Gera heræfingu, staðsettur og hlusta á á eftir

Orðlof

Læka og læk

So. læka er mynduð eftir e. like. Hvað beygingu varðar fellur hún í stærsta flokk veikra sagnorða: læka, lækaði, lækað. Þessi nýliði særir hins vegar málkennd margra en því veldur einkum tvennt.

Í fyrsta lagi eru engar veikar sagnir til í íslensku sem hafa -æ- í stofni á undan -k- en allnokkrar hafa strenginn -ækj- (flækja, hrækja, krækja, rækja, skrækja, sækja). Sögnin læka sker sig úr að þessu leyti, hún fellur ekki að málkerfinu. 

Í öðru lagi má segja að nýliðinn læka (ég læka þetta) standi of nærri hinni ópersónulegu sögn líka (mér líkar þetta).

Þrátt fyrir þessa ágalla á so. læka marga formælendur sem telja henni til tekna að hún sé einföld í notkun og hljómi vel en meginkosturinn sé sá að af henni er leitt no. læk (en það virðist einstakt meðal hk.-orða).

Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Fjöldi tilfella smits á heimsvísu er nú kominn yfir sextán milljónir …“

Leiðari Fréttablaðsins 28.2.20                                    

Athugasemd: Stundum er maður að vanda sig svo mikið að það gleymist um hvað er verið að skrifa. Smit eru ekki aðeins smit heldur er fólk smitað. Þar af leiðandi væri skynsamlegra að orða þetta á annan hátt.

Svo er það þessi heimsvísa sem allir eru að kveða. Enginn munur er á því sem gerist í heiminum eða á heimsvísu. Hið fyrrnefnda er hefðbundið orðalag en hitt er eitthvað sem öðlast hefur vinsældir á síðustu árum, sérstaklega meðal þeirra sem ekki eru vanir skrifum.

Tillaga: Sextíu milljónir manna hafa smitast í heiminum …

2.

„Óljóst er hvort Nimitz fari í gegnum Hormuz-sund, þar sem heræfingin var gerð.“

Frétt á visir.is.                                    

Athugasemd: Getur verið að heræfingar séu „gerðar“. Nei, svona er það ekki orðað á íslensku.

Tillaga: Óljóst er hvort Nimitz fari í gegnum Hormuz-sund, þar sem heræfingin var.

3.

„Unnin höfðu verið skemmdarverk í skrúðgarði bæjarins sem staðsettur er við Suðurgötu.“

Frétt á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 1.8.20.                                    

Athugasemd: Líklegast er skrúðgarðurinn við Suðurgötu. Í Málfarsbankanum á málinu.is segir:

Orðið staðsettur er oft óþarft. Bíllinn var staðsettur við pósthúsið merkir: bíllinn var við pósthúsið.

Þetta er ekki sagt að ástæðulausu. Orðið er vinsælt í stofnanamáli og mörgum blaðamönnum fínna að nota lýsingarorðið staðsettur en sögnina að vera. Ástæðan er einfaldlega þekkingarleysi á íslensku máli.

Tillaga: Sextíu milljónir manna hafa smitast í heiminum …

4.

„Ég tek viðtalið upp á upptökutæki sem ég svo hlusta á á eftir og skrifa upp greinina.“

Pistill á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 1.8.20.                                    

Athugasemd: Ekki fer vel á því að skrifa svona, setja tvö ’á’ saman. Það er þó alls ekki rangt. Fyrra á-ið er forsetning og hið seinna er atviksorð, það er ’á eftir’.

Betur fer á því að umorða greinina, skrifa til dæmis eins og segir í tillögunni.

Blaðamaður á Mogganum lýsir hér vinnubrögðum sínum. Þau eru ekki til fyrirmyndar. Greinilegt er að honum hefur ekki verið kennd nein vinnubrögð heldur hefur dýrmætur tími farið í að „finna upp hjólið“ eins og sagt er.

Blaðamaðurinn segir:

Að minnsta kosti hefur lítið verið sett út á viðtöl mín ef frá eru talin nokkur nafnlaus bréf (já, bréfpóstur) þar sem málkunnátta mín er til umræðu. (Fyrst var bréf stílað á mig en síðan hefur viðkomandi líklega gefist upp þegar ekkert batnaði og sendi þá beint á umsjónarmann blaðsins). 

Þetta er nokkuð merkileg yfirlýsing. Hann hefur fengið nokkur bréf vegna málfars en hvergi kemur fram hvers vegna.

Blaðamaðurinn virðist fúll vegna þess að einhver hefur séð ástæðu til að finna að málfari hans. Hann virðist ekki hafa bætt sig og þá var kvartað við „umsjónarmanns blaðsins“, hvað sem það nú þýðir. Af þessum orðum að dæma heldur blaðamaðurinn uppteknum hætti, tekur engri tilsögn og gerir það sem honum sýnist. Hann fær að leika lausum hala, „umsjónarmenn blaðsins“ gera enga tilraun til að aga nýliðann

Til að fyrirbyggja allan misskilning hef ég ekki lagt það í vana að skrifa blaðamönnum. Aðeins einu sinni skrifaði ég íþróttablaðamanni Moggans og það undir fullu nafni. Ég gerði athugasemdir við misnotkun hans á orðinu „lærisveinn“. Blaðamaðurinn svaraði mér og sagði:

Segja má að notkun orðsins lærisveinn á þennan máta sé svokallað íþróttamál.

Sem sagt, blaðamenn mega grípa hvaða orð sem er og gera úr því „íþróttamál“ og skiptir merking, hefðir og annað engu í því sambandi.

Byrjanda í blaðamennsku hefði ég bent á að tileinka sér það sem segir í pistlum Jónasar Kristjánssonar og er að finna á jonas.is. Þar eru prýðilegir fyrirlestrar fyrir blaðamenn og öllum hollt að lesa yfir af og til.

Við erum margir sjálfvitar („besservisser“) en þeir sem ekki taka tilsögn kallast einfaldlega hálfvitar.

Tillaga: Ég tek viðtalið upp á upptökutæki og hlusta á það áður en ég skrifa greinina.

 


Bloggfærslur 2. ágúst 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband