Skip lagt í rúst, aðalskoðun framkvæmd og líkamleg samskipti við heiminn

Orðlof

Vínylur

Ég hef skemmt mér við að kalla hefðbundna gerð hljómplatna vínyl þar sem þær geta yljað manni í kompaníi við vínglas. 

Einkum á þetta við s.k. long-plei plötur sem tæpast er hæg að kalla langspil. 

Nýlega hef ég eignast 3 góðar með píanóleik Víkings Heiðars og myndi þá gjarna vilja z orðið í fleirtölu þótt það sé andstætt siðareglum BÍN: 

Líklega yrðu það 3 vínyljir (sbr byljir) frekar en vínylir og alls ekki vínylar og því síður vínyljar sem auðvelt er að rugla við víniljar, hugtak ófrávíkjanlega notað um að skripla í hvítvínspolli á gólfi.

Stefán St. Málvöndunarþáttur á Facebook.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

27 ríki sem setjast niður og rökræða við sama borðið frekar en að sitja hvert í sínu horni og jafnvel stríð sín á milli.“

Grein á visir.is.                           

Athugasemd: Höfundurinn hefði átt að láta einhvern lesa yfir greinina fyrir birtingu. Hann skrifar til dæmis tölustafi fyrst í setningu eftir greinaskil. Enginn gerir slíkt. Eftir punkt byrjar hann á tölustöfum. Enginn gerir slíkt. Skynsamlegt er að takmarka fjölda tölustafa í fréttum og greinum, nota frekar bókstafi.

Á málið.is segir:

Heyja er nafnháttur tveggja ólíkra sagna með mismunandi merkingu:

1) Heyja, háði, háð. Nt. ég hey, þú heyrð, hann heyr. Vh.nt. heyi. Heyja baráttu, heyja stríð.
2) Heyja, heyjaði, heyjað. Vh.nt. heyi. Heyja úti á túni.

Í greininni segir:

Þjóðkjörnir fulltrúar Íslands koma hinsvegar ekki að ákvörðunartöku

Orðið „ákvarðanataka“ er drusla, Orð myndað af tveimur orðum, sögninni að ákveða og sögninni að taka. Við tökum ákvörðun eða ákveðum. Nafnorðið „ákvarðanataka“ gerir ekkert gagn, yljar bara þeim sem unna stofnanamállýsku. 

Tillaga: Fulltrúar tuttugu og sjö ríkja setjast niður og rökræða við sama borðið frekar en að sitja hvert í sínu horni og heyja jafnvel stríð sín á milli.

2.

„Flaugin var það öflug að hún lagði skipið í rúst.“

Frétt á ruv.is.                          

Athugasemd: Er ekki svo að flaugin eyðilagði skipið? Yfirleitt er talað um að hús eða „föst“ mannvirki verði að rústum. Bíll verður varla að rúst, né loftbelgur, flugvél, hestvagn, malarvegur svo dæmi séu nefnd. Hús hrynja og verða að rústum, einnig brýr og önnur mannvirki.

Margt yngra fólk áttar sig ekki á blæbrigðum málsins vegna þess að þekkinguna skortir. Allt sem er eyðilagt er sagt „rústað“. Krummi er sagður hafa „rústað“ hreiðri, innbrotsþjófar „rústa“ íbúð. 

Á visir.is er blaðamaður sem ekki er alls varnað þó hann geri mistök. Hann skrifar um sama atburð:

Því hafi skipið orðið fyrir eldflaug og sokkið.

Ekkert segir í frétt Vísis um að skip hafi verið „lagt í rúst“. Það eru góðu fréttirnar. Á vef BBC, sem er heimild fréttarinnar, er hins vegar ekki sagt að skipið hafi sokkið né heldur að það hafi verið lagt í rúst, „ruined“ á ensku. Hvort tveggja er því skáldskapur, að skipið hafi sokkið og það „lagt í rúst“. Það eru slæmu fréttirnar.

Tillaga: Sprengingin var svo mikil að hún eyðilagði skipið.

3.

„… og að lík­ur eru á að hemla­búnaður hafi verið í bág­bornu ástandi þegar aðalskoðun var fram­kvæmd tæp­um þrem­ur mánuðum fyr­ir slysið.“

Frétt á mbl.is.                           

Athugasemd: Fjölmiðill má ekki orða það þannig að „aðalskoðun sé framkvæmd“. Við framkvæmum ekki skoðun á útsýnispallinum. Í sögninni felst framkvæmd og það þarf ekki að taka það fram. Þegar við förum með bíl í skoðun merkir það að sérfræðingar athuga hvort öryggisatriði bílsins séu í lagi.

Ofangreint er gott dæmi um nafnorðastílinn sem ræður ríkjum í stjórnsýslu landsins og smitar inn í fjölmiðla af því að sumir bera ekki kennsl á hann eða þykir hann gasalega flottur, minnir svo mikið á ensku. Enskan er fallegt tungumál en nafnorðastíllinn í íslensku er ljótur og skaðlegur rétt eins og kóvítis veiran.

Heimild blaðamannsins er skýrsla Rannsóknarnefnda samgönguslysa. Í henni segir:

… að líkur eru á að hemlabúnaður hafi verið í bágbornu ástandi þegar aðalskoðun var framkvæmd tæpum þremur mánuðum fyrir slysið.

Blaðamaðurinn afritar umhugsunarlaust texta Rannsóknarnefndarinnar. Vinnubrögðin eru ekki til fyrirmyndar. 

Tillaga: og að lík­ur eru á að hemla­búnaður hafi verið í bág­bornu ástandi við aðalskoðun tæp­um þrem­ur mánuðum fyr­ir slysið.

4.

„Við auðvitað vitum ekkert um aðsóknina næsta vetur …“

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 12.5.20.                           

Athugasemd: Þetta er röng orðaröð. Sögnin á að vera á undan atviksorðinu til að orðalagið sé eðlilegt. Sé því sleppt gerist ekkert alvarlegt, málsgreinin verður alveg ágætlega skiljanleg.

Blaðmenn taka upp orð viðmælandans og skrifa þau síðar frá orði til orðs rétt eins og um gullaldarmál sé að ræða. Talmál er annað en ritmál enda tafsa margir viðmælendur og lengja mál sitt með innskotssetningum eða orðum sem þeir myndu aldrei nota ef þeir sendu skrifleg svör.

Blaðamanni ber að lagfæra orðalag viðmælanda síns. Hvers vegna? Vegna þess að fréttir eiga að vera á góðu og skiljanlegu máli, laust við ruglið sem oft einkennir talmál. Margir viðmælenda blaðamanna stressast óhjákvæmilega og gefa sér ekki tíma til að gaumgæfa orðaval sitt.

Tillaga: Við vitum auðvitað ekkert hver aðsóknin verður næsta vetur …

5.

„Þeir biðla því til þingnefndarinnar að hún endurskoði án tafar breytingartillögu sína hvað varðar skiptingu starfslauna …“

Frétt á ruv.is.                           

Athugasemd: Allir biðla, enginn óskar eftir, hvetur til, krefst, heimtar og svo framvegis. Slæmt þegar blaðamenn búa sér til staðlað orðalag. Fjölbreytni er nauðsynleg, grundvöllur fyrir góðum stíl.

„Hvað varðar“ er þykir fínna og stofnanalegra en forsetningin um. 

Landsþekktur kennari í MR átti það til að skjóta inn í tal sitt „aaah“ á ólíklegustu stöðum. Nemendurnir töldu skiptin og skellihlógu þegar met var náð. Sama er með verkalýðsrekandann sem segir af og til „emmm“ í útvarps- og sjónvarpsviðtölum. 

Til eru hlustendur sem segja skál fyrir hvert „emmm“ en þeir eru hættir að hafa áfengi í glösum sínum, það hefði leitt til ófarnaðar.

Klisjur blaðamanna og annarra skrifara eru margar. Ég hef stundum skrifað þær hjá mér. Þessar eru afar algengar:

  1. Um að ræða
  2. Til staðar
  3. Það er
  4. Valkostur
  5. Ítreka
  6. Kalla eftir
  7. Hvað varðar 
  8. Biðla til
  9. Ákvarðanataka
  10. Viðbragðsaðilar
  11. Kynna til leiks

Tillaga: Þeir hvetja þingnefndina að endurskoða án tafar breytingatillögu sína um skiptingu starfslauna …

6.

„Dvalarheimilinu var því lokað fyrir öllum líkamlegum samskiptum við umheiminn.“

Frétt á dv.is.                            

Athugasemd: „Líkamleg samskipti við umheiminn“ hljóta að vera alveg rosaleg, að minnsta kosti ef orðalagið sé tekið bókstaflega, 7,6 milljarðar jarðarbúa. Nei, svona talar enginn enda hefur blaðamaðurinn líkast til flýtt sér heldur mikið við þýðinguna. Hallast heldur að því að fljótfærni valdi frekar en vankunnátta. 

Orðalagið er án efa hrá þýðing úr ensku. Hún gæti hafa verið svona:

The residence was closed to all physical contact with the outside world.

Blaðamanninum liggur svo mikið á að fara í kaffi að hann má ekki verið að því að velta fyrir sér orðalaginu. Allt má bjóða lesendum enda ekki alltaf hátt risið á DV frekar en öðrum fréttamiðlum.

Tillaga: Dvalarheimilinu var lokað til að vernda íbúanna.


Bloggfærslur 12. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband