Erum að reyna að fara að lifa, orðnir aðskildir og mæta skilyrðum

Orðlof

Andfælur

No. andfælur (kvk.flt.) merkir ’ofboð í svefni’.  

Ásgeir Blöndal segir að forliðurinn and- hafi hér svipaða merkingu og í andstyggur, sbr. andstyggilegur ‘viðurstyggilegur’. Það er einkum algengt í orðasambandinu vakna/hrökkva (upp)/ rjúka upp með andfælum

Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Við erum að fara að reyna að lifa með þessari veiru.“

Fyrirsögn á visir.is.                                 

Athugasemd: Þetta er nú nokkuð löng sagnorðaromsa í stuttri setningu, fjögur sagnorð, þrjú í nafnhætti.

Líklega á viðmælandi Vísis við að fólk þurfi að lifa með veirunni. Annað er ekki mögulegt. 

Tillaga: Við þurfum að lifa með veirunni.

2.

„Eft­ir góðan tíma á sigl­ingu á flóanum voru þeir fé­lag­ar orðnir aðskild­ir …“

Frétt á mbl.is.                                  

Athugasemd: Málsgreinin er hnoð. Hvað er þarna átt við með „góðan tíma á siglingu“. Giska má á að þeir hafi siglt lengi. 

Auðveldara er að geta sér til um hvað það merkir að „vera aðskildir“. Án efa þýðir það að langt væri orðið á milli þeirra. 

Þarna er talað um flóa og sé það nafngreindur flói, til dæmis Faxaflói ætti orðið að vera með stórum staf.

Tillaga: Eftir að hafa siglt lengi um Flóann var orðið langt á milli þeirra

3.

„Þetta eru skilyrðin sem þarf að mæta til að …“

Morgunútvarp Rásar tvö kl. 07:50.                                 

Athugasemd: Á ensku er sagt „to meet conditions“. Fjöldi fjölmiðlafólks tekur mið af enskunni og segir: „Mæta skilyrðum“ sem er rangt. Á íslensku er þeim ekki „mætt“. Orðið merkir samkvæmt orðabókinni að hitta, koma á áætlaðan stað eða hljóta. Betra er að uppfylla skilyrði.

Tillaga: Þetta eru skilyrði sem uppfylla þarf til að …

4.

„Alexander Lúkasjenkó hefur aldrei hlotið jafn mikla mótstöðu á 26 ára valdasetu sinni í Hvíta-Rússlandi og um helgina.“

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 11.8.20.                                 

Athugasemd: Sjaldgæft er óþekkt er að orða það svo að einhver „hljóti mótstöðu“. Algengara er að orða það svo að hann fái mótstöðu, verði fyrir mótstöðu eða álíka.

Tillaga: Á tuttugu og sex ára forsetatíð sinni í Hvíta-Rússlandi hefur Alexander Lúkasjenkó aldrei orðið fyrir eins mikilli andstöðu en nú um helgina.

5.

„… landamæri svæðisins yrðu harðlokuð gagnvart fólki frá áhættusvæðum  út árið 2021.“

Frétt á ruv.is.                                  

Athugasemd: Skrýtið að nota hér forsetninguna gagnvart í stað þess að nota aðra forsetningu, fyrir. Við læsum dyrum fyrir óvelkomnum gestum og það á líka við um landamæri.

Tillaga: … landamæri svæðisins yrðu harðlokuð fyrir fólki frá áhættusvæðum  út árið 2021.


Bloggfærslur 11. ágúst 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband