Falsfréttir eru aldrei annað en falsfréttir

Grundvallaratriðið er að Bjarni Benediktsson, núverandi forsætisráðherra, tók ekki fé sitt úr Glitni og fór með það annað. Hann hætti í viðskiptum við einn sjóð í Glitni og hóf viðskipti við aðra innan bankans.

Nú vitum við að Glitnir fór á hausinn, en við vissum það ekki dagana fyrir 6. október 2008. Hins vegar vissu fjölmargir, hér innanlands sem og erlendis, að Glitnir og hinir bankarnir voru í hrikalega ljótri stöðu.

Sá sem fengið hefði innherjaupplýsingar um stöðu bankans á þessum dögum hefði ábyggilega tekið út allt sitt fé úr Glitni og flúið með það annað.

Fréttaflutningur Stundarinnar og Ríkisútvarpsins læðir því inn að Bjarni Benediktsson hafi vitað af því að Glitnir myndi falla og hann því flúið með alla sína aura. Enginn vissi þó að bankarnir yrðu látnir falla, ekki einu sinni stjórnvöld.

Staðan var sú að ríkið ætlaði að taka Glitni yfir vegna skuldar hans við Seðlabankann og þannig var staðan í nokkra daga. Í því var björgunaraðgerðin fólgin.

Hvað skyldu margir hafa vitað af því að bankarnir yrðu látnir falla og flúið með peninga sína úr bönkunum fyrir hrun? Hversu margir fóru með fé sitt úr Glitni á þessum dögum? Hafi þetta gerst ættu upplýsingar um þetta fólk að liggja fyrir, allt er skráð. Hins vegar er Bjarni Benediktsson ekki einn þeirra. Hvers konan innanhúsupplýsingar fékk maðurinn eða fékk hann aungvar?

Allir sem vilja sjá að markmið Stundarinnar er einfaldlega að koma höggi á Bjarna Benediktsson. Til vara er að segja hálfsannleika í því skyni að þeir sem trúa haldi að hér sé um heilagan sannleik að ræða. 

Nei, eflaust hafa engar reglur verið brotnar, segir Stundin og breska blaðið The Guardian. En ... og það er þetta „en“ sem er hið dularfulla í málinu, samtengingin sem gefur slúðrinu undir fótinn. Hversu margir hafa ekki verið teknir af lífi vegna álíka falsfrétta?

Sannleiksleit Stundarinnar og Ríkisútvarpsins beinist ekki að þeim sem raunverulega höfðu innherjaupplýsingar um hrun bankanna og gátu komið fé sínu í skjól. Nei, hún byggist á getgátum, hálfsannleik, einhverju sem hugsanlega gæti verið satt ef ...

Og svo eru að koma kosningar. Hversu auðvelt er að koma höggi á stjórnmálamann með þessari aðferð?

Falsfréttir eru einfaldlega falsfréttir hver sem flytur þær.


mbl.is Bjarni svarar fyrir Glitnisviðskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fólki sem ég þekki til og átti fjármuni í þessum svokölluðu peningamarkaðssjóðum var í engum tilfellum gefinn kostur á að breyta þeim inneignum yfir í ríkisstryggð innlán áður en bankarnir féllu. Allir sem áttu inneignir í slíkum sjóðum urðu fyrir tapi nema þeir fáu sem vissu og innleystu sitt á réttu augnabliki. Það eru ekki falsfréttir heldur staðreyndir.

Ekki heldur er það falsfrétt að ráðuneytisstjóri einn sem bjó yfir slíkum upplýsingum og seldi sín bréf á grundvelli þeirra rétt fyrir hrun, var dæmdur í fangelsi fyrir þann verknað. Að halda því fram að hans tilfelli hafi verið einangrað, það er falsfrétt.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.10.2017 kl. 18:25

2 identicon

Eitthvað eftir hrun opnaði ég reikning hjá Sparisjóði Strandamanna, þeir ásamt og Sparisjóði Þingeyinga tóku engan þátt í bullinu fyrir hrun.  Einn starfsmanna missti það útúr sér að sex mánuði fyrir hrun hafi þau fengið flóð af umsóknum um ný viðskipti.  Þar sem þau voru/eru fá, áttu þau í mestu vandræðum að ljúka þessu öllu.  Augljóst var að efsta lagið í samfélaginu vissi hvað var í vændum og að ríkisábyrgð yrði á öllum innlánsreikningum upp að ákveðinni upphæð.  Seinna átti ég samtal við starfsmann Sparisjóðs Vestmannaeyja, hún var sama sinnis, sex mánuði fyrir hrun fylltist allt af nýjum umsóknum um viðskipti.

Gunnar (IP-tala skráð) 6.10.2017 kl. 23:24

3 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Eru þetta ekki útúrsnúningar hjá þér Guðmundur að tala hér um ríkiistryggð innlán þegar fram hefur komið að Bjarni mun hafa selt í sjóðu 9 í Glitni og keypt í statinn í sjóðum 5 og 7 í Glitni? Og svo hitt að ráðuneytisstjórinn, sem þú vísar til, seldi hlutabréf í Landsbankanum og breytti þeim í peninga sem voru ríkistryggðir, þannig að þarna er ólíku saman að jafna.  

Daníel Sigurðsson, 7.10.2017 kl. 01:42

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég var nú ekki að reyna að snúa út úr því þannig heldur fyrst og fremst að benda á aðstöðumuninn. Forsætisráðherra sagði sjálfur í viðtali við RÚV að hann hefði m.a. gert þessa flutninga sem þú nefnir til þess að draga úr sinni persónulegu áhættu. Það að flytja sig yfir í minni áhættu á heppilegum tíma er eitthvað sem var ekki verið að ráðleggja manninum á götunni á þessum tíma.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.10.2017 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband