Ummæli dagsins; lekandinn og vextirnir

Lekandinn 

Ég las leiðarann í Morgunblaðinu í morgun, eins og ávalt, og hafði ánægju af, eins og svo oft áður. Höfundurinn kemur með skondið sjónarhorn á vandamálum ríkisstjórnar Bandaríkjanna vegna leyndarskjala sem bárust úr ráðuneytum þar í landi til Wikileaks sem hefur nú birt mörg þeirra. Í leiðaranum segir:

Dagblaðið Guardian upplýsti nýlega að rúmlega 3 milljónir manna, ríkisstarfsmenn og hermenn, hefðu haft vottun bandarískra yfirvalda til þess að geta haft aðgang að þessum skjölum. Það hefði gilt einnig um mjög lágt setta starfsmenn og skjöl sem merkt væru sem „trúnaðarmál“ og sem „rík trúnaðarmál.“ Þessum lýsingum blaðsins hefur ekki verið andmælt. Þjóð veit þá þrír vita segir máltækið. En þegar Bandaríkjastjórn hefur sjálf afhent þremur milljónum manna löglegan mögulegan aðgang að leyndarskjölum af þessu tagi, hlýtur sú spurning að vakna hver sé sá sem raunverulega hafi lekið skjölunum.  

Sá lekandi sem Bandaríkjastjórn þjáist af er án efa ekki meinið því eins og segir í leiðaranum þá eru þrjár milljónir manna með aðgang að þessum leyndarskjölum, hálf írska þjóðin, svo málið sé sett í samhengi.

Hvernig getur virðulegt stórveldi sem dreifir upplýsingum í 3 milljónum eintaka haldið því fram að einhver annar hafi lekið þeim? 

Vextirnir 

Marínó G. Njálsson sat í stjórn Hagmunasamtaka heimilanna og hefur skrifað mikið um skuldavanda heimilanna og setið í nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar um það mál. Hann kemst oft vel að orði. Í dag lækkaði Seðlabankinn stýrivextina og í því sambandi segir Marínó og er kaldhæðinn:

Ég get ekki annað en velt fyrir mér í ljósi umræðu um tap fjármálafyrirtækja á gengislánadómum Hæstaréttar frá því í júní og september, hvert ætli tap fjármálafyrirtækjanna sé af vaxtalækkun SÍ. Það voru, jú, helstu rök FME og SÍ fyrir tilmælum sínum 30. júní sl. að fyrirtækin myndu tapa svo miklu í framtíðinni á því að þurfa að nota samningsvexti áfram, að nauðsynlegt væri að bjarga þeim með því að setja SÍ vexti frá lántökudegi.  

Til að skýra nánar út orð Marínós þá ætlaði allt hér vitlaust að verða í sumar og talið var að bankarnir færu hreinlega á hausinn þegar dómur Hæstaréttar um gengislánin leit dagsins ljós. Sérstaklega beitti ríkisstjórnin FME og Seðlabankanum fyrir sig. En í heimsendaspádómurinn gekk ekki eftir, ekki frekar en dómsdagsspádómur forsætisráðherra, fjármálaráðherra og fyrrverandi viðskiptaráðherra um Icesave.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband