Senda út sendingu, fylgja í fótspor dáinnar móður, vera á München

Orðlof

Melta

Í nútímamáli mun vera algengast að nota sögnina melta (e-ð með sér), t.d.: 

svo er um flest mál, að menn þurfa að melta þau með sér

og 

Það [bréf] hef eg nú verið að melta með mér þessa dagana. 

Fyrirmynd þess eða hliðstæðu er að finna í Brennu-Njáls sögu: 

Undarlega er yður farið er þér vegið víg þau, er yður rekur lítið til, en meltið slíkt og sjóðið fyrir yður, svo að ekki verður af.

Eiríkur Rögnvaldsson. Íslenskt mál. Morgunblaðið.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ég hef lifað og hrærst í þessum smitsjúkdómum lengi.“

Fyrirsögn á blaðsíðu í Morgunblaðinu 9.5.20.                          

Athugasemd: Lengi er atviksorð sem virðist vera þarna á villigötum. Fyrirsögnin er stirð og fjarri því að vera eðlileg vegna þess að atviksorðið er á röngum stað. 

Berum saman fyrirsögnina og tillöguna hér fyrir neðan.  

Tillaga: Ég hef lengi lifað og hrærst í þessum smitsjúkdómum.

2.

„Í vikunni tók Hæstiréttur Bandaríkjanna upp þá nýbreytni að senda út beina hljóðútsendingu frá málflutningi við réttinn …“

Frétt á blaðsíðu 4 í Fréttablaðinu 9.5.20.                          

Athugasemd: Þarna er sagt að sendút hljóðútsending. Þetta er ómögulegt orðalag. Jafn vitlaust er að blaðamaðurinn „skrifi fréttaskrif“. 

Tillaga: Í vikunni tók Hæstiréttur Bandaríkjanna upp þá nýbreytni að útvarpa frá málflutningi við réttinn …

3.

„Illu heilli smitaðist sonur þeirra af barnaveiki og nokkrum mánuðum síðar fylgdi litli drengurinn í fótspor móður sinnar.“

Frétt á blaðsíðu 3 í Fréttablaðinu, Helgin, 9.5.20.                          

Athugasemd: Orðalag verður að vera við hæfi. Í fréttinni segir frá móður sem dó. Blaðamaðurinn orða það þannig að sonur hennar hafi „fylgt í fótspor hennar“. Hér er hrikalega illa að orði komist, raunar heimskulega.

Sá sem aldrei hefur lesið sér til gagns getur varla skrifað góðan texta. 

Blaðamaður á ekki að nota klisjur, málshætti, orðtök eða orðalag sem hann skilur ekki. Best er að skrifa einfalt mál, forðast skrúðmælgi.

Tillaga: Illu heilli smitaðist sonur þeirra af barnaveiki og nokkrum mánuðum síðar litli drengurinn.

4.

„Margir hafa á liðnum árum gagnrýnt dagskrárgerð RÚV. Sama fólkið stjórnar sömu þáttunum ár eftir ár án endurnýjunar. Þættir um Júróvisjónkeppni sem ekki var haldin hljóta að þagga niður í slíkum óánægjuröddum.“

Pistill á baksíðu Fréttablaðsins 9.5.20.                          

Athugasemd: Kaldhæðni er list sem fáir kunna. Sá sem skrifar ofangreint er afskaplega vel máli farinn.

Í pistlinum segir:

Vonandi verður framhald á þessari stefnu og RÚV fjalli um fleiri ekki-viðburði. Það hefur góð áhrif á þjóðarsálina þegar Ísland sigrar í hverri ekki-keppninni á fætur annarri. Allir græða. Ekki-keppni er mun ódýrari og fyrirhafnarminni en raunveruleg keppni. Í heimi sýndarveruleikans er allt hægt.

Hér er ekkert ofsagt.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Á Al­ex­and­erplatz í Berlín í gær voru um 1200 manns sam­an­komn­ir í miðju sam­komu­banni til þess að mót­mæla, ein­mitt, sam­komu­banni.“

Frétt á mbl.is.                          

Athugasemd: Skrýtið þetta innskotsorð, atviksorðið einmitt. Það hefur engan tilgang nema hugsanlega þann að blaðamaðurinn hafi viljað hnykkja á að þarna hafi samkomubanni verið mótmælt og það í miðju samkomubanni. Eða þá að honum hafi þótt þetta fyndið. Okkur lesendum kemur ekki við hvað blaðamanni finnst.

Málsgreinin er ágæt innskotsins. Lesandinn skilur ágætlega hversu furðuleg þessi mótmæli hafa verið. Hins vegar hefði fréttin mátt vera betur skrifuð.

Í fréttinni segir:

Mestu mót­mæl­in urðu í Stutt­g­art, þar sem fleiri þúsund­ir komu saman, og sömu­leiðis voru tald­ir 3000 á Maríu­torgi á München.

Venjulegast er sagt í borg, ekki á borg, nema því aðeins að þetta sé staðbundinn talsmáti í/á München sem við almenningur þekkjum ekki. Hér heima þekkist þetta um íslenskar stórborgir. Fólk mun til dæmis búa á Siglufirði en í Ólafsfirði. Fyrir skömmu fengum við að vita að sjúklingar eru á öndunarvél en ekki í öndunarvél.

Tillaga: Á Al­ex­and­erplatz í Berlín í gær voru um 1200 manns í miðju sam­komu­banni og mót­mæltu sam­komu­banni.


Bloggfærslur 10. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband