Óráðið veður, eltingaleikur við drauma og fjall lenti ofan í fjöru

Orðlof

Stofnanamál

Í umræðu um málfar og málsnið ber svonefnt stofnanamál oft á góma. Þetta er málsnið sem menn þykjast helst finna á ýmsum gögnum frá opinberum stofnunum, s.s. skýrslum, álitsgerðum o.þ.h. Ekki er auðvelt að negla nákvæmlega niður hvað við er átt, en þó virðist einkum fernt koma til álita.

    • Í fyrsta lagi nafnorðastíll; að nota nafnorð (oft leitt af sögn) og merkingarlitla sögn (t.d. vera) til að segja það sem eins væri hægt að segja með einni sögn. Þannig er talað um að gera könnun í stað þess að kanna, sagt að fólksfjöldi aukist í stað þess að fólki fjölgi, o.s.frv.
    • Í öðru lagi einkennist stofnanamál af stirðum eignarfallssamböndum. Þannig er talað um breytt fyrirkomulag innheimtu virðisaukaskatts í staðinn fyrir breytt fyrirkomulag á innheimtu virðisaukaskatts, aukning tekna starfsmanna fyrirtækisins í stað aukning á tekjum starfsmanna fyrirtækisins o.s.frv.
    • Í þriðja lagi eru langar og flóknar málsgreinar algengar í stofnanamáli. Dæmi: En til að auðvelda stillingu og notkun talhólfs skal þess freistað hér á eftir að lýsa stillingarferlinu og þýða nokkur orð sem fram koma í enska textanum, sem byggður er inn í kerfið og gætu reynst torskilin.
    • Í fjórða lagi er oft talað um stofnanamál þegar setningagerð óíslenskuleg. Slíkt stafar oft annaðhvort af því að um þýðingu er að ræða, eða höfundur textans er ekki vanur að orða hugsanir sínar, nema hvorttveggja sé.

Málsnið og málnotkun.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Óráðið veður tek­ur við.“

Fyrirsögn á mbl.is.     

Athugasemd: Óráð er nafnorð sem merkir óskynsamleg ákvörðun; það er óráð að byrja á verkinu. Vegna veikinda getur fólk verið með óráði, sem er líka nafnorð. Lýsingarorðið er óráður og frekar lítið notað en er þó gert hér.

Gátur eru sumar óráðnar, aðrar hafa verið ráðnar. Margur er óráðinn, er tvístígandi, veit ekki hvað hann gerir næst. Þegar ekki hefur verið ráðinn maður í starf, stöðu eða embætti er sagt að enn sé óráðið.

Varla getur veður verið óráðið, miklu frekar að veðurfræðingurinn geti ekki ráðið í framvinduna. 

Veikur maður er með ráði, sá sem áður var tvístígandi er nú ráðinn í að fara eftir ákvörðun sinni, ráðið hefur verið í stöðuna, 

Nú velti ég því fyrir mér hvað það er kallað þegar veðrið er ekki óráðið. Er það „ráðið“ veður? Það má vel vera að ég hafi hér rangt fyrir mér en ...

Tillaga: Óvissa í veðri næstu daga.

2.

„Far­veg­ur Dragár þornaði upp.“

Fyrirsögn á mbl.is.     

Athugasemd: Ég held að farvegur sé ekkert annað en sú leið sem áin rennur eftir og orðabókin staðfestir það. Þar af leiðandi er líklegra að Dragá hafi þornað upp eða hætt að renna frekar en að farvegurinn hafi þornað. Það er svo allt annað mál að farvegurinn getur verið þurr en það er afleiðing af hinu fyrra. Til gamans má spyrja hvort farvegur Dragár sé þurr þegar rignir. 

TillagaDragá þornaði upp.

3.

„Kjötið var síðan selt á bænadamarkað á Hofsósi.“

Frétt á Ríkissjónvarpinu kl. 22, 19.8.2019.     

Athugasemd: Þetta er meinleg villa. Ég þurfti að hlusta tvisvar á fréttina til að sannfærast um að orðið væri selt en ekki sett. Hafi fréttamaðurinn ekki mislesið og fyrra orðið er rétt þá er fallbeygingin röng. Í seinna tilvikinu væri fallbeygingin rétt.

Yfirleitt eru fréttamenn Ríkisútvarpsins vel máli farnir og flestir sem lesa í útvarpi og sjónvarpi skýrmæltir og kveða rétt að.  

Villuleitarforrit gerir ekki athugasemd við ranga fallbeygingu.

Tillaga: Kjötið var síðan selt á bændamarkaði á Hofsósi.

4.

„Mæðgur á Akureyri brugðu á það ráð að flytja frekar til Svíþjóðar til að elta drauma dótturinnar.“

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Á ensku er sagt „follow your dream“. Þeir sem búa við rýran orðaforða og lélegan skilning á íslensku máli halda að þetta þýði: „eltu drauma þína“.

Fréttin er ekki þýdd, heldur frumsamin. Hún fjallar um Íslendinga sem vilja flytjast til Svíþjóðar svo draumar þeirra megi rætast

Okkur dreymir og við eigum drauma, okkur langar og við þráum eitthvað. Við eltumst ekki við langanir okkar, óskir eða þrár. Það er skelfilega vitlaust orðalag.

Tillaga: Mæðgur á Akureyri brugðu á það ráð að flytja frekar til Svíþjóðar svo draumar dótturinnar megi rætast.

5.

„Stór hluti Reynisfjalls féll í Reynisfjöru.“

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Ekki þarf annað en að líta á landakort og þá kemur í ljós að Reynisfjall er gríðarstórt og Reynisfjara agnarlítil.

Fullyrða má að fyrirsögnin er fjarri því að vera góð og alls ekki sannleikanum samkvæm.

Vísir birtir mynd af hruninu og segir:

Lögreglan á Suðurlandi birtir í dag mynd sem sýnir umfang grjóthrunsins en ljóst er að nokkuð stór hluti hlíðar Reynisfjalls hefur fallið í fjöruna og í sjó.

Les engin yfir fréttir á Vísi eða er starfsmenn þar dómgreindalausir? Myndi sýnir ekki umfang grjóthrunsins og við fyrstu sýn hefur „stór hluti hlíðar Reynisfjalls“ ekki fallið niður. Þarna hrundi úr hlíðinni, eflaust er sár fyrir ofan skriðuna en ofmælt er að stór hluti hennar sé nú í fjörunni.

Svona skrif verða til þegar blaðamaður aflar sér ekki upplýsinga, giskar og skrifar það fyrsta sem honum dettur í hug. Þetta er auðvitað ekki lesendum bjóðandi.

Tillaga: Skriða féll úr Reynisfjalli og í Reynisfjöru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband