Ríkið tapar alls ekki á svartri atvinnustarfsemi

... sem ekki höfðu leyfi til starfsemi gistiþjónustu.

Hver var hættan, hverjum var bani búinn, hver tapaði? Lögreglan og embætti ríkisskattstjóra vaða nú fram rétt eins og mafían í hollívúddbíómynd og berja á þeim sem vart geta borið hönd fyrir höfuð sér en hafa sótt tekjur til útlendra ferðamanna.

Nei, hættan var engin. Aungvum var bani búinn. Þeir einu sem töpuðu var ríkisvaldið og þó. Þegar öllu er á botninn hvolft græðir ríkið óbeint á svartri atvinnustarfsemi. Veltan fer öll inn í hagkerfið, fátt lekur til útlandsins. 

Ferðaþjónustan? Nei, hún tapar ekki, að minnsta kosti ekki öll. Einhvern veginn kemur þetta fólk til landsins sem gistir á stöðum sem ekki hafa leyfi til starfsemi gistiþjónustu.

Varla kemur það með nesti meðferðis, einhvers staðar fær það sér að borða. Varla kaupir það sér mat á veitingastað sem ekki hefur leyfi til veitingaþjónustu.

Þetta fólk fer á skemmtistaði, leikhús, söfn eða álíka því ekki skemmtir það sér yfir tengingaspili í herbergi í íbúð eða húsi sem ekki hefur leyfi til gistiþjónustu

Ef til vill fer þetta fólk í Þórsmörk, Vestmannaeyja, skoðunarferð á eldstöðvarnar og varla með fyrirtækjum sem ekki hafa leyfi til fólksflutninga. 

Virðisaukaskatturinn flæðir inn í ríkiskassann og beinir og óbeinir skattar verða hærri vegna svartrar atvinnustarfsemi heldur en ef hún myndi leggjast af. 

Getur það verið að þeir séu til sem bjóði ferðamönnum upp á þjónustu án leyfis til ferðaþjónustu? Þarf þá ekki að skoða hvers vegna ekki er hirt um að sækja um leyfi?

Líklega er kerfinu um að kenna, kostnaðinum við að stofna til fyrirtækjarekstrar, eftirlitgjöld hins opinbera, skattlagningu tekna og svo framvegis.

Ég held að það sé ráð að einfalda þetta allt saman þannig að tekjumöguleikarnir við skattsvik lækki stórlega svo að það hreinlega taki því ekki að sækja ekki leyfi til ferðaþjónustu. Þegar því er náð þarf lögreglan og ríkisskattsstjóri ekki að ganga frá einum gististað til annars og munda hafnarboltakylfu frammi fyrir húsráðanda eins og mafíósar í hollívúddbíómynd.

Ætli þeim lögreglustjóra og ríkisskattstjóra bregði ekki í brún ef svört atvinnustarfsemi leggst af. Það er nefnilega ekki gefið að þeir sem stunda haldi slíku áfram á „löglegan“ hátt. Þeir nenna því ábyggilega ekki vegna kostnaðar og fyrirhafnar. 


mbl.is Lokuðu fjórum útleigðum íbúðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Örn Guðjónsson

Finnst sjálfsagt að fylgjast með og bregðast við þegar fólk er að svíkja og svindla !

Birgir Örn Guðjónsson, 17.9.2014 kl. 17:39

2 identicon

Þeir sem stunda svarta atvinnustarfsemi  borga auðvitað ekki skatt af því sem þeir rukka inn. Hinsvegar hafa þeir meira milli handanna til að verzla fyrir og það má því kannski segja að lítið gerist nema skattgreiðslunni seinkar um nokkra daga.

Því þegar skattsvikarinn fer út að verzla nokkrum dögum seinna greiðir hann líklega allskonar aðflutningsgjöld,virðisaukaskatt og hvað eina sem ríkið leggur á vörur og þjónustu.

Sé ekki að það sé ómaksins virði að eltast við skattsvikara, nema þá allra stórtækustu. Og vaxandi skattsvik eru oft merki um of mikla græðgi í skattheimtunni, ásamt flóknu og dýru kerfi við að stofna fyrirtæki.

Svo má ekki gleyma eftirlitiðnaðinum, sem kostar fúlgur fjár. Hver vill borga stórfé fyrir að láta líta eftir sér ?

Heimska og græðgi ríkisvaldsins er oftast ástæða skattsvika.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 17.9.2014 kl. 20:29

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nokkuð mikið til í þessu hjá þér, Kári.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.9.2014 kl. 20:34

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Rétt hjá þér, Birgir, svo langt sem það nær. Hver á að hafa eftirlit með með þeim sem hafa eftirlit með okkur? Hverjum er treystandi fyrir „eftirlitsvaldinu“? Hugsanlega er það rétt sem Kári segir, að heimska og græðgi ríkisvaldsins séu oftast ástæða skattsvika. Þetta er djúpt hugsað.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.9.2014 kl. 20:40

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er auðvitað rétt að skattheimta er oft kominn út fyrir allan þjófabálk, sem svo má að orði komast. 

Það er líka rétt að "svart" fé skilar sér oft til hins opinbera að lokum.  En það myndi það ekki gera ef allir svikju undan skatti.

Það sem meira er, "svört" atvinnustarfsemi stórlega skekkir samkeppnisstöðu þeirra sem ekki svíkja.

Það er ekki góður hvati að  heiðra eða verðlauna "skálkinn".

Það eiga allir að virða lögin, líka þau sem snúa að skattheimtu.  Það er hins vegar jafn sjálfsagt að berjast fyrir því að þeim sé breytt til hins betra, en það endar illa ef allir gerast "aðgerðasinnar", hundsa lögin og fara einfaldlega sínu fram og við því sé ekkert gert.  Hvort sem það á við skattalög eða önnur lög.

G. Tómas Gunnarsson, 18.9.2014 kl. 06:36

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég skil alveg punktinn hjá þér, Sigurður, en finnst eðlilegt að fólk hafi tilskilin leyfi til þeirrar starfsemi sem það rekur.  Hættan er víst fyrir hendi.  Hún felst fyrst og fremst í brunavörnum og flóttaleiðum.  Er húsnæðið útbúið svo viðkomandi gestur geti komið sér út með öruggum hætti?  Eru réttar leiðbeiningar um neyðarútganga?  Er neyðarútgangur til staðar?  Um það snýst þetta ekki síður og það er eitthvað sem er vert að hafa áhyggjur af.

Marinó G. Njálsson, 18.9.2014 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband