Svín stekkur stökk, kerra í gegnum sjálfsafgreiðslukassa og deild sem yfirsést

Orðlof

Stritast

Í Brennu-Njáls sögu segir frá farandkonum sem komu frá Bergþórshvoli til Hlíðarenda. Eftirminnileg eru orð þeirra um Njál er þær voru spurðar hvað hann hefði hafst að:

Stritaðist hann við að sitja (ÍF XII, 112).

Konurnar voru málgar og heldur orðillar eins og segir í sögunni enda mun þetta hafa verið sagt í háði en á snilldarlegan hátt. Mér er nær að halda að orð farandkvennanna hafi lifað sem fleyg orð, sbr. eftirfarandi dæmi:

    • þótt ég gerði ekkert annað í fimmhundruð ár samfleytt en stritast við að sitja á honum [‘stólnum’] (HKLDagl 28 (OHR));
    • Verum ekki að stritast við að byggja kirkjur (Fjallk 1896, 62 (OHR));
    • hann stritaðist við að sitja á grein trésins (m19 (JThSk I, 243));
    • hjakka eilíflega ofan í sama farið, stritast við að ná embættisprófi (NF XXIX, 71 (1872)).

Málfarsbankinn, úr 246. pistli Jóns G. Friðjónssonar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Svín látið stökkva teygju­stökk.

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Íþróttamenn stökkva langstökk, stökkva hástökk, hlaupa langhlaup, synda sjósund og svo framvegis. Svona tvítekningar ber að varst, þær eru alltaf slæmar, sérstaklega í rituðu máli. Hins vegar er oft erfitt að komast hjá því að orða það þannig að íþróttamaður hafi stokkið langstökk. Varla er hægt að segja að hann hafi stokkið langt ...

Í fréttinni er sagt að svín hafi stokkið teygjustökk. Sé fréttin lesin er þetta rangt. Svínið var borið upp í háan turn, bundið við teygju og hrint fram af brúninni. Tilgangslaust og andstyggilega gert.

Tillaga: Svín þvingað í teygjustökk.

2.

„Samkvæmt frétt CNN stefnir óveðrið nú að Sydney og er talið að þar geti það einnig ollið miklum skaða.“

Frétt á visir.is.                  

Athugasemd: Alltaf er leiðinlegt þegar blaðamaður veldur ekki þessari sögn í skrifum sínum. Villan stingur í augun. Rétt er að segja að óveðrið geti valdið miklu skaða. Eiríkur Rögnvaldsson fyrrum prófessor í íslenskri málfræði skrifar áhugaverðan pistil um þessa sögn á vefsíðu sinni.

Sögnin beygist svona:

Nútíð:

Ég veld, þú veldur hann veldur

Við völdum, þið valdið, þeir valda

Þátíð:

Ég olli, þú ollir, hann olli

Við ollum, þið olluð, þeir ollu

Í fréttinni segir:

Skaðinn virðist hafa verið sérstaklega mikill í Canberra, höfuðborg Ástralíu en hann hefur ekki verið tekinn saman.

Hvað hefur ekki verið tekið saman? Skaðinn, fjöldinn, kostnaðurinn? Lesandinn skilur ekkert og verður að giska. Þannig frétt er slæm.

Annað dæmi um fljótfærnisleg skrif er þetta:

Samkvæmt frétt ABC þurftu íbúar að leita skjóls þegar haglélið hófst minnst tveir slösuðust þó í Canberra. 

Þarna hefði verið ágætt ef blaðamaðurinn hefði gefið sér tíma til að lesa málsgreinina yfir og til dæmis setja punkt eða kommu á eftir „hófst“.

Tillaga: Samkvæmt frétt CNN stefnir óveðrið nú að Sydney og er talið að þar geti það einnig valdið miklum skaða.

3.

Frá því að hagl­élið hófst og þar til það hætti liðu í kringum fimmtán mínútur …

Frétt á frettabladid.is.                  

Athugasemd: Gæti ekki verið að haglélið hafi staðið í fimmtán mínútur? Sé svo, hvers vegna er blaðamaðurinn að teygja lopann, lengja mál sitt?

Blaðamaðurinn notar orðið haglhríð og má hrósa honum fyrir það. Orðið er þekkt eins og fræðast um í Ritmálasafni Orðabókar Háskólans.

Í fréttinni segir:

Talið er að mikill þurrkur og vindur hafi gert það að verkum að sand­bylurinn fór af stað …

Ofnotaða og marklitla orðalagið „gera það að verkum“ er algjör óþarfi í þessu sambandi. Betra er þetta:

Talið er að mikill þurrkur og hvassviðri hafi valdið sandbylnum …

Tillaga: Haglélið stóð í um fimmtán mínútur …

4.

Stal fullri inn­kaupa­kerru í gegnum sjálfs­af­greiðslu­kassa.

Fyrirsögn á visir.is.                 

Athugasemd: Líklega er það jafn erfitt að koma innkaupakerru í gegnum sjálfsafgreiðslukassa og úlfalda í gegnum nálarauga. Engu að síður er hvort tveggja haldið fram.

Held ekki að sagan um innkaupakerruna og sjálfsafgreiðslukassann eigi að taka sem dæmisögu eða líkingu. Í Markúsarguðspjalli segir að erfiðara sé fyrir auðmann að komast í himnaríki en úlfalda í gegnum nálarauga. Má vera að það sé rétt en þó er víst að enginn kemur innkaupakerru í gegnum sjálfsafgreiðslukassa jafnvel þó hann sé þjófur.

Sumir blaðamenn skrifa viðvaningslega og það bitnar auðvitað á lesendum. Jafnvel viðvaningar flýta sér, mega ekki vera að því að lesa fréttir yfir fyrir birtingu? Og allt þurfa lesendur að þola.

Tillaga: Haglélið stóð í um fimmtán mínútur …

5.

„Segir að á Ís­landi sé spennandi deild sem hefur yfir­sést.“

Fyrirsögn á visir.is.                 

Athugasemd: Hverjum yfirsást? Deildinni? Sagnorðið yfirsjást merkir að taka ekki eftir, sjá ekki það sem maður ætti að taka eftir.

Hér er sögnin ekki rétt notuð. Líklega á blaðamaðurinn eða viðmælandi hans við að fáir viti af deildinni eða gefi henni verðskuldaðan gaum.

Tillaga: Segir að á Ís­landi sé spennandi deild sem hefur fáir vita um.

6.

„Hollvinir Óðins ætla að sigla skipinu fyrir eigin vélarafli.“

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 22.1.2020.                 

Athugasemd: Búa Hollvinir Óðins yfir vélarafli? Ef ekki er líklegt að þeir muni einfaldlega sigla skipinu. Ætlunin er ekki að draga það eða ýta því. Þar af leiðir að vél skipsins mun knýja það áfram og það er kallað að sigla.

Auðvitað skilst ofangreind fyrirsögn en engu að síður er seinni hluti setningarinnar óþarfur.

Svona er nú með ýmislegt í íslensku máli sem og öðrum að stundum þarf nákvæmni við. Skriffærnin eykst gefi blaðamaður og aðrir skrifarar sér tíma til að huga að orðalagi og orðaröðun.

Tillaga: Hollvinir Óðins ætla að sigla skipinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband