Löggan, Vegagerðin, almannavarnir og fjölmiðlar bregðast almenningi

GönguleiðÁbyrgð lögreglu og almannavarna var mikil þegar hún ákvað að loka Suðurstrandarvegi. Fyrir vikið þarf göngufólk sem vill skoða eldgosið í Geldingadal að ganga um tíu km að gosstöðvunum í stað rétt rúmlega fjögurra. Mörgum kann að þykja það nóg að ganga tólf km lengra en þarf.

Lögreglan, almannavarnir, Vegagerðin og líklega björgunarsveitarmenn í Grindavík eru algjörlega meðvitundarlausir um gönguleiðir að gosstöðvunum. Vegagerðin tók þá heimskulegu ákvörðun að loka Suðurstrandarvegi vegna þess vegkantur hafði sigið skammt frá Grindavík. Engin skýring var gefin á því að loka þyrfti veginum frá Krýsuvíkurafleggjaranum og til Grindavíkur, um tuttugu km leið. Vér einir vitum, virtist Vegagerðin segja.

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar sagði í viðtali við vef Ríkisútvarpsins:

Þetta er náttúrulega farið aðeins að síga og við vitum ekki nákvæmlega hvað er að gerast þarna því það eru sprungur á svæðinu út um allt.

Sprungur út um allt. Var þetta ekki dálítið orðum aukið? En enginn mælti þessu í mót, ekki lögreglan, almannavarnir eða björgunarsveitin í Grindavík. Þó vissu allir að þúsundir manna vildu skoða eldgosið.

Nei, enginn hugsaði um almenning. Kerfið er stillt á það sem hin opinbera stofnun Vegagerðin vill, ákvörðun hennar var óumdeilanleg, ekki áfrýjanleg. Vér einir vitum. Og kallarnir í löggunni, almannavörnum og björgunarsveitinni veita þegjandi samþykki sitt. Enginn virðist hugsa sjálfstætt. Hver apar upp eftir öðrum.

Sá eini sem hafði sjálfstæða skoðun var jarðeðlisfræðingurinn Magnús Tumi Guðmundsson, fjallamaður með meiru. Hann sagði í viðtali við Vísi:

Það verður að fara varlega þarna og nálgast þetta af virðingu. Að sama skapi er þetta fallegt og ég skil vel, og fólk á að hafa möguleika á að komast þarna. Ég held það eigi frekar að auðvelda fólki að fara þarna frekar en að það sé að sprengja sig á löngum göngutúrum.

Þetta er kjarni málsins. Að vísu kom þetta tveimur dögum of seint fram enda allt komið í óefni. En samt var eins og löggan vaknaði af djúpsvefni sínum. Yfirlögregluþjónninn á Suðurnesjum sagði í viðtali við mbl.is:

Með því að hafa bíla­stæðið aust­ar við Festar­fjall, aust­an við háls­inn, stytt­ir það til dæm­is göngu­leiðina og við erum með jafn­vel í und­ir­bún­ingi að stika leiðina þegar þar að kem­ur,“ seg­ir Gunn­ar.

Þúsundir manna hafa skoðað eldstöðvarnar, flestir í leiðindaveðri. Allt í einu fær löggan móral og nefnir það ráð sem hefði átt að grípa til snemma á laugardeginum. Auðvitað átti ekki að loka Suðurstrandarvegi öllum. Það var heimskuleg ákvörðun og illa ígrunduð og svo fór Vegagerðin í helgarfrí.

Þessi ákvörðun sannar að löggan, Vegagerðin og almannavarnir eru ekki fyrir fólkið í landinu heldur stofnanir sem hafa það markmið að viðhalda sjálfum sér frekar en að stuðla að velferð almennings.

Besta gönguleiðin, sú greiðasta og þægilegasta er við vesturenda fjallsins Slögu. Rétt rúmlega fjögurra km löng, flestir ganga hana á um klukkustund eða rúmlega það. Frá þjóðveginum liggur jeppavegur inn í Nátthagadal. Hann hafa jeppamenn og mótorhjólamenn þjösnast á í langan tíma. Sáralítil hækkun er á leiðinni, aðeins aflíðandi, og engar hindranir. Eftir það er gengið inn dalinn og upp úr honum innst. Þegar upp er komið er afar stutt í gosstöðvarnar og getur fólk þá valið að fara upp á fjallið fyrir sunnan Geldingadal eða upp á Fagradalsfjall. Veltur á vindátt hvaða leið er best því enginn vill lenda í mekkinum frá eldgosinu. 

Auðvitað hefði átt að stika þessa leið á laugardeginum og nota til þess björgunarsveitina í Grindavík. Félagar í henni hljóta að gjörþekkja svæðið og þeir hefðu betur nýst í verkefnið heldur en að tuða við fjölmiðla um illa útbúið göngufólk.

Þess má geta að verði Suðurstrandarvegurinn ekki opnaður má alltaf aka að kirkjunni við Bæjarfell sem er sunnan við Krýsuvík og þaðan vestur eftir gamla þjóðveginum. Ég veit ekki betur en að hann sé opinn. 

Nú er bara að vona að löggan og almannavarnir láti af fjandskap sínum við göngufólk og auðveldi þeim för frekar en að tálma. Það endar sjaldnast vel þegar stofnanir þjóðfélagsins vilja taka völdin af almenningi.

Hér hefur ekki verið nefndur hlutur fjölmiðla sem virðist hafa þá einu ritstjórnarstefnu að hneykslast á göngufólki, útbúnaði þess og hegðun. Enginn fjölmiðill hefur nefnt þá staðreynd að gönguleiðin að gosstöðvunum er ómöguleg og raunar hættuleg. Þó hefur fólk bent á ofangreinda gönguleið á samfélagsmiðlum og víðar. Eiginlega má segja að fjölmiðlar séu engu skárri en þær stofnanir sem ég hef hér með réttu atyrt fyrir verkleysi sitt.

Ríkislögreglustjóri

Viðbót sett inn kl. 11:45:

Hér er mynd af skjali frá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra sem er að etja fólki út í fjögurra til sex stunda gönguferðir frá Bláa lóninu (af öllum stöðum) og Grindavík.

Afsakið orðbragðið: Hvers konar bjánaskapur er að segja fólki að ganga frá Blá lóninu. Af hverju ekki frá Þorlákshöfn eða Keflavík? Kann þetta sófalið ekki á landakort og hefur það aldrei stundað gönguferðir á fjöllum?


Bloggfærslur 22. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband