Hrafnseyrargöng væri réttnefni

Hrafnseyrargöng ættu göngin að heita sem verið er að grafa milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. 

Lítið vit er í öðru því skammt frá þeim er hinn sögufrægi staður Hrafnseyri. Þar fæddist Jón Sigurðsson 17. júní 1811. Hann var fremstur í flokki þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði Íslands. Vopn hans voru hárbeitt rök en ekki manndrápstól.

hrafnseyri-jul-2010-7Hrafnseyri er kennd við Hrafn Sveinbjarnarson, mikinn héraðshöfðingja, mannvin og lækni, sem raunar fyrsti menntaði læknirinn á Íslandi. Um hann segir í samnefndri sögu:

Svá var bú Hrafns gagnauðigt, at öllum mönnum var þar heimill matr, þeim er til sóttu ok erenda sinna fóru, hvárt sem þeir vildu setit hafa lengr eða skemr.

Alla menn lét hann flytja yfir Arnarfjörð, þá er fara vildu. Hann átti ok skip á Barðaströnd. Þat höfðu allir þeir, er þurftu yfir Breiðafjörð. Ok af slíkri rausn Hrafns var sem brú væri á hvárumtveggja firðinum fyrir hverjum, er fara vildi.

Svá fylgdi hans lækningu mikill guðs kraftr, at margir gengu heilir frá hans fundi, þeir er banvænir kómu til hans fyrir vanheilsu sakir ...

Engin rök eru fyrir því að kenna nýju göngin við Dýrafjörð eða Arnarfjörð, aðeins kjánaskapur. Við eigum að varðveita sögufræga staði svo fólk minnist þeirra á ferðum sínum um landið. Hætt er við því að Hrafnseyri gleymist þegar hún er ekki lengur við alfaraleið. Það má aldrei verða.

Á Hrafnseyri er safn sem opnað var árið 2011 þegar tvö hundruð ár voru frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Sagt er frá æfi Jóns og starfi hans. Í mörg ár hafa fornminjar verið rannsakaðar Hrafnseyri. Á vefnum Hrafnseyri.is segir:

Sumarið 2012 var einnig grafið í gamla kirkjugarðinum sem stendur við hlið núverandi kirkju. Í kirkjugarðinum er greinileg rúst af kirkju.

Í vetur voru sýni úr kirkjugarðinum send til aldursgreiningar. Greind voru sýni úr einstakling sem jarðaður hafði verið fast við kirkjugarðsvegg. Í ljós kom að þessi einstaklingur hefur látist á fyrrihluta 11. aldar og því allar líkur á að kirkja og kirkjugarður hafi verið risið á Hrafnseyri stuttu eftir kristnitöku.

Þetta er aldeilis stórmerkilegt og ekki víst að allir átti sig á því hversu merkilegur staður Hrafnseyri er. Auðvitað eigum við að ferðast til Vestfjarða í sumar og framar öllu að staldra við að Hrafnseyri, skoða safnið, fjörðinn og fjöllin, allt umhverfið sem er stórbrotið.

0J2B2822 bÁætlað er að göngin verði tekin í notkun haustið 2020. Vonandi ber þjóðinni gæfa til þess að göngin verði nefnd Hrafnseyrargöng. Af því væri sómi og virðing fyrir sögufrægum stað. Við eigum að kenna mikil mannvirki við sögufræga staði og gæta þeirra þannig að þeir falli aldrei í gleymsku.

Myndir

Efri myndin er af Hrafnseyri og tekin af vef Ísafjarðarbæjar, sjá hér. Sú neðri er af gangnamunnanum í Arnarfirði, þau eru við innsta hluta fjarðarins og þar heitir Borgarfjörður.


Bloggfærslur 19. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband