Verður næsta skjálftahrina við Reykjanesvita?

200205 Landris v GrindavíkLíður nú að lokum jarðskjálftahrinunnar norðan við Grindavík. Fór þá svo sem vísindamenn spáðu að kvikan sem olli landrisinu komst ekki upp á yfirborðið enda var hún frekar lítil, mældist 0,001 rúmkm. Engu að síður lyftist landið og það hefur án efa verið lærdómsríkt fyrir jarðfræðinga að fylgjast með og læra.

Einna athyglisverðast fyrir leikmenn er þessi litríka mynd sem sýnir risið til 1. febrúar 3,5 cm. Rauði liturinn sýnir mest. Takið eftir hvað áhrifin af kvikuinnskotinu eru mikil. Land aflagast á um eitt hundrað ferkm svæði.

Annað finnst mér athyglisvert og það er hvar jarðskjálftahrinan byrjaði og hvar og hvernig hún endar. Munum að jarðskjálftar eru ekki nærri því alltaf fyrirboðar um eldgos. Jörð skelfur vegna jarðskorpuhreyfinga, flekar færast til og svo framvegis.

Þróun jarðskjálfaTil hliðar er kort frá Loftmyndum sem sýnir jarðhræringar frá því fyrir allt að sex mánuðum. Á því sést að jarðskjálftar verða við suðvestanvert Kleifarvatn. Síðar verða skjálftar við austanvert Fagradalsfjall og þeir færast vestur yfir fjallið. Loks byrja skjálftar norðan við Grindavík og þá hefst landrisið. Veit ekki hvort komu fyrr, skjálftarnir eða landrisið.

Skjálftar við GrindavíkSé miðað við Grindavíkurveginn sem sjá má rauðmerktan á græna kortinu þá er greinilegt að flestir skjálftarnir eru komnir vestur fyrir hann. Myndin er frá Veðurstofunni og er tveggja daga gömul.

Síðan hefur það gerst að skjálftunum hefur fækkað að miklum mun eins og sést á neðsta kortinu sem er frá því í morgun. Í dag hafa þó orðið nokkrir snarpir skjálftar austan megin við veginn og eru þeir að öllum líkindum afleiðing af skjálftahrinunni og breytingum á sprungum, misgengjum, á svæðinu.

Að öllum líkindum mun jarðskjálftunum við Grindavík halda áfram að fækka en þó er hugsanlegt að hrina verði nær Reykjanesvita en þar við varð skjálfti upp á 3,9 þann 18. janúar.

020207 b

Það sem hér er skrifað eru aðeins leikmannsþankar, pælingar sem orðið hafa til án nokkurrar þekkingar í jarðfræði. Sé litið í Tarrot spil, kaffibolla, innyfli sláturdýra og til drauma spakra manna leiðir allt að sömu niðurstöðu, skjálftavirkni á Reykjanesskagaa heldur áfram um ókomna tíð.


Bloggfærslur 7. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband