Eru vegir að verða flöskuháls í ferðaþjónustunni?

Vaxandi umferð einkabíla, fólksflutningabíla svo ekki sé talað um flutningabíla hefur farið illa með vegina. Fjallvegirnir spænast upp og grafast niður og verða fljótt ófærir vegna vatnselgs eða forar. Á vorin opnast þeir ekki fyrr en seint og um síðir og þeir lokast óþarflega fljótt vegna þess að snjór safnast í þá þótt umhverfið sé nær snjólaust. Og hvað gera þá ökumenn? Jú, eins og göngumennirnir krækja þeir fyrir verstu pyttina, aka út fyrir eins og það er kallað. Að lokum verður landið umhverfis roföflunum að bráð.

Ofangreint er úr grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 10. maí 2004. Tilefni var umræða um veginn inn í Þórsmörk sem Vegagerðin var að laga. Fannst mönnum sem lítill væri orðinn sjarminn af því að aka þangað inneftir þegar þangað væri komin næstum því. Einu sinni taldi ég 52 ár læki og sprænur á leiðinni. Þeim hefur fækkað allverulega vegna lagfæringa á vegum sem ekki allir eru sammála hvort teljst bætur eða spjöll.

Vandamálið við vegi er að vegir þarfnast viðhalds. Gamlir vegir eru ónýtir. Þeir grafast enn meira niður og verða enn verri eftir því sem tímar líða.

Hvernig á að standa að vegagerð á hálendinu? Þetta er stóra spurningin sem varðar hvort tveggja, umhverfismál og náttúruvernd en ekki síður ferðaþjónustuna. Þó Úlfar Jacobsen og Guðmundur Jónasson hafi verið brautryðjendur og haft tekjur af því að ryðjast um nær ótroðnar slóðir hálendisins er sá tími einfaldlega liðinn. Sjarminn í akstrinum hvarf líka enda skiptir áfangastaðurinn núna oft meira máli en akleiðin þótt hún haldi vissulega gildi sínu meðal útlendra ferðamanna.

Með köldu raunsæi má segja að við höfum aðeins um tvennt að velja.

 

  1. Byggja upp vegina á hálendinu, leggja af þá gömlu og tryggja að umferð komist klakklaust leiðar sinnar hvort sem vorar eða haustar seint eða snemma og bleyta skemmi ekki vegina.
  2. Loka hálendinu fyrir akstri ökutækja, setja einfaldlega í lás frá til dæmis 15. apríl til 1. október, sem sagt leyfa akstur þegar snjóalög eru næg.

Hvorugur kosturinn er góður, það viðurkenni ég fúslega. Seinni kosturinn er þó verri að mínu mati, því til hvers eigum við landið ef okkur er meinað að njóta þess. Þar af leiðir að fyrri kosturinn er skynsamlegri en hann þarf að útfæra með varfærni.

Ferðaþjónustaðilar sem gera út á Kili segja í ályktun sinni: 

Kjalvegur er að stærstum hluta slóði sem ruddur var á sínum tíma til að flytja efni í varnargirðingar vegna mæðuveiki í sauðfé. Þessi niðurgrafna ýtuslóð er barn síns tíma, óravegu frá því að standast kröfur fólksflutningatækja nútímans.

Þetta er rétt. Ég þekki Kjalveg vel, hef ekið hann og gengið. Þetta er ekkert annað en ruddaslóð, á eiginlega ekkert sameiginlegt með öðrum vegum nema nafnið. Raunar er það svo að á stundum er vonlaust fyrir ferðaþjónustubíla að halda áætlun sinni, svo slæmur getur hann orðið og valdið auk þess skemmdum.

Ályktun ferðaþjónustuaðila sem birtist í frétt á mbl.is er skynsöm. Ekki er beðið um annað en þokkalega góðan veg, þeir nefna slíka veg „ferðamannaveg“ sem er ágætt nafn. Þeir segja:

Um 80 km langur og 6 metra breiður vegur, sem risi hálfan metra upp úr umhverfi sínu í stæði núverandi vegslóða að mestu leyti, myndi kosta um 330 milljónir króna og allt að 60 milljónum króna til viðbótar ef tengileiðir Kjalvegar eru taldar með (skv. upplýsingum frá Vegagerðinni).

Ætli þjóðin að halda áfram að hafa tekjur að þjónustu við ferðamenn þurfa stjórnvöld að skilgreina hvað sé ferðamannavegur og hvernig skuldi hátta uppbygginu slíkra á hálendinu og í hvaða röð. Að öðrum kosti stefnir í óefni. Þvílíkur vandi sem það verður ef samgöngumálin verða sá flöskuháls sem tefur framþróun í ferðaþjónustunni hér á landi.

 

 


mbl.is Kjalvegur ekki boðleg ökuleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband