Ég get svo sem svarað í stað Bjarna Benediktssonar

Forystumenn í stjórnmálum bera enga ábyrgð á því sem flokksmenn þeirra segja og skiptir engu hvaða stöðu þeir kunna að gegna. Sumir eru nefndir „leiðandi menn“ innan stjórnmálaflokks“ en þannig nafngiftir eru afar villandi og jafnvel heimskulegar.

Langar aðsendar greinar eru til mikils ama fyrir lesendur Morgunblaðsins. Því miður nenna fáir að lesa þær ekki síst ef millifyrirsagnir vantar. Einn af þeim sem reyna þannig á þolinmæði okkar, lesenda Moggans, er maður sem heitir Ole Anton Bieltvedt, mikill ESB sinni sem á þá ósk heitasta að Ísland gangi þangað inn. Meirihluti þjóðarinnar er á móti því.

Ole skrifar mikið um ESB og hann skrifar grein í Moggann í dag sem er ekkert annað en endurunnin grein úr Fréttablaðinu frá 4. ágúst 2021. Í dag krefst hann þess að formaður Sjálfstæðisflokksins svari fyrir fullyrðingar sem aðrir flokksmenn hafa látið frá sér fara um um ESB. Ekki ber ég neina ábyrgð á formanni Sjálfstæðisflokksins en greinin er nógu barnaleg til að ég ráði við hana og get svo sem svarað í stað Bjarna.

Í grein sinni segir hann:

Leiðandi menn inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa viðhaft þess­ar full­yrðing­ar um ESB og mögu­lega aðild að því hér í blaðinu:

    1. Að aðild Íslands að ESB „væri full­veld­is­framsal til yfirþjóðlegs emb­ætt­is­manna­valds og stofn­ana­veld­is í fjar­læg­um borg­um“
    2. að ESB sé „martraðar­kennt möppu­dýra­veldi“
    3. að ESB sé „ólýðræðis­leg valda­samþjöpp­un“
    4. að ESB sé „kjöt­katla­klúbb­ur afdankaðra 3. flokks stjórn­mála­manna“
    5. að ESB sé „vígi vernd­ar­stefnu og pils­faldakapítal­isma“
    6. að „stærstu rík­in, sem leggja fram mest fjár­magn, verða ráðandi í öll­um meg­in­at­riðum“.

Ja, hérna. Þetta er nú illa sagt um ESB. Maður hneykslast og finnur þörf hjá sér til að klaga.

Þeir „leiðandi menn“ sem Ole talar um eru bara tveir, ekki sex. Fyrsta atriðið er úr grein eftir Arnar Þór Jónsson, frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sem birtist í Morgunblaðinu 10., júlí 2021. Í henni rökræðir hann við Þorstein Pálsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins og ESB sinna. Hann segir:

Það jákvæða við grein Þorsteins er að þar kristallast sú staðreynd að nú í haust gefst kjósendum í reynd færi á að tjá afstöðu sína til þessara álitaefna þar sem menn hafa þá skýran valkost milli þeirra sjónarmiða sem ég hef fært fram, annars vegar, og svo þeirrar tegundar valdasamruna, valdboðs, stjórnlyndis, einstefnu og undirlægjuháttar sem Þorsteinn Pálsson og fleiri boða undir merkjum annarra flokka.

Í því samhengi mun mér gefast tækifæri til að draga fram veikleika og misskilning, ef ekki afbökun, í málflutningi Þorsteins og annarra sem horfið hafa frá sjálfstæðisstefnunni og telja nú „augljóst“ að fríverslun útheimti fullveldisframsal til yfirþjóðlegs embættismannavalds og stofnanaveldis í fjarlægum borgum. Þennan draug hafa Bretar kveðið niður eftir útgöngu sína úr ESB með tvíhliða samningum við önnur ríki. 

Þetta er afar vel skrifað hjá Arnari Þór og að mínu mati ekkert við skoðun hans að athuga þó Ole vilji klaga í formann Sjálfstæðisflokksins eins og krakki sem fengið hefur sand í augun á róluvellinum.

Staðreyndin er þessi: Sjálfstæðisflokkurinn er á móti aðild að Evrópusambandinu. Í raun er ekkert meira um það að segja nema rökin. Þau eru á vefnum xd.is. og þar segir skýrt að Ísland standi utan við ESB. Mér finnst þetta góð stefna. Síðan er það smekkatriði hvernig hver og einn flokksmaður rökstyður andstöðu sína við ESB og eru allir frjálsir að því að velja þau orð sem þeir telja við hæfi.

Í forystugrein Morgunblaðsins þann 5. febrúar 2021 segir:

Bóluefnahneyksli ESB koma efasemdarmönnum um Evrópusamrunann ekki á óvart.
Þeir hafa um árabil varað við því að Evrópusambandið sé martraðarkennt möppudýraveldi, vígi verndarstefnu og pilsfaldakapítalisma, þar sem sóun og stöðnun haldist í hendur, kjötkatlaklúbbur afdankaðra 3. flokks stjórnmálamanna, án lýðræðislegrar tilsjónar almennings álfunnar sem fær að gjalda fyrir dýru verði. Það er ekki nýtt, en á síðustu vikum hafa afhjúpast sönnunargögn fyrir öllu þessu.

Fimm af ofangreindum umkvörtunarefnum Ole koma úr leiðaranum og vegna þeirra skælir Ole og klagar. Ekki get ég fullyrt hver skrifaði leiðarann og vera kann að það sé Davíð Oddsson sem ólíkt Ole Anton Bieltvedt er afar vel ritfær. Þar að auki hefur hann innsýn í ESB, nokkuð sem Ole hefur aldrei haft. Davíð þekkir pólitísku inniviði sambandsins af eigin reynslu sem forsætisráðherra, utanríkisráðherra og alþingismaður og var persónulega kunnugur mörgum þjóðarleiðtogum sem skylmdust innan ESB. Ekkert í ofangreindu er rangt þó virðist Ole bara uppsigað við stílinn, ekki efnið.

Betra hefði verið að Ole Anton Bieltvedt hefði lesið og gaumgæft allan leiðarann því hann er vel skrifaður. Í honum stendur meðal annars:

Það hefur nefnilega verið reglan undanfarin ár, að hin stóru kjölfesturíki ESB fara sínu fram gagnvart hinum minni á jaðrinum þegar það hentar. Þetta mátti sjá á Írlandi í fjármálakreppunni, enn frekar þó á Grikklandi þar sem lýðræðið mátti líka víkja fyrir Brusselvaldinu, rétt eins og á Ítalíu þar sem þessa dagana er einmitt verið að dubba upp enn einn landstjóra ESB sem forsætisráðherra og búið að fresta kosningum. Í Austur-Evrópu mega svo nýfrjálsu ríkin þar beygja sig undir hagsmuni Þjóðverja með lagningu Nord Stream-gasleiðslunnar og eins þurftu Danir, Pólverjar, Tékkar og fleiri evrulausar þjóðir að ábyrgjast stórfenglega lántöku til þess að bjarga evrunni enn eina ferðina.

Auðvitað hefur Ole Anton Bieltvedt enga hugmynd um annað en það sem á prenti stendur og því tengir hann vitlaust, dregur rangar ályktanir. Hann þekkir ekki innviðina, pólitíska leikinn, baráttuna, þvinganir og greiðasemi fyrir atkvæði innan ESB. Hann sér bara hina ljósrauðu og fögru mynd sem grunnhugmyndin að ESB var stofnuð um, en hún hefur, eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir svo réttilega snúist upp í andhverfu sína. Og fyrir andhverfuna vill hann selja Ísland. Eins gott að ég verði ekki klagaður fyrir að segja svona, en þess ber þó að geta að ég er fjarri því að vera „leiðandi“ maður.


Bloggfærslur 9. ágúst 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband