Gjaldþrot er ekkert annað en kistulagning

Afskaplega auðvelt er að setja saman gáfulegan texta og halda að hann geti verið leiðbeinandi um lífið. Í flestum tilvikum er ekki svo. Lífið er svo flókið og umfangsmikið að það sem einum á að farnast vel með kann að eyðileggja allt fyrir öðrum.

Þetta flaug svona um hugann þegar ég las ágæta samantekt í Morgunblaðinu í morgun um svokallaða greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Í greininni er viðtal við Sigurvin Ólafasson, lögmann hjá Bonafide lögmönnum, og er þetta m.a. haft eftir honum: 

Með því að bjóða upp á greiðsluaðlögun er komið úrræði sem hefur það markmiði að einstaklingar fari almennt ekki í gjaldþrot. Fyrirtæki fara í gjaldþrot og eru þar með dáin, en einstaklingar hætta ekki að anda þó þeir fari í fjárhagslega endurskipulagningu.

Þessi orð líta líklega ákaflega vel út og ugglaust er hugsunun falleg og vel meint. Ég þekki þó fjölmörg dæmi um að einstaklingar verði einfaldlega sem liðin lík eftir gjaldþrot. Eftir það eru þeir oft hundeltir af kröfuhöfunum. Bankar meina þeim að eignast nokkurn skapaðan hlut vegna þess að allt ekkert gleymist, allt er skráð. Viðkomandi er dæmdur núll og nix hjá bönkunum, gömlum og nýjum, hjá íbúðalánasjóði, lánasjóði námsmanna. Leigjendur hrökkva við þegar þeir frétta af nafni viðkomandi á vanskilaskrá.

Sá gjaldþrota má þakka fyrir að fá að nota debetkort, kreditkortið er tekið af honum og bankaliðið horfir með vanþóknun á manninn enda er hann líkþrár á nútímavísu. Ótrúlega margir skilnaðir verða vegna fjármála, ekki endilega vegna gjaldþrots heldur vegna afleiðinga þeirra.

Eftirfarandi veit Sigurvin þessi Ólafsson líklegast ekki þrátt fyrir sín fallegu orð að eftir gjaldþrot er það nánast formsatriði að hætta að anda.

Gjaldþrot er kistulagning einstaklingsins, eftir það er eiginlega ekkert líf nema að forðast hefndarþorsta banka og annarra stofnana. Auðvitað eru þeir til sem gjaldþrot hefur engin áhrif á. Aðrir hafa lent í óhöppum, tekið rangar ákvarðanir eins og gengur og bíta út nálinni með það, sumir með þeim hörmulegum afleiðingum sem hér að ofan er lýst. Til viðbótar má nefna sálræna kvilla sem oftast ágerast smám saman, t.d. þunglyndi, svefnleysi og annað miður geðfellt.

Miskunarleysi rukkunarfyrirtækja lögmanna sem send eru út til að eltast við þann gjaldþrota er svo hrikalegt að það hefur jafnvel gerst að menn hafa svipt sig lífi, stundum á skrifstofu lögmanns. Jafnvel þó nýi bankinn eigi enga kröfu á hendur einstaklingi lifir á einhvers konar minnistýru inni í lögnu týndu herbergi ofan í kjallara. Kennitala birtist á tölvuskjá og bankinn man samstundis eftir gamalli ávirðingu, einhverju löngu fyrir hrun, kröfu sem eru afskrifuð en engu að síður notuð til að vísa einum aumum einstaklingi á dyr ... Þó þykir bankanum ekkert verra að notast við veltuna á launareikningnum.

Og lögmannstofan á svo afskaplega auðvelt núorðið með að viðhalda kröfu út í það óendanlega. Gott tölvuforrit sér um að halda henni vakandi. Lögmanninum er nákvæmlega sama um allt og alla nema þóknunina sem gerir líf hans svo skemmtilegt. Jafnvel kröfueigandinn er fyrir löngu búinn að afskrifa aurana og snúið sér að meira uppbyggjandi málum en að gera einhverjum lífið enn verra.

Jú, að sjálfsögðu tapar einhver á gjaldþroti. Peningar fara forgörðum. Það er samt engin ástæða til þess að líf einstaklings sé eyðilagt? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Flottur!

Aðalsteinn Agnarsson, 20.1.2012 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband