni. Rennislétt er inn eftir dalnum og innst þrengist hann í aflíðandi brekku eða gilnefnu. Þá er komið í Geldingadal eystri og þaðan er örskammt að gígnum og hvergi hægt að komast nær honum. Við gengum rólega og voru um einn og hálfan tíma á leiðinni.

IMGL4184 1 AuroGígurinn, sem óðum er að breytast í tvo gíga, er vart fagur, ekki frekar en byssuhlaup. Og þó. Að sunnanverðu má segja að hann sé formfagur, eldborg í mótun sem hugsanlega verður síðar eins og aðrar sem fyrirfinnast á Reykjanesskaganum. Nema því aðeins að þarna verði með tímanum til dyngja sem kaffæri öll dalverpi; Fagradalsfjall og Grindavík að auki.

Eldborgin og hraunið setur svip á landslagið og það gerðu björgunarsveitarmenn líka. Væntanlega þykir almenningi gott að geta treyst á aðstoð ef óhapp hendir. Við mættum nokkrum harðsnúnum sem báru óheppinn göngumann í börum. Einn á undan, einn á eftir og fjórir báru. Austan við gíginn beið björgunarsveitarbíll á fjörutíu og fjögra tommu dekkjum, kemst allt nema yfir glóandi hraun.

IMGL4299 AurEldfjallið er ekki alveg hljóðlaust en lítið er um drunur. Af og til þeytast kvikuslettur í öllum stærðum í loft upp og sumar lenda aftur ofan í gígnum en aðrar í hlíðar hans. Þá heyrist undarlegt hljóð, rétt eins og gler brotni. Kvikan kólnar í loftinu og mynda þunna glerkennda skán sem brotnar með þessum hljóðum.

Um kvöldið þegar dimmt var orðið sáust drónar með rauðum og hvítum ljósum þeysa yfir hrauni og gígum. Þeir gáfu frá sér sérkennilegt ýlfur. Í fyrstu var eins og það kæmi frá fólki, manni datt fyrst í hug sálum fordæmdra í helvíti.

Langt niðri í svelgnum drundi fljótið dökkva
á djúpsins grunni, orgi trylltra hranna.
Ég skyggndist niður, inn í móðu og mökkva.

En angist slegin, ógnir þær að kanna,
ég undan leit, — hver firn að sjá og heyra:
Helvítiseldur, grátur, gnístran tanna ... 

IMGL4345 1 AuroSegir Flóensskáldið Dante Alighieri (1265-1325) um hið dýpsta víti (í þýðingu Guðmundar Böðvarssonar). Verkið heitir Hinn guðdómlegi gleðileikur og lýsir ferð hans um  víti (inferno), hreinsunareldinn (purgatorio) og loks Paradís (Paradiso).

Fólk var kátt, leiddi vart hugann að víti eða hreinsunareldi. Hér ríkti þjóðhátíðarstemning. Mikil gleði eftir gönguna og allir í adrennalínrúsi. IMGL4435 1 AurMikið hlegið og talað hátt, skeggrætt, handapat og bendingar. Sumir sungu, aðrir kveiktu á skotblysum og allir lýstu upp umhverfið með höfuðljósum og myndavélum. Við hrifumst með. Sáum konurnar sem sátu í mosanum, drukku kampavín og átu flatkökur með hangikjöti en kveiktu sér í sígrettu á eftir ...

Og ljósadýrðin stafaði ekki aðeins frá eldgígunum og hrauninu heldur líka frá höfuðljósunum. Strollan gat verið bílaumferð á Miklubraut.

Og auðvitað gerðist það sem síst skyldi að ég tapaði sjónar af ferðafélögum mínum í myrkrinu sem þýðir að þeir týndust. Aftur á móti halda þeir því fram að ég hafi týnst en það er bölvuð vitleysa.

IMGL4498 AuroDrjúga stund beið ég eftir þeim þarna sunnan við gíginn. Þar hugsaði ég, sem raunar gerist ekki oft, og fann það út að besta sjónarhornið á gígana væri því sem næst undir mekkinum sem lagði í norðaustur. Og ég arkaði upp á hæðirnar en viðurkenni að ég var doldið áhyggjufullur út af eiturgufunum og hélt að ég gæti hreinlega smitast þar af kóvit-19 eða drepist úr einhverju álíka. 

Uppi var hvorki meira né minna en björgunarsveitarbíll og nokkrir sveitarpiltar. Þóttist ég nú öruggur um að ekkert yrði mér að skaða og tók myndir.

IMGL4536Stuttu síðar heyrði ég skerandi hljóð frá piltunum rétt eins og glóandi kvika hefði fallið á þá. Annar þeirra blótaði og sagði að nú væri gasmælirinn kominn í gang og vissara að setja á sig gasgrímurnar. Mér brá auðvitað enda grímulaus. Þótti skynsamlegast að hverfa undan mekkinum og hætta kvöldröltinu, halda að bílnum. Eflaust myndi ég hitta félaga mína þar sem reyndist rétt.

Ég gekk í myrkrinu um Geldingadal eystri og niður í Nátthagadal og hugsaði með mér hversu heppinn ég væri að hafa valið þessa leið. Að vísu var einn galli á henni. Hann var sá að þarna undir hafði berggangurinn mælst og ef til vill gæti kvika komið upp í dalnum eða Borgarfjalli vestan við hann. En ferðin gekk áfallalaust og ég get hiklaust mælt með Nátthagadalsleiðinni. Þeir sem vilja forsjá valdstjórnarinnar, sem fátt veit, geta arkað stikuðu leiðina.


Löggan, Vegagerðin, almannavarnir og fjölmiðlar bregðast almenningi

GönguleiðÁbyrgð lögreglu og almannavarna var mikil þegar hún ákvað að loka Suðurstrandarvegi. Fyrir vikið þarf göngufólk sem vill skoða eldgosið í Geldingadal að ganga um tíu km að gosstöðvunum í stað rétt rúmlega fjögurra. Mörgum kann að þykja það nóg að ganga tólf km lengra en þarf.

Lögreglan, almannavarnir, Vegagerðin og líklega björgunarsveitarmenn í Grindavík eru algjörlega meðvitundarlausir um gönguleiðir að gosstöðvunum. Vegagerðin tók þá heimskulegu ákvörðun að loka Suðurstrandarvegi vegna þess vegkantur hafði sigið skammt frá Grindavík. Engin skýring var gefin á því að loka þyrfti veginum frá Krýsuvíkurafleggjaranum og til Grindavíkur, um tuttugu km leið. Vér einir vitum, virtist Vegagerðin segja.

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar sagði í viðtali við vef Ríkisútvarpsins:

Þetta er náttúrulega farið aðeins að síga og við vitum ekki nákvæmlega hvað er að gerast þarna því það eru sprungur á svæðinu út um allt.

Sprungur út um allt. Var þetta ekki dálítið orðum aukið? En enginn mælti þessu í mót, ekki lögreglan, almannavarnir eða björgunarsveitin í Grindavík. Þó vissu allir að þúsundir manna vildu skoða eldgosið.

Nei, enginn hugsaði um almenning. Kerfið er stillt á það sem hin opinbera stofnun Vegagerðin vill, ákvörðun hennar var óumdeilanleg, ekki áfrýjanleg. Vér einir vitum. Og kallarnir í löggunni, almannavörnum og björgunarsveitinni veita þegjandi samþykki sitt. Enginn virðist hugsa sjálfstætt. Hver apar upp eftir öðrum.

Sá eini sem hafði sjálfstæða skoðun var jarðeðlisfræðingurinn Magnús Tumi Guðmundsson, fjallamaður með meiru. Hann sagði í viðtali við Vísi:

Það verður að fara varlega þarna og nálgast þetta af virðingu. Að sama skapi er þetta fallegt og ég skil vel, og fólk á að hafa möguleika á að komast þarna. Ég held það eigi frekar að auðvelda fólki að fara þarna frekar en að það sé að sprengja sig á löngum göngutúrum.

Þetta er kjarni málsins. Að vísu kom þetta tveimur dögum of seint fram enda allt komið í óefni. En samt var eins og löggan vaknaði af djúpsvefni sínum. Yfirlögregluþjónninn á Suðurnesjum sagði í viðtali við mbl.is:

Með því að hafa bíla­stæðið aust­ar við Festar­fjall, aust­an við háls­inn, stytt­ir það til dæm­is göngu­leiðina og við erum með jafn­vel í und­ir­bún­ingi að stika leiðina þegar þar að kem­ur,“ seg­ir Gunn­ar.

Þúsundir manna hafa skoðað eldstöðvarnar, flestir í leiðindaveðri. Allt í einu fær löggan móral og nefnir það ráð sem hefði átt að grípa til snemma á laugardeginum. Auðvitað átti ekki að loka Suðurstrandarvegi öllum. Það var heimskuleg ákvörðun og illa ígrunduð og svo fór Vegagerðin í helgarfrí.

Þessi ákvörðun sannar að löggan, Vegagerðin og almannavarnir eru ekki fyrir fólkið í landinu heldur stofnanir sem hafa það markmið að viðhalda sjálfum sér frekar en að stuðla að velferð almennings.

Besta gönguleiðin, sú greiðasta og þægilegasta er við vesturenda fjallsins Slögu. Rétt rúmlega fjögurra km löng, flestir ganga hana á um klukkustund eða rúmlega það. Frá þjóðveginum liggur jeppavegur inn í Nátthagadal. Hann hafa jeppamenn og mótorhjólamenn þjösnast á í langan tíma. Sáralítil hækkun er á leiðinni, aðeins aflíðandi, og engar hindranir. Eftir það er gengið inn dalinn og upp úr honum innst. Þegar upp er komið er afar stutt í gosstöðvarnar og getur fólk þá valið að fara upp á fjallið fyrir sunnan Geldingadal eða upp á Fagradalsfjall. Veltur á vindátt hvaða leið er best því enginn vill lenda í mekkinum frá eldgosinu. 

Auðvitað hefði átt að stika þessa leið á laugardeginum og nota til þess björgunarsveitina í Grindavík. Félagar í henni hljóta að gjörþekkja svæðið og þeir hefðu betur nýst í verkefnið heldur en að tuða við fjölmiðla um illa útbúið göngufólk.

Þess má geta að verði Suðurstrandarvegurinn ekki opnaður má alltaf aka að kirkjunni við Bæjarfell sem er sunnan við Krýsuvík og þaðan vestur eftir gamla þjóðveginum. Ég veit ekki betur en að hann sé opinn. 

Nú er bara að vona að löggan og almannavarnir láti af fjandskap sínum við göngufólk og auðveldi þeim för frekar en að tálma. Það endar sjaldnast vel þegar stofnanir þjóðfélagsins vilja taka völdin af almenningi.

Hér hefur ekki verið nefndur hlutur fjölmiðla sem virðist hafa þá einu ritstjórnarstefnu að hneykslast á göngufólki, útbúnaði þess og hegðun. Enginn fjölmiðill hefur nefnt þá staðreynd að gönguleiðin að gosstöðvunum er ómöguleg og raunar hættuleg. Þó hefur fólk bent á ofangreinda gönguleið á samfélagsmiðlum og víðar. Eiginlega má segja að fjölmiðlar séu engu skárri en þær stofnanir sem ég hef hér með réttu atyrt fyrir verkleysi sitt.

Ríkislögreglustjóri

Viðbót sett inn kl. 11:45:

Hér er mynd af skjali frá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra sem er að etja fólki út í fjögurra til sex stunda gönguferðir frá Bláa lóninu (af öllum stöðum) og Grindavík.

Afsakið orðbragðið: Hvers konar bjánaskapur er að segja fólki að ganga frá Blá lóninu. Af hverju ekki frá Þorlákshöfn eða Keflavík? Kann þetta sófalið ekki á landakort og hefur það aldrei stundað gönguferðir á fjöllum?


Góða ferð á gosstöðvarnar

Gosstaður 100Eldgosið í Geldingadal er ekki merkilegt. Það er miklu minna en gosið á Fimmvörðuhálsi og alls ekki eins tilkomumikið. Engu að síður væri gaman að skoða það.

Æsingurinn í fjölmiðlum í gærkvöldi var mikill og þá sérstaklega í Ríkisútvarpinu. Þar voru allir reyndustu fréttamennirnir dregnir út og látnir vera í beinum útsendingum hér og þar. Fátt af því var athyglisvert enda höfðu fæstir viðmælendur neitt að segja. 

Einna merkilegast var að hlusta á viðtöl við jarðvísindamenn og upp úr stóð þegar einn þeirra Magnús Tumi Guðmundsson ráðlagði fólki að fara að sofa. Ekkert nýtt myndi sjást fyrr en birti. Ég fór að ráðum hans.

Eftir að birti kom í ljós að gosið var afar lítið. Fyrstu myndir sýna það glögglega. 

Æsingurinn í fjölmiðlunum var smitandi og ég var þar engin undantekning. Birti hér á blogginu nákvæma staðsetningu á gosinu og tilgátu um hraunrennsli sem var glettilega nálægt korti sem lögnu síðar birtist í fjölmiðlum.

Efst er ein af þeim frábæru myndum sem í dag hafa birtist í fjölmiðlum og er af vef Jarðvísindastofnunar. Hún sýnir svo ekki verður um villst hversu lítið gosið er. Einnig má af henni vera ljóst að ekki var ofmælt sem vísindamenn fullyrtu að staðurinn er einn sá afskekktasti á Reykjanesi og mikil heppni að þar gaus, fyrst einhvers staða átti að gjósa.

220320 kortHer er kortið sem birtist um klukkan þrjú á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Það er glettilega líkt mínu korti sem ég dró upp eftir að hafa athugað myndir sem teknar voru fyrir miðnætti í nótt, í myrkrinu. Gossprungan var að minnsta kosti rétt staðsett í litla fellinu í Geldingadal þó ég hefði átt að snúa henni í norðaustur-suðvestur eins og allar gossprungur hafa verið á Reykjanesskaga síðustu árþúsundir. Slæm villa.

GossprunganHvað sem öllu líður veit ég að göngufólk hefur áhug á því að skoða eldstöðvarnar. Ekkert er að því. Þegar gaus á Fimmvörðuhálsi gengu hundruð manna upp á Hálsinn, um tuttugu km leið, til að skoða gosið og síðan sömu leið til baka. Samtals fjörutíu km. Líklega hafa þúsundir manna ekið upp á Mýrdalsjökul og þaðan yfir á Fimmvörðuháls til að skoða gosið.

Ég trúi því ekki að lögregla ætli að banna göngufólki ferðir á gosstöðvarnar.  Vera má að löggan verði aðhlátursefni ef dreginn verður upp guli plastborðinn eins og hún notaði á Fimmvörðuhálsi til að koma í veg fyrir að fólk „fari sér að voða“. Slitrur af plastborðanum eru enn að finnast við hraunið á Hálsinum.

Fólk fer sér ekki að voða því það er skynsamt og úrræðagott á fjöllum. Miklu betra er að líta til með göngufólki við gosstöðvarnar, svona til vonar og vara. Verstu slysin verða í umferðinni. Flestir deyja í rúminu heima.

Sjá neðsta kortið:

  1. Um tíu km eru frá hverasvæðinu við Krýsuvík i Geldingadal, lengsta leiðin
  2. Best er að ganga frá Suðurstrandarvegi vestan við Borgarfjall. Þaðan eru aðeins fjórir km í Geldingadal.
  3. Einnig er hægt að gagna frá veginum í sunnanverðum Móhálsadal en vegurinn er aðeins fyrir fjórhjóladrifsbíla. Þaðan eru um sex km í Geldingadal.

Grundvallaratriðið er góður fatnaður, traustir skór og nesti, drykkir og aukaföt í litlum dagpoka. Og muna eftir myndavél. Þetta er bara „túristagos“, Eða hvað?

Góða ferð á gosstöðvarnar. Ekki láta lögguna stoppa góða göngu á laugardegi eða sunnudegi.

Gönguleiðir


Hér er gosstaðurinn við Fagradalsfjall

GosstaðurinnGosið við Fagradalsfjall er í Geldingadal. Hann er lokaður. Fell og hæðir eru allt í kring um dalinn og varla að hraun renni í bráð út úr honum. Safnast bara saman þarna. Nema því aðeins að sprungan sé í hlíðum.

Samkvæmt því sem jarðfræðingar segja er þetta afar lítið gos, smáskita.

Fjarlægðin frá Grindavík er um níu km í beinni loftlínu.

Útilokað er að sjá gosið nema af nálægum fjöllum eða úr lofti. Það er því ótrúlega vanhugsað af fólki að aka um Reykjanesbraut eða aðra vegi til þess eins að sjá bjarmann af gosinu.

Mjög ólíklegt er að gas berist í hættulegu magni til nálægra staða vegna rigningar og hvassviðris.

Gosstaður 2Af hreyfimyndum í sjónvarpi að dæma rennur hraun í suður niður halla. Vestara hraunrennslið er mun hægara og þar safnast hraunið saman. Vonlítið að átta sig á nákvæmlega á hvar sprungan er í dalnum. En í fréttum kom fram að gossprungan kunni að vera allt að 500 m löng. Eftir því sem vísindamenn segja er sprungan austan megin í Geldingadal, hugsanlega í austurhlíðunum, nærri Merardal sem líka er frekar lokaður.

Dalbotninn er í 180 m hæð og Fagradalsfjall sem er vestan við dalinn er þarna í kringum 300 m. Austan dalsins eru lægri fell. 

Þegar hreyfimyndin er skoðuð nánar sést að á sprungunni eru sjö til átta strókar, gosop. Að öllum líkindum mun smám saman draga úr kraftinum á öllum gosopunum nema einu. Þetta er háttur sprungugosa víða og þannig hafa jarðvísindamenn spáð um hegðun goss á Reykjanesskaga. Þannig var þetta á Fimmvörðuhálsi og í Holuhrauni. 

Neðstu myndina hef ég birt áður. Hún er tekin af Keili. Á henni sést Fagradalsfjall og er eldgosið í Geldingadal sem þó sést ekki á myndinni.

Best er að smella á myndirnar og þá stækka þær mjög og skiljast betur.

GossprunganKl. 00:47: Eins og áður sagði er erfitt er að gera sér grein fyrir því hvar gossprungan nákvæmlega er. Eftir að hafa skoðað nákvæmlega hreyfimyndir og ljósmyndir er hugsanlegt að meðfylgjandi mynd sýni nokkurn veginn staðinn. Rauða línan er gossprungan en gulu flekkirnir eru hraunin.

 

 

Hér verður bætt við einhverjum fróðleik eftir því sem umsjónarmaður hefur nennu til.

DSC_0080 Keilir, útsýni SV, flott copy


mbl.is Eldgos hafið við Fagradalsfjall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fréttum er þetta helst: Eldgos á Reykjanesi

Ég kveikti á sjónvarpinu. Fréttir voru að byrja og geðþekk fréttakona las upp það helsta sem var í fréttum:

  1. Gos á Reykjanesi
  2. Gos á Reykjanesi
  3. Gos á Reykjanesi
  4. Gos á Reykjanesi
  5. Gos á Reykjanesi
  6. Gos á Reykjanesi
  7. Gos á Reykjanesi

Gott kvöld, sagði svo fréttakonan geðþekka, brosti fallega og sagði: „Þó svo að gosóróinn hafi dvínað er enn búist við gosi suðvestan við Keili. Stína Jóns fréttamaður er stödd á Núpshlíðarhálsi og við skiptum yfir til hennar.“

„Já“, segir Stína Jóns og spyrnir með hægra fæti og hallaði sér upp 30 gráður í vindinn. Og að loknu jáinu segir hún: „Enn bólar ekkert á gosinu. Héddna þrjátíu og átta kílómetrum fyrir aftan mig er Keilir og skammt frá honum er Fagradalsfjall. Við sjáum auðvitað ekki þessi fjöll því annað fjall skyggir á þau og svo er næstum því komið myrkur. Ekki er enn farið að gjósa. Við segjum þessu lokið frá Núpshlíðarhálsi.

„Þakka þér fyrir Stína Jóns, segir fréttþulurinn. „Þetta var flott, næstum því eins og þegar Ómar Ragnarsson var hérna. Farðu nú varlega að bílnum. Margur hefur hrasað á skemmri vegalengd en tíu metrum. Í stjórnstöð Almannavarna er Gunni Jóns, fréttamaður og hann ætlar að tala við Albertínu Guðmundsdóttir jarðeðlissamtíningafræðing um nýafstaðinn fund gosstjórnenda.“

Á skjánum birtist vörpuleg kona.

„Já,“ sagði Gunni Jóns og hnyklar brýrnar. Og heldur svo áfram að loknu jáinu: „Albertína, er von á gosi á Reykjensskaga.“

„Tja, sko, það er nú það,“ segir Albertína. „Ef ekki gýs í kvöld, þá gæti gosið á morgun, hinn daginn, daginn þar á eftir eða síðar. Jafnvel eftir mánuð, ár eða aldir. Við vitum ekkert um hvað gerist fyrr en eftir að gosið hefur byrjað. Hafðu þá samband.“

„Já,“ sagði Gunni Jóns, fréttamaðurinn, og mislyfti brúnum. „En hvað kom fram á þessum fundi í stjórnstöð Almannavarna?“

„Afar fátt nema að ef ekki mundi hafa næstum því gosið í kvöld þá getur næstum því gosið á morgun ...“

„En hvaða líkur eru á gosi?“

„Í raun eru engar líkur á gosi nema eftir að gos hefur hafist,“ segir Albertína, alvarleg í bragði.

„Verður þetta hamfaragos?“

„Nei, varla. Ekki nema það verði afar stórt og mikið og hraun renni yfir fólk og bíla.“

„Verður þetta hættulegt gos?“

„Eldgos eru alltaf hættuleg nema þau sem eru lítil. Þess vegna verður maður að fara varlega. Nema gosið sé lítið.“

„Er Jesú Kristur væntanlegur?“

„Já, hann kemur og með honum englaher og hann mun ræsa eldgosið með viðhöfn á þeim stað þar sem fólki og mannvirkjum mun minnst hætta stafa af. Og þar mun hann í leiðinni dæma okkur öll hvort sem við erum lifandi eða ekki.“

„Hvernig dæmir hann Jesú?“

„Góða fólkinu í Samfylkingunni, Viðraunum og Pí Rötum mun verða fyrirgefnar allar stórkostlegu misgjörðir þeirra og þeir fá að koma í ESB, afsakið Himnaríki. Öðrum mun verða kastað í tólf km langa eldsprunguna enda var hún hönnuð til að taka á móti vondafólkinu og því þannig refsað fyrir syndir sínar og spillingu.

„Var einhvern tímann fólk á Mars, gróður, vegir, sundlaugar og soleiis?“

„Hvers konar asnaspurning er þetta. Þú veist að ég get bara tjáð mig um jarðeðlisfræði og trúmál ...“

Þarna slökkti ég á sjónvarpinu enda ekkert í fréttum nema ekkieldgos á Reykjanesi. Og ég veit ekki einu sinni hvar þetta Reykjanes er.

Athugið að nafni sjónvarpsstöðvarinnar er hér haldið leyndu svo og nöfnum þeirra sem koma við söguna sem byggir í stórum dráttum á sönnum atburðum.

 


Mynd af jarðskjálftasvæðinu suðvestan við Keili

DSC_0077 Keilir, toppur, S b

Jarðfræðingar segja að „betri“ staður fyrir eldgos á Reykjanesi sé vandfundinn en suðvestan við Keili. Þetta mun vera rétt. Þarna er afar fáfarið en víða ægifagurt og þarf ekki annað en að skoða loftmyndir.

Suðvestan við Keili eiga flestir jarðskjálftar undanfarinna daga upptök sín. Sagt er að þar í iðrum jarðar sé kvika að þrengja sér upp á við. Slíkt gerist jafnan þegar landrekið skilur eftir sprungur, kvikan fyllir þær. Óvíst er að hún komi nokkru sinni upp á yfirborð jarðar.

Myndin hér til hliðar er tekin af Keili. Hún er gerð úr þremur myndum og því er horft frá suðri til vesturs. Þarna er Þráinsskjöldur, dyngja sem varð til fyrir um 7.000 árum.

Á myndina hef ég sett nokkur örnefni og að auki tvær línur. Milli þeirra eru upptök langflestra jarðskjálfta sem skekið hafa Reykjanes og að auki höfuðborgarsvæðið. Ráðlegg lesendum að smella á myndina til að stækka hana og verður hún þá skýrari. 

Lengst til vinstri er Vesturháls sem líka nefnist Núpshlíðarháls. Handan hans er Móhálsadalur og einnig Austurháls sem nefnist líka Sveifluháls. Þessir tveir hálsar eru með stefnuna suðvestur-norðaustur. Og hvað er svo merkilegt við það? Jú, skjálftarnir umræddu hafa sömu stefnu. Verði eldgos verður það ábygglega á sprungu sem hefur þá stefnu. 

Munum samt að Vesturháls og Austurháls eru úr móbergi og urðu til við gos undir jökli á síðustu ísöld, svona í stuttu máli sagt.

Efst á Þráinsskildi eru „vatnaskil“ ef svo má að orði komast um nær vatnslaust svæði. Þetta þýðir að öllu skiptir hvar hugsanleg eldsprunga myndast. Sé hún norðarlega rennur hraun í áttina að Reykjanesbraut og byggðum þar. Sé hún aðeins sunnar rennur hraunið í áttina að Vesturhálsi og hugsanlega niður að Suðurstrandarvegi. Þarna má litlu skeika.

Myndist eldsprungan nálægt fjallinu sem nefnist Litli-Hrútur mun hraun renna inn í dalinn sem sést á myndinni og safnast þar saman þangað til það finni halla til suðurs eða vesturs.

Af þessu öllum má sjá að suðvestan við Keili er „góður“ staður fyrir eldgos. 

Svona í lokin er ekki úr vegi að nefna þann draumspaka kunningja minn sem ég hitti um daginn. Hann heldur því fram að annað hvort gjósi í sjó eða hraun renni í sjó fram. Segist ekki vita hvort verði raunin. Tek þessu mátulega trúanlegu, veðja þó frekar á jarðfræðinga um þessi efni.


Vera frelsissviptur og eldfjall sendir frá sér heitt rautt hraun

Sjá nánar á bloggsvæðinu málfar.


Bónus gjörbreytti matvöruverslun til hins betra

Þú gefur aldrei eftir lægsta verðið og þú skilar alltaf hluta af bættum ávinningi í innkaupum til neytenda. [...]

Ef aðeins annar aðilinn hefur eitthvað úr viðskiptunum er það ekki viðskiptasamband. Þá varir það yfirleitt stutt. Þetta þarf allt að haldast í hendur.

Opnuviðtalið í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag, 10 febrúar 2021, við Guðmund Marteinsson, framkvæmdastjóra Bónus, er frábært. Greinilega skýr maður, eldklár og duglegur. Fjölmargt í viðtalinu kemur á óvart. Ég hef margt lært í viðskiptum af bókum, í háskóla og á námskeiðum, en í viðtalinu er komið að kjarna málsins sem margorðir kennarar og prófessorar hafa týnt í fræðum sínum. Þeir gætu lært mikið af Guðmundi.

Jón Ásgeir Jóhannesson og faðir hans stofnuðu Bónus. Einhvers staðar las ég að ástæðan hafi verið sú að Jóhannes Jónsson hafi verið sagt upp störfum í SS verslun í Hafnarstræti. Feðgarnir ákváðu þá að stofna lágvöruverslun. Guðmundur Marteinsson tók við sem stjórnandi þegar Jón Ásgeir hvarf til annarra verkefna.

Ég man eftir því að hafa reynt að ráða ungum manni heilt sem framleiddi vörur fyrir Bónus á tíunda áratug síðustu aldar. Jón Ásgeir kvaðst vilja kaupa vöruna og selja í verslunum sínum en á ákveðnu verði sem var hrikalega lágt, miklu lægra en þurfti. Annað hvort eða ... sagði Jón Ásgeir, þurrlega. Hann var nagli í viðskiptum. Hvers vegna? Jú, hann vildi geta boðið neytendum sínum lægsta verðið. Hinar stóru verslanirnar virtust vera í einhverjum vináttusambandi við birgja sína og verðmyndunin bitnaði fyrst og síðast á neytendum.

Stefnumörkun Jóns Ásgeirs hefur verið notuð í Bónus frá því að Guðmundur Marteinsson tók við. Verslanirnar hafa frá upphafi verið með lægsta verðið og nú upp síðkastið kunna fleiri verslanir að vera með næstum því eins lág verð. Á því má sjá hversu arfleifð Jóns Ásgeirs og föður hans er mikil að jafnvel keppinautarnir feta í fótspor hans.

Guðmundur segir:

Síðan þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri árið 1998 fékk ég Herluf Clausen, hinn eina sanna, í lið með mér og hann ferðaðist um allan heim í leit að vörum á betra verði fyrir Bónus. [...]

Við horfðum upp á að innkaupsverð okkar á vörum sem við vorum að kaupa af íslenskum heildsölum var oft miklu hærra en út úr búð í löndunum í kringum okkur. Við lögðum gríðarlega hart að okkur að finna vörur, merkjavöru, á lægra verði og reyna að klippa út milliliðinn neytendum til hagsbóta.

Okkur neytendum var alltaf sagt að ástæðan fyrir hærra vöruverði á Íslandi sé flutningskostnaðurinn. Vissulega kann hann að skipta máli en fjölmargt annað. Innkaupsverðið er auðvitað aðalatriðið og Guðmundur leitaðist við að hafa það sem lægst jafnvel þó það kostaði átök við heildsala og erlenda framleiðendur.

Flottast í viðskiptum er að hafa fínar skrifstofur, einkaritara og fjölda manna sem gera eiga eitthvað sennilegt. Í Bónus er yfirbyggingin lítil, verslanir margar og hagkvæmnin mikil. Og verðið er hið sama í öllum verslunum Bónus, á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.

Við lestur viðtalsins reikaði hugur minn til þeirra ára er ég starfaði í Neytendasamtökunum með ágætum mönnum eins og Jóni Magnússyni, Jóhannesi Gunnarssyni og Guðsteini V. Guðmundssyni sem voru miklir frumkvöðlar í neytendamálum. Viðhorf alltof margra verslunareigenda á þessum tíma var að neytandinn hefði rangt fyrir sér. Megnaða kjötfarsið, ónýtu kartöflurnar og margt annað þurftu neytendur að gera sér að góðu. Engar bætur voru í boði ef fatnaður reyndist gallaður, verslunareigandinn þráaðist við. Verðmerkingar voru litlar sem engar og svo framvegis. Með tilkomu Bónus verslananna breyttist flest og allt til betri vegar. Barátta Neytendasamtakanna var oft erfið, enda við Golíat að etja.

Eitt af því athyglisverðasta í viðtalinu er hreinskilnin:

Að sögn Guðmundar hefur hann gert ótal mistök í innkaupum í gegnum tíðina og fái oft skot frá samstarfsfólki sínu þar um. Það sé eins og gengur og gerist í þessu en Jóhannes hafi alltaf talað um að gera ekki sömu mistökin of oft.

Allir gera mistök en varla viðurkenna margir stjórnendur slíkt og síst af öllu að leyfa undirmönnum að gagnrýna. 

Viðtalið við Guðmund tók Baldur Arnarsson, blaðamaður Moggans. Hann er líklega einn af þeim klárustu á blaðinu og jafnvel þó víðar væri leitað. Spyr áleitinna spurninga og Guðmundur svarar af hreinskilni. Fjöldi millifyrirsagna auðveldar lestur greinarinnar.


Skelkur í miðri Egils sögu og glíman við drauginn

En er þeir voru komnir upp í klifið, þá hljópu sjö menn úr skóginum og upp í kleifina eftir þeim og skutu að þeim. Þeir Egill snerust við, og stóðu þeir jafnfram um þvera götuna; þá komu aðrir menn ofan að þeim á hamarinn, og grýttu þeir þaðan á þá, og var þeim það miklu hættara.

... sagði lesari hljóðbókar Egilssögu með dimmri röddu, kvað að hverju orði, spennan jókst. Enn einu sinni sátu Norðmenn fyrir Agli og ætluðu ekkert annað en að drepa hann. Ég var niðursokkinn í söguna á göngu minni upp frá Elliðavatni, gekk greitt og álútur í norðaustanáttinni. Gerðist þá hvort tveggja í senn, lesarinn lauk ofangreindum orðum og ég heyrði hljóð sem var ekki vindgnauð. Leit örsnöggt við og sá að hjólreiðamaður var við það að anda ofan í hálsmálið á mér þarna á þröngum göngustígnum. Mér brá hrottalega, missti þvag, slefaði, kiknaði í hnjánum, argaði skrækróma og lá við yfirliði af skelfingu. Náði mér samt nokkrum sekúndum síðar og hjólamaðurinn rann fram hjá mér.

„Farðu í rassgat,“ tautaði ég. Hef líklega sagt þetta hærra en ég ætlaði enda er það oft háttur þeirra sem eru með síma eða tónlist í eyrum að tala nokkrum desíbeljum hærra en eðlilegt er. Hjólreiðamaðurinn hægði ferðina og gat ég greint að hann væri ekki sáttur við kveðjuna.

„Ég komst ekki framhjá þér,“ sagði hann. „Og hvað get ég gert að því þótt þú sért með eitthvað í eyrunum?“ sagði hann.

„Hvað get ég að því gert að þú sért að flækjast hér og skelfir saklausa göngumenn?“ ruglaði ég í algjöru fáti, fann ekkert gáfulegra að segja þar sem ég vissi upp á mig sökina.

Hann hjólaði áfram. Samræðurnar tóku aðeins nokkrar sekúndur en enn var skelkurinn ekki úr mér. Og hvað varð mér að orði? „Farðu í rassgat,“ tautaði ég sem var það nógu hátt til að hjólamaðurinn heyrði.

„Þú ert dóni,“ sagði sá hjólandi, og jók hraðann. Ég brást ekki við fullyrðingunni. Um leið og skelkurinn rjátlaðist loks af mér áttaði ég mig á því að hann hafði rétt fyrir sér. Hefði auðvitað átt að biðja hann afsökunar. Kannski var ég ekkert ólíkur sumum fornmönnum sem brugðu fyrst vopnum áður en þeir spurðu.

Mér hefur ekki brugðið jafn mikið síðan ég lenti í glímunni við drauginn utan við Fimmvörðuskála veturinn 1992. Þannig var að um miðja nótt fann ég knýjandi þörf að kasta af mér vatni enda höfðum við félagarnir dreypt örlítið á öli um kvöldið. Og þegar ég milli svefns og vöku opna austurdyrnar til þess að ganga erinda minna, grípur einhver í axlir mínar og kippir mér út í niðamyrkrið enda var hvorki tunglsljós né stjörnubjart. Draugurinn tuskaði mig til í nokkrar sekúndur og ég gat mér enga björg veitt því skelkurinn sat í mér. Enginn vaskleiki var í mér frekar en Friðgeiri þeim sem frá segir í Egilssögu:

921001-16 bFriðgeir var maður ekki mikill, grannlegur og fríður sjónum og ekki sterkur; hafði hann og ekki staðið í bardögum.

Þó ég telji mig mikinn mann, grannan og fríðan eru fjölmargir á annarri skoðun, jafnvel nánir vinir og ættingjar. Og enga reynslu hef ég í bardögum og allra síst við drauga. Víkur nú aftur að draugnum sem hristi mig allóþyrmilega. Var mér þá til happs að ég gat fálmað hendinni í skíði sem stóð upp á endann þarna við austurgaflinn. Ég greip það með hægri hendi og barði í fætur draugsa sem missti við það tökin á mér en ég flýði inn í skála, fór inn á kamarinn og greip þar litla tunnu fulla af mannasaur og vopnaður honum steig ég aftur út um dyrnar. Og þarna stóð Glámur á öðrum fæti grenjandi af heift og reiði. Ég skvetti saurnum að honum og hann hörfaði organdi. Hafði einhvern tímann lesið að hið eina sem gagnast gegn draugum er mannasaur. Gott er að vera víðlesinn. Og draugsi flýði sem fætur toguðu undan skítlegum köstum mínum, gott ef hann gufaði ekki upp í 920315-13 Fimmvörðuskálisvartnættið. Minnir það.

Svo gerist það morguninn eftir að við bjuggum við okkur til brottferðar og var ég byrjaður að segja frá viðureign næturinnar en félagar mínir hlusta aldrei á mig heldur flýttu sér út með sitt hafurtask. Fannst skiljanlega lítt áhugavert að hlusta á sögu um mann sem fer út að pissa.

Úti voru þeir alveg gáttaðir á harðfrosnum saurklessunum sem lágu á víð og dreif á hvítum snjónum. Ekki síður urðu þeir minna forviða að sjá þarna bakpoka og gönguskíði í reiðileysi. Þá fór mig ósjálfrátt að gruna ýmislegt. Sagði samt ekki orð, axlaði bara pokann minn og skíðaði niður Fimmvörðuhrygg á undan strákunum.

Þegar við vorum nærri því komnir að Fúkka sáum við mann sem gekk eftir austurleiðinni frá skálanum og upp í vegskarðið. Bakpoka hafði hann ekki og öslaði snjóinn án skíða og stafa. Félagar mínir veifuðu en hann svaraði ekki kveðjunni þótt hann sæi okkur fullvel. Eitthvað var þarna rætt um dónalega framkomu á fjöllum. Ég jók ferðina og skíðaði sem hraðast niður Hálsinn, langt á undan félögum mínum, sem þó eru allir betri skíðamenn en ég.

Söguna um viðureign mína við drauginn hef ég ekki sagt neinum fyrr en nú. Og það af gefnu tilefni. Velti því fyrir mér hvort hjólamaðurinn og draugurinn séu einn og sami, sko maðurinn. Skuldir afsakanna safnast fyrir hjá mér.

En svo ég víki aftur af sögunni um hjólreiðamanninn. Hann hvarf mér út í buskann. Ég tróð því nú hlustunargræjunum aftur upp í eyrun og hélt áfram að hlusta á Egils Sögu. Eitthvað hafði ég þó misst úr því þarna sagði:

Egill hafði mörg sár og engi stór; fóru þeir nú sína leið; hann batt sár förunauta sinna og voru engi banvæn; settust þeir þá í sleða og óku, það er eftir var dagsins.
En þeir hinir vermsku, er undan komust, tóku hesta sína og drógust austur af skóginum til byggða; voru þá bundin sár þeirra; fá þeir sér föruneyti, til þess er þeir komu á fund jarls, og segja honum sínar ófarar; þeir segja, að hvortveggi Úlfur er fallinn og dauðir voru hálfur þriðji tigur manna -- "en fimm einir komust undan með lífi og þó þeir allir sárir og barðir."

 

Efri myndin er af tunnu með mannasaur úr Fimmvörðuskála. Skálverðir er að hella úr henni í hyldjúpa sprungu á Mýrdalsjökli. Þar geymist hann uns Katla gýs honum. Það verður sjón að sjá.

Seinni myndin er af austurhlið Fimmvörðuskála. Skíðin hafa verið lögð niður enda örskammt í brottför.


Er markmiðið í stjórnmálum að ófrægja andstæðinginn?

Sé ætlunin að berja á andstæðingi í stjórnmálum, niðurlægja hann eða ófrægja er aðferðafræðin þessi:

  1. Vitna í orð andstæðinganna
  2. Fara rangt með tilvitnunina
  3. Leggja út af hinni röngu tilvitnun
  4. Fá fleiri til að gera hið sama

Þetta kann Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar flestum betur og fer nákvæmlega eftir þessum fræðum. Hún skrifar grein í Morgunblaðið 30. janúar 2021, sjá hér.

Og svona gerir hún:

Vitnar í orð andstæðinganna:

Það kom líka ber­lega í ljós á Alþingi í vik­unni þegar Logi Ein­ars­son, formaður Samfylking­ar­inn­ar, spurði Bjarna Bene­dikts­son, formann Sjálf­stæðis­flokks, út í af­stöðu hans til sí­fellt verri stöðu Íslands í þess­um mál­um. Því miður báru svör for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins með sér að hann tel­ur skýrsl­ur sem þess­ar, sem og niður­stöður GRECO, sam­taka ríkja Evr­ópuráðsins gegn spill­ingu, ekk­ert til að hafa áhyggj­ur af.

Fer rangt með tilvitnunina:

Svo virðist sem formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins telji það eng­in áhrif hafa á ís­lenskt at­vinnu­líf og efna­hag þjóðar að hér auk­ist spill­ing jafnt og þétt á valda­tíma hans, en þá er rétt að benda hon­um á að við ákvörðun um fjár­fest­ing­ar er­lendra aðila hér á landi er ein­mitt horft til stöðu ríkja er varðar spill­ingu.

Leggur út af hinni röngu tilvitnun:

Allt sam­fé­lagið tap­ar trú­verðug­leika á alt­ari sér­hags­muna­gæslu Sjálf­stæðis­flokks­ins. Rann­sókn­ir sýna að spill­ing er ill­víg mein­semd sem ógn­ar lýðræðinu, grund­vall­ar­mann­rétt­ind­um og lífs­gæðum al­menn­ings.

Fá fleiri til að gera hið sama

Þessu gleymdi þingmaðurinn en veit svo sem að upphlaupslið Samfylkingarinnar tekur undir orð hennar í athugasemdadálkum fjölmiðla. Og auðvitað gerist það.

DV segir frá Moggagrein Helgu Völu Helgadóttur, alþingismanns. Og í athugasemdadálkinum vantar ekki skítlegar athugasemdir.

Jón Hreggviður Helgason segir: 

Leggja þennan Sjálfstæðis NASISTA FLOKK NIÐUR hann byggist á spillingu auðvaldsins

Jóna Ástríður segir:

Djöfuls hroki og spilling í þessu bláa liði,nú er það ekki bláa hendin,það er bláar eiturtúngur.

Æsingurinn er slíkur að fólk sem svona talar er til alls víst komi það höndum yfir heykvíslar, hafnaboltakylfur, snæri og ... eitthvað enn hættulegra.

Þetta er skrifað á þeim dögum sem flestir stjórnmálamenn og gott fólk hvetja til hófsemi í orðræðu og fordæma skotárásir á stjórnmálaflokka, árás á bíl borgarstjóra og svo framvegis. Þá segist Helga Vala Helgadóttir alþingismaður vera góða fólkið. Lesendur taka eflaust undir það eftir að hafa lesið ofangreint.

Orð Bjarna

Og hvað sagði Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, í tveggja mínútna svari í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Í frétt á mbl.is segir:

Mér finnst sjálfsagt að velta því upp hvað við get­um gert til þess að bregðast við þeirri stöðu. Eitt af því sem er áber­andi í skýrslu sem þess­ari, og það sama á við um GRECO-út­tekt­ir, er að það eru ekki endi­lega dæm­in um spill­ing­ar­mál sem menn hafa í hönd­un­um, held­ur til­finn­ing­in fyr­ir því að ein­hvers staðar grass­eri spill­ing, ein­hver svona óljós til­finn­ing. Oft ger­ist það nú þegar for­menn í stjórn­mála­flokk­um koma upp og tala ein­mitt inn í þá til­finn­ingu, að hún versn­ar,“ sagði Bjarni.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, skrökvar er hún fullyrðir að Bjarni segi að skýrslan sé ekkert til að hafa áhyggjur af.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, skrökvar og segir að Bjarni hafi engar áhyggjur af spillingu.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, leyfir sér að draga rangar ályktanir af upploginni tilvitnun sinni er hún talar um sérhagsmuni Sjálfstæðisflokksins.

Markmið Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns, virðist ekki vera að vinna fyrir samfélagið heldur að ófrægja aðra. Hún gerir það af mikilli list.

 

 

 

 

 


Basic kúbein, ennþá og tímapunktur

Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.


Er ekki þörf á að mála skrattann á vegginn?

200306 kortGóður vinur minn heldur því fram að draga mun úr Covid-19 veirunni á næstu sex mánuðum en þá komi önnur bylgja sem kemur frá Afríku eða Suður Ameríku og orsökin er stökkbreyttur vírus.

Þetta skrifaði ég í pistli sem birtist hér 6. mars 2020, fyrir tæpu ári. Þá birti ég meðfylgjandi kort frá John Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum. Ekki hafði ég neina trú á að vinur minn myndi reynast neitt sannspár en fannst að athyglisvert orðalagið „stökkbreyttur vírus“.

Svo hjaðnaði faraldurinn í byrjun sumars, allt virtist ganga svo vel og fólk slakaði á vörninni. Í ágúst fór allt á fleygiferð. Þá kom franska afbrigðið, í haust það breska og nú óttast sérfræðingarnir brasilísku útgáfuna og jafnvel eitthvað annað. Dreg þó í efa að þetta séu stökkbreytt afbrigði covid-19. 

Síðustu fréttir frá sóttvarnarlækni herma að til sé breytt covid-19 veira sem nýju bóluefnin ráða ekki að fullu við. Frést hefur um suður-Afrískt afbrigði covid-19 sem sé hættulegra en öll önnur.

Þó svo að ég sé nú yfirleitt frekar jákvæður og bjartsýnn ber ég ugg í brjósti. Nú hafa komið þrjá bylgjur farangursins og sú síðasta er langverst. Ástæðan kann að vera kæruleysi fólks um allan heim og veiran smitist hraðar og greiðar en áður. Mannkyndið kann að vera varnarlaust vegna þess að það vill ekki verjast.

Hvað gerðist veturinn 2020?

Athygli vakti að á kortinu frá 6. mars 2020 eru skráningar faraldursins ærið misjafnar. Ég hafði og hef enn þá trú að hér á landi hafi skráningar tilfella verið réttar, miklu betri en í flestum löndum. Sé það rétt er forvitnilegt að skoða kóvítið annars staðar með hliðsjón af hlutfallslegri útbreiðslu á Íslandi.

Andavaraleysi margra ríkja var greinilegt í mars. Þegar við lítum núna til baka var þetta hrópandi rugl, jafnvel glæpsamlegt. Svo virðist sem að þá hafi það meðvituð ákvörðun fjölmargra ríkja að gera sem minnst úr útbreiðslu covid-19? Margt bendir til að í upphafi hafi í mörgum löndum ekki verið rétt frá sagt um útbreiðsluna og ástandið. 

Á þessum tíma höfðu þrjátíu og sex Íslendingar veikst sem er 0,01% íbúafjöldans. Ég gekk út frá því að það væri „eðlileg“ staða í dreifbýlu eyríki. Með hliðsjón af hlutfallstölunni tók ég saman nokkrar staðreyndir. 

  • Þýskaland; 545 veikir, ættu að vera 8100
  • Pólland; einn veikur, ættu að vera 3.800
  • Frakkland; 423 veikir, ættu að vera 6.300
  • Bretland; 116 veikir, ættu að vera 6.000
  • Bandaríkin; 233 veikir, ættu að vera 35.000
  • Ítalía 3.858 veikir, ættu að vera 6.000
  • Austurríki 43 veikir
  • Rússland; fjórir veikir
  • Ungverjaland, einn veikur
  • Tyrkland enginn veikur

Trúir því einhver að tölur um útbreiðsluna í þessum löndum hafi verið réttar? Nei, auðvitað ekki. Annað hvort voru þær kolrangar eða vanhæfnin var svona óskapleg að stjórnvöld í þessum löndum vissu ekkert hvað var að gerast.

Nokkru síðar kom í ljós í fjölmörgum löndum létust mun fleiri en í meðalári. Heilbrigðisfólk og sérfræðingar bentu á að þó margir hafi látist úr covid-19 skýri það ekki fjölda dauðsfalla umfram meðaltalið. Ljóst er að fjöldi fólks hafi látist heima hjá sér vegna veirunnar en fullyrt að það hafi dáið vegna „flensu“ vegna þess að engar rannsóknir voru gerðar.

Afleiðingin af andvarleysi stjórnvalda varð sú að faraldurinn magnaðist svo ekkert var við ráðið. Þrautalendingin var að takmarka frelsi borgaranna. Gripið var víðast til fjölmargra ráða en ekkert gekk og því endað á útgöngubanni. Róttækustu aðgerð sem hugsast getur gegn útbreiðslu sjúkdóms.

Hræðileg staða kom upp á Ítalíu og Spáni. Af hroka sínum virtust stjórnvöld norðar í álfunni halda að útbreiðslan í þessum löndum væri vegna vanhæfni heilbrigðiskerfisins og stjórnvalda og í þessum löndum. Þetta átti fljótt eftir að breytast.

Screenshot 2021-01-21 at 13.44.14Þegar kom fram á haust var ljóst að stjórnvöld í norður hluta Evrópu réðu ekki heldur við neitt og brugðu þá á sama ráð og Suður-Evrópuríkin.

Útgöngubann var sett á. Fyrirtækjum var fyrirskipað að hætta starfsemi, fólk varð atvinnulaust og tekjulaust og lenti á framfæri hins opinbera. Og pestin breiddist út um allan heim eins og glögglega má sjá á næsta korti sem fengið var af John Hopkins háskólanum 21. janúar 2021.

Á kortinu sést að bæði Norður- og Suður-Ameríka eru undirlögð faraldrinum. Afleiðingin er mannlegur harmleikur sem varla kemst í fréttirnar. Fólk hefur misst atvinnu sína, er rekið út úr húsnæði sínu vegna vanskila og lifir á götunni. Sveltur. Þannig er þetta víða í Suður-Ameríku og einnig í Evrópu. Hvað hefur til dæmis orðið um flóttamenn sem flust hafa til Evrópu?

CovidÁstandið í Afríku á aðeins eftir að versna. Margir velta því fyrir sér hvort smitin séu útbreiddari en tölurnar gefa til kynna. Sagt er að þar geti veira stökkbreyst. „Aðeins“ 79.000 manns hafa hingað til látist í Afríku sem er afar fátt miðað við aðrar heimsálfur.

Samanburður

Þann 11. mars bar ég saman á einfaldan hátt upplýsingar frá John Hopkins háskólanum við tölur frá 21. janúar 2021.

Meðfylgjandi tafla er ekki flókin. Hún sýnir hversu furðuleg staðan faraldursins var víða um heim í mars. Takið eftir hlutfallstölunum.

Ekki hefur staðan mikið skánað en ljóst má þó vera að stjórnvöld í mörgum Evrópulöndum hafa nú skilið að faraldurinn er afar hættulegur. Í Bandaríkjunum er loksins kominn forseti sem tekur stöðuna alvarlega.

Hlutfallslegur fjöldi smita miðað við íbúafjölda er hér lykilatriði. Svo virðist sem að í kringum 2% þeirra sem smitast deyi. Sé talan lægri (appelsínugult) má gera ráð fyrir eftirfarandi:

  1. Heilbrigðiskerfið er gott og hefur getað annað þeim sem veikjast.
  2. Íbúar fara eftir reglum og varast smit.
  3. Tölulegar upplýsingar eru vafasamar, hugsanlega rangar jafnvel falsaðar.

Ofangreint á við Bahrein, Singapore, Malasíu, Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmin (UA Em í töflunni).

Sé talan hærri en 2% (gullitað) má ætla að eftirfarandi sé staðreynd:

  1. Heilbrigðiskerfið er ekki gott og getur illa sinnt þeim sem veikjast.
  2. Íbúar fara ekki eftir reglum og trúa því ekki að þeir geti smitast.
  3. Tölulega upplýsingar standast ekki, smit reiknast of fá og því er hlutfall látinna ekki rétt.

Þetta á við Kína, Ítalíu, Íran, Bretland, Belgíu, Ástralíu, Grikkland og Egyptaland.

Heimskort covid-19Staðan

Vandmálið er tvíþætt:

  • Fjölmörg ríki gefa upp rangar tölur um útbreiðslu veirunnar, viljandi eða geta ekki betur.
  • Almenningur víða afar kærulaus og gefur covid-19 lítinn gaum.

Afleiðingin er einfaldlega sú að faraldurinn er enn í miklum uppgangi, fleiri eiga eftir að smitast og deyja.

Bóluefni

En hvað með bóluefnið? Já, það er einmitt þetta með bóluefnið sem veldur mörgum hvað mestum áhyggjum. Því má líkja við kjarnorkuvopnabúr stórveldanna í kalda stríðinu. Þá var fullyrt; þeim mun fleiri kjarnorkuvopn þeim mun meira öryggi. Var eða er eitthvað öryggi í því fólgið að hægt sé að sprengja jörðina upp margfalt?

Erum við eitthvað betur sett með bóluefni sem gefur falskt öryggi? Veiran kann að vera að breytast og alls óvíst er hvort nýju bóluefnin geta unnið á öllum afbrigðum veirunnar hvað þá ef hún stökkbreytist. Er eitthvað öryggi í því fólgið að bóluefnið gagnist aðeins gegn covid-19 en ekki öðrum jafnhættulegum eða hættulegri veirum?

Auðvitað er ég að mála skrattann á vegginn. En þurfum við ekki að skoða málin í stóru samhengi? Það þótti mikil fórn að 400.000 Bandaríkjamenn létust í seinni heimstyrjöldinni og nú hefur sami fjöldi dáið vegna veirunnar. Og fólk yppir bara öxlum.

Í Evrópu hafa 662.000 manns dáið vegna hennar. Í Asíu hafa helmingi færri látist, „aðeins“ 325.000 manns.

Takið eftir heimskortinu sem hér fylgir. Við skulum fylgjast með flestum þeirra landa sem lituð eru með gulu. Þar mun faraldurinn grassera næstu misseri og jafnvel mun veiran stökkbreytast þar.

Ágæti lesandi, þú mátt bóka það að langt er í að lífið í heiminum falli aftur í þær skorður sem það var árið 2019 og fyrr. Þó við getum vel við unað hér á Íslandi er víst að enginn er eyland þó á eylandi búi.

 

  

 

 

 

 

 


Hnífurinn keyrður í bak Ágústar krata

Ég hef ekki alltaf verið sammála Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar. En ég ber virðingu fyrir honum í pólitíkinni. Hann er dugandi þingmaður, harður í horn að taka og á stundum rökfastur. Dálítið „pópúlískur“ en ekki til mikils skaða. Sé engan hans líka í þingliði flokksins.

Nú er bara tími Ágústar liðinn. Hann hlaut ekki náð fyrir augum uppstillingarnefndar sem er handhafi lýðræðisins í Samfylkingunni.

Ég er alveg sammála nefndinni. Burtu með Ágúst. Og við andstæðingar flokksins fögnum víginu.

Nei, ég held að handhöfum lýðræðisins í Samfylkingunni sé ekki sjálfrátt þegar þeir vísa Ágústi út í ystu myrkur.

Líkast til heldur flokkseigendafélagið að nýkjörinn þingmaður öðlist daginn eftir kosningar allan heimsins vísdóm og þekkingu. Reynsla og þekking skiptir varla neinu í þeirra augum.

Aðferðafræðin minnir á verklagið í ríkisstjórninni sem Samfylkingin og Vinstri grænir kölluðu „skjaldborg heimilanna“. Að henni kom sautján manns. Sumir voru kallaðir ráðherrar en voru bara í starfsþjálfun, fengu að máta ráðherrastólinn í skamman tíma.

Svo ör var skiptingin að enginn náði að setja sig inn í verkefnin enda ekki til þess ætlast. Prófa og fara svo. Nú er fullt af fólki í þessum flokkum sem kallar sig „fyrrverandi ráðherra“.

Ráðuneyti stjórna þeim sem eru í starfsþjálfun sem ráðherra, ekki öfugt. Það vantaði hins vegar ekki að daginn sem nýgræðingur tók við ráðherrastöðu byrjaði hann að tala eins og valdsmaður, vissi allt, gat allt og kunni allt. 

Sama virðist eiga við núna hjá Samfylkingunni. Hún byggir á því að skipta út fólki. Sækja lið í starfsþjálfun, láta það að máta rassförin í þingstólnum í þeirri von að þeir endist þangað til þeir verða reknir.

Sagan segir kratar séu fljótir að draga upp hníf sjái þeir óvarið bak samherja. Þetta er ástæðan fyrir því að þeir ganga með veggjum.

Lýðræðið Samfylkingarinnar byggist á því að velja þingmenn á lista í „reykfylltum bakherbergjum“ því almenningi er ekki treystandi fyrir því.

 


Komst í skiptimynt, Biden vígður og Harris brýtur blað um allan heim

Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.


Svavar Gestsson

0J2B3075 (3)Hann er dáinn hann Svavar Gestsson. Þingmaður, ráðherra og flokksformaður. Ótrúlegt. Einn harðasti byltingarsinninn í Alþýðubandalaginu og Vinstri grænum.

Ég var lítilsháttar málkunnugur honum. Er það enn í fersku minni er ég tók viðtal við hann í síma er ég var nýbyrjaður sem blaðamaður á Vísi og gerði hann mér mjög erfitt fyrir. Hann var þaulvanur blaðamaður og pólitíkus í þokkabót og kannaðist við mig. Átti ekki neitt í þaulæfðan þrætubókarmann sem þarna tugtaði mig til, líklega verðskuldað.

Ég kunni þó vel að meta hann, jafnvel þó hann væri pólitískur andstæðingur. Fór á kappræðufundi þar sem hann tvinnaði saman skammir um íhaldið, auðvaldið, kapítalistana og allt „vonda fólkið“ en fékk svo drjúga yfirhalningu sjálfur fyrir málflutning sinn, sósíalistinn, kommúnistinn og byltingarmaðurinn.

780118 Þjóðv KappræðufundurKappræðan

Ég man sérstaklega eftir miklum kappræðufundinum sem, haldinn var í Sigtúni 17. janúar 1978. Húsið var troðfullt af Allaböllum og Heimdellingum. Við hinir síðarnefndu röðuðum okkur á fremstu bekki og létum óspart í okkur heyra. Svo pirraðir voru kommarnir á þátttöku okkar og frammíköllum að í Þjóðviljanum vorum við kallaðir öskurkór Heimdallar. Við höfðum ekkert á móti því.

Ræðumenn að okkar hálfu voru Davíð Oddsson, Friðrik Sophusson og Brynjólfur Bjarnason. Á móti voru Svavar Gestsson, Sigurður Magnússon og Sigurður G. Tómasson.

Þess má geta að Þjóðviljinn sagði í fyrirsögn daginn eftir fundinn:

Málstaður sósíalismans er í sókn.

Og í Mogganum var fyrirsögnin:

Sósíalisminn er orðinn eins og gamalt nátttröll.

Hrunadans byltingarmanna

Fylgi Alþýðubandalagsins frá árinu 1974 var nokkuð mikið meðan fáir flokkar buðu fram en fór samt dvínandi eftir því sem leið á.

Í kosningunum 1999 var skipt um nafn og númer og flokkurinn kallaðist eftir það Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þá var fylgið aðeins tæp 10% og hafði aldrei í sögu hinna byltingarsinnuðu baráttumanna verið lægra. Eftir það náðu þeir vopnum sínum og komust í 21,7% fylgi árið 2009 og nutu þess að vera gagnrýnendur hrunsins og handhafar allra lausna.

Fylgi AB og VGFjórum árum síðar var allt hrunið, kjósendur refsuðu Vg sem fékk þá aðeins rétt tæp 11% fylgi. Lausnirnar gengu ekki upp, reyndust vera tálsýn. Vinstri sinnuðu hugsjónamennirnir misstu alla tiltrú kjósenda sem höfnuðu bæði Vg og Samfylkingunni.

Sósíaldemókratían

Með nýjum og hófsömum formanni rétti Vg úr kútnum og fékk aftur traust kjósenda og þá var mynduð ríkisstjórn með höfuðóvininum, Sjálfstæðisflokknum. „Sögulegar sættir“ mætti það kallast með tilvísun í pólitík fyrri ára. Þróunin var sem sagt frá byltingu til sósíaldemókratíunnar. Öll helstu baráttumálin hurfu og urðu að einhvers konar jafnaðarmennsku. Ísland er enn í Nató og tekur virkan þátt í starfinu, herinn var ekki rekinn úr landi. Rauða fánanum er flaggað á hátíðisdögum og Nallinn aðeins sunginn til skemmtunar.

Þannig tengist Svavar Gestsson þróun stjórnmálanna frá því hann steig þar á svið sem ritstjóri Þjóðviljans og varð svo þingmaður og ráðherra. Hrunadansinn endaði með því að hinir hófsömu tóku við af byltingarliðinu. Róttæku sósíalistarnir hurfu úr pólitíkinni og sósíaldemókratarnir tóku við. Þetta hefði aldrei getað gerst meðan naglar eins og Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson, Lúðvík Jósefsson og ... Svavar Gestsson voru við stýrið. Greinilegt er að innan Vg er „sósíalisminn er orðinn eins og gamalt nátttröll“ svo vitnað sé aftur í fyrirsögn Morgunblaðsins frá því 1978.

Ég minnist Svavars Gestssonar sem mikils vinstrimanns, baráttumanns og byltingarmanns. Þegar ég komst til vits og ára var hann orðinn ritstjóri Þjóðviljans, síðar þingmaður og svo ráðherra í nokkur ár. Hann var einn af þeim sem okkur Heimdellingum þótti vænst um að gera at í. Og víst var að fáir voru jafningjar hans í rökræðum.

Ró og friður

Svavar Gestsson var í föðurætt Dalmaður. Þangað á ég líka ættir að rekja en við vorum ekki mikið skyldir, í sjöunda lið samkvæmt Íslendingabók. Raunar báðir af svokallaðri Ormsætt (Ormur Sigurðsson 1748-1834).

Faðir Svavars, Gestur Zophanías Sveinsson (1920-1981) var fæddur í Stóra-Galtardal á Fellsströnd. Hann var skírður nafni ömmubróður míns sem hét Gestur Zophanías, sonur Magnúsar Friðrikssonar og Soffíu Gestsdóttur á Staðarfelli. Þann 2. október 1920 drukknaði Gestur Zophanías Magnússon ásamt þremur öðrum við Hjalleyjar á Fellsströnd. Daginn eftir fæddist faðir Svavars.

Móðir hans hét Guðrún Valdimarsdóttir og var frá Guðnabakka í Stafholtstungum í Borgarfirði og þar fæddist Svavar.

Stundum hittumst við á förnum vegi. „Nei, við erum ekki mikið skyldir,“ sagði hann, og sagði sögur úr Dölum.

Á efri árum flutti Svavar í Dalina, bjó á Króksfjarðarnesi. Þaðan sér vítt. Útsýnið er fagurt, yfir Króksfjörð til Háuborgar, yfir Berufjörð til Reykhóla og Reykjanesfjalls. Og út um allar hinar fjölmörgu eyjar þar fyrir utan og Dalina og ef til vill sést til Snæfellsjökuls í góðu skyggni. Hann skrifaði mikið, var ritstjóri Breiðfirðings og vildi veg Dalanna sem mestan. Ég sé dálítið eftir að hafa ekki kynnst fræðimanninum Svavari Gestsyni. Held að við hefðum átt ágætt skap saman.

Myndina sem hér fylgir tók ég í um miðjan október 2017 skammt norðan Króksfjarðarness. Þá var orðið kvöldsett, skýjafarið drungalegt en geislar sólarinnar náðu í gegn af og til. Þetta var fögur sjón.


Hún varð hvelft við og gefa sig fram til lögreglu

Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.

 


Er horfinn og missa vinnur

Sjá nánar á bloggsvæðinu Málfar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband