Látnir blása, sterkasta saltið, fastar í hafi og bílstjórasæti líkamans

Orðlof

Salt

Salt hefur verið gríðarlega mikilvægt í sögu mannkyns og var (og er enn í dag) mjög dýrmæt vara. 

Sem dæmi má nefna að í bókinni Matarást er sagt frá því að rómverskir hermenn hafi fengið salt sem hluta af launum sínum. Þetta kallaðist salarium en þaðan er komið enska orðið salary (vinnulaun) (Nanna Rögnvaldsdóttir, 2002).

Vísindavefurinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Látnir blása í áfengismæli á fjöllum.“

Fyrirsögn á frettatiminn.is.                                  

Athugasemd: Svona fyrirsögn bjargar deginum. Ég hló lengi. Líklega er betra er að lesa yfir fyrir birtingu til að koma í veg fyrir misskilning.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Hann þefar þar m.a. af sterkasta salti heims og …“

Frétt á visir.is.                                  

Athugasemd: Salt er bara salt. Ekki til veikt salt eða sterkt nema í upplausn. Salt er steinefni, natríumklóríði. Á vef Wikipedia segir að sjórinn sé 3,5% selta, það er þrjátíu og fimm grömm af salti í einum lítra af sjó.

Mér eru minnisstæð þessi orð úr Biblíunni frá því í KFUM í gamla daga.

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það?

Salt dofnar hvorki vegna umhverfis né aldurs. Það er alltaf eins og ekki hægt að styrkja það.

Frá ómunatíð hefur salt verið óskaplega mikilvægt í fæðu mannsins, til geymslu á matvælum og svo framvegis. Hvað gerist þegar maðurinn, sem þarna er nefndur salt jarðar, dofnar, hvað getur styrkir hann? Þetta er heimspekileg spurning og verðugt umhugsunarefni.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„… seg­ir hann að ýms­ir „frétta­skýrend­ur“ segðu Harris ekki kjörgenga þar sem hún sé ekki inn­lend þar sem for­eldr­ar henn­ar hafi ekki verið banda­rísk­ir rík­is­borg­ar­ar þegar hún fædd­ist.“

Fyrirsögn á mbl.is                                 

Athugasemd: Tvisvar sinnum „þar sem“. Í seinna skiptið hefði mátt setja því. Þetta kallast nástaða, það er nándin er of mikil. 

Orðalagið ’þar sem’ er ofnotað hjá blaðamanninum. Hann notar það fjórum sinnum í fréttinni:

  1. … þau segja að hún sé ekki kjörgeng þar sem hún er ekki fædd í þessu landi.
  2. … laga­pró­fess­or skrif­ar í Newsweek þar sem hann held­ur því rang­lega fram að öld­unga­deild­arþingmaður Kali­forn­íu …
  3. … segðu Harris ekki kjörgenga þar sem hún sé ekki inn­lend þar sem for­eldr­ar henn­ar …

Öllu má nú ofgera. Sama er með sögnina að segja, kemur tvisvar fyrir í málsgreininni. Óþarfi.

Tillaga: Í grein  John Eastman, pró­fess­ors í lög­um við Chapman-há­skóla, segir hann að ýms­ir „frétta­skýrend­ur“ fullyrði að Harris sé ekki kjörgenga þar sem hún sé ekki inn­lend því for­eldr­ar henn­ar hafi ekki verið banda­rísk­ir rík­is­borg­ar­ar þegar hún fædd­ist.

4.

„Of vindasamt fyrir eldflaugaskot.“

Fyrirsögn á ruv.is.                                  

Athugasemd: Velti því fyrir mér hvort þarna hafi verið of hvasst. Veit ekki alveg hvað átt er við lýsingarorðinu ’vindasamt’. Samkvæmt orðabókinni merkir það:

með tíðum og sterkum vindum.

Hins vegar er ég ekki alltaf viss um að blaðamenn kunni skil á þeim orðum sem þeir velja. Hér gæti það hafa verið tilviljun að blaðamaðurinn hafi valið ’vindasamt’ í staðinn fyrir hvasst.

TillagaOf hvasst fyrir eldflaugaskot.

5.

Þegar rætt er um efnahagsaðgerðir vegna veirunnar verður þó hér eftirhorfa til þessþað ástand sem nú ríkir verður að líkindum viðvarandi um nokkra hríð, eflaust fram á næsta ár og mögulega lengur.“

Forystugrein Morgunblaðsins 15.8.20.                                 

Athugasemd: Ekki eru allir blaðamenn góðir pennar og fæstir ritstjóra landsins eru það. Einn ber þó af en hann skrifar alls ekki svona. Málsgreinin er þvílíkt hnoð að leitun er að öðru eins.

Höfundurinn ofnotar atviksorðið ’þegar’:

  1. Þegar horft er á heiminn …
  2. þegar litið er til landa …
  3. þegar horft er til landanna …
  4. Þegar rætt er um …
  5. Þegar rætt er um …
  6. þegar reynt er að spá …

Þetta ber merki um fátæklegan orðaforða, stílleysi og algjört hugsunarleysi.

Í upphafi forystugreinarinnar segir:

Ákvörðun ríkisstjórnar Íslands í gær um að herða eftirlit með kórónuveirunni við landamærin …

Ég er þess fullviss að eftirlitið við svokölluð landamæri er ekki með kórónuveirunni heldur með ferðamönnum sem hugsanlega eru smitaðir af henni. Fáránlegt er að hugsa sér að hafa „eftirlit með kórónuveirunni“. Munum að það er verið að leit að henni í ferðamönnum.

Forystugreininn er leir. Höfundurinn byrjar án þess að hafa neina hugmynd um efnistökin. Í gamla daga var manni kennt að ritgerð hefði upphaf, miðju og endi. Blaðamennskan er á margan hátt öðru vísi. Þá skiptir öllu að grípa strax athygli lesandans. Margir kunna það en vandinn er að halda athygli hans allt til enda. Hér skiptir máli aðalatriði, útskýring og endir.

Kvöl var að lesa illa skrifaðan leiðara, athyglin rann til og frá. Ó, hversu mikil er sú náðargáfa að geta haldið óskertri athygli við leiðinlegan lestur. Nei, betra er að sleppa lestrinum og fletta Mogganum áfram.

Tillaga: Veiran verður að öllum líkindum í þjóðfélaginu fram á næsta ár og hugsanlega lengur. Í því ljósi verður að skoða efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

6.

„Ég ber blak af þeim og segi að heimurinn sé skýrari í endurliti heldur en í hringiðu atburðarásarinnar, þannig að að túlkun Ólafs Bjarna um að ég telji Ketil vera illvirkja er alröng.“

Grein á blaðsíðu 22 í Morgunblaðinu 15.8.20.                                  

Athugasemd: Hvað er góður stíll? Eflaust sýnist sitt hverjum en ofangreind málsgrein er verulega góð enda skrifuð af afburða stílista. 

Tillaga: Engin tillaga.

7.

„Fastar úti á hafi í 15 klukkutíma.“

Fyrirsögn á blaðsíðu 8 í Fréttablaðinu 15.8.20.                                 

Athugasemd: Sá sem er fastur kemst ekkert. Hins vegar hrekst sá sem er á sjó og getur ekki komist að landi vegna vinda eða strauma. Raunar er þetta orð, ’hrekjast’, notað í fréttinni sem er gott. Hann er á stöðugri ferð, síst af öllu fastur.

Í fréttinni segir:

Þær fuku langt, langt frá landi og vissu ekkert hvar þær voru. 

Frekar barnalegt orðalag og bara dálítið sætt og krúttleg og dúllulegt  

Nei, þær hröktust langt frá landi. Það sem flýtur á sjó eða vötnum rekur.

Hversu langt er „langt, langt frá landi“? Hefði blaðamaðurinn notað ’langt’ einu sinni en ekki tvisvar hefði hann ekki gert sig að athlægi.

Tillaga: Á reki úti á rúmsjó í fimmtán klukkutíma.

8.

„Loksins í bílstjórasætinu í eigin líkama.“

Fyrirsögn á visir.is.                                  

Athugasemd: Þetta er kjánalegt orðalag og í engu samræmi við umfjöllunarefnið. Hvað skyldi nú viðmælandi blaðamannsins eiga við? Jú, hún breytti mataræði sínu og vegna þess líður henni betur. Varla er hægt að segja að hún hafi ekki haft stjórn á neysluvenjum sínum, það gera allir. Sumir láta allt eftir sér og það kann aldrei góðri lukku að stýra.

Í fréttinni segir:

Að upplifa það að maður hafi fullkomna stjórn á sinni næringu og vellíðan sem því fylgir gefur manni aukinn kraft.

Er þetta ekki aðalatriðið?

Tillaga: Hef fullkomna stjórn á neyslu minni.


Bloggfærslur 16. ágúst 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband