Verði gos er ólíklegt að hraun renni yfir Grindavík

Fjallið norðan við Grindavík heitir Þorbjarnarfell. Að minnsta kosti kannast ég ekki við annað. Þannig er líka fjallið merkt á Atlaskort Landmælinga sem var helsta heimildin um örnefni.

Áhöld er um nafn fjallsins. Á sumum kortum er það nefnt Þorbjörn. Rökræða má endalaust um hvort það hafi verið upprunalega heiti fjallsins og síðar hafi fell verið bætt við. Benda má á að til er Vífilsfell, má vera að það hafi til forna heitið Vífill. Kerling nokkur var í Kjalnesinga sögu nefnd Esja og fjallið eftir henni. Fjörður varð að heita fjörður, og fjöll þurftu að bera heitið fjall eða fell. Hér má benda á pistil í þessu bloggi um örnefni, sjá hér. Læt duga að benda á annan pistil af fjölmörgum um örnefni, sjá hér.

Þorbjarnarfell er ekki eldfjall, höfum það á hreinu. Engu að síður varð það til við gos undir jökli, án efa á eldsprungu. Fjallið er því sem næst eingöngu úr móbergi sem einkennir eldvirkni í vatni og sjó. Hraun nær þá ekki að renna heldur tætist kvikan í sundur þegar hún kemst í snertingu við vatn og þá hlaðast upp gosefni. Þannig mynduðust eyjarnar í Vestmannaeyjum, Helgafell við Hafnarfjörð og fjöldi annarra fjalla á landinu.

Stundum gerist það að eldvirknin nær upp úr vatnsyfirborðinu og þá  tekur hraun að renna. Þess vegna er oft hraun efst á móbergsfjöllum, nefna má Herðubreið sem dæmi. Bólstraberg er að finna efst í Þorbjarnarfelli.

Reykjanes er sérkennilegt í jarðfræðilegum skilningi. Heillandi er að skoða jarðfræðikort ISOR, en stofnunin hefur gefið út kort af stórum hluta landsins. Þar segir um Þorbjarnarfell að það sé myndað úr móbergi frá „eldri jökulskeiðum“.

Gríðarleg hraun eru vestan við Þorbjarnarfell sem eru frá níundu til þrettándu aldar en þá var síðast eldgos á Reykjanesi. Í þessum hraunum eru Eldvörp einna þekktust. Á þessum tíma runnu hraun um svæðið sem nær næstum því frá Reykjanesvegi, yfir Reykjanesskagann og suður í sjó þar sem heitir Staðarberg, um sex km fyrir vestan Grindavík. Taka skal fram að ekkert hraun rann í þessum hamförum nærri bænum. Raunar stendur Grindavík á hrauni sem rann fyrir um 2.400 árum.

Gígarnir í Holuhrauni í gosinu árið 2014 eru á sömu sprungu og þeir sem gusu árið 1797. Það gæti bent til þess að hún sé ekki lokuð svo að kvika eigi auðveldara með að komast þar upp en annars staðar. Þetta eru bara leikmannsþankar en samkvæmt þeim er hugsanlegt að eldgos vestan Þorbjarnarfells kunni að koma upp í þekktum sprungum, hugsanlega nálægt eldri gígum.

Verði eldgos á vestan Þorbjarnarfells bendir allt til þess að hraun renni ekki í átt til Grindavíkur. Suðvestan fjallsins er Lágafell og Lágafellsheiði sem hindra hraunrennsli í þá átt rétt eins og gerðist þegar Illahraun rann. Það liggur vestan undir Þorbjarnarfelli og komst ekki suður fyrir það. Þar af leiðir að varla mun koma til brottflutnings fólks vegna hraunrennslis verði eldgos á annað borð fyrir vestan við fjallið.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband