Ríkjandi meistarar, endurreisa draugabæ og mastera egg

Orðlof

Viskí

Sumir hafa lýst Laphroaig þannig að drykkurinn leiði fólk í ferðalag um þær slóðir þar sem viskíið verður til á eyjunni Islay, miðja vegu milli Skotlands og Írlands. 

Er eins og megi bragða á landslaginu; finna keim af söltum sjó, svörtu grjóti og grænum Það eimir lengi eftir af sopanum, og þegar lagst er til hvílu eftir rólega kvöldstund með viskí í glasi, er ekki laust við að megi greina angan af karamellu rétt í þann mund sem augun lokast.

Morgunblaðið, viðskiptablað 19.2.2020, blaðsíða 12 (nokkuð vel skrifað og skáldlega). 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Annars vegar mætast Atlético Madríd og ríkjandi meistarar Liverpool …“

Frétt á dv.is.               

Athugasemd: Þetta er svo vanhugsað og órökrétt að telja það lið sem sigraði í keppni á síðasta ári vera „ríkjandi meistari“. Annað hvort er liðið meistari eða ekki. 

Þetta leyfa íþróttafréttamenn sér að gera þó þeir viti mætavel að meistaralið ársins er einfaldlega meistaralið og því algjörlega óþarfi að bæta við „ríkjandi“ því önnur lið koma ekki til greina.

Tillaga: Annars vegar mætast Atlético Madríd og meistarar Liverpool …

2.

 „Fjöldi skáta í Bandaríkjunum hefur dregist verulega saman á undanförnum árum.“

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Réttar er að segja að skátum hafi fækkað. Nafnorðaáráttan er slæm. Íslenska byggir á sagnorðum en enskan á nafnorðum. Blaðamenn ættu að hafa það í huga.

Á ensku væri þetta skrifað svona:

The number of scouts in the United States has declined significantly in recent years.

Google-Translat skilur þetta ágætlega enda er íslenska orðaröðin eins og í ensku.

Tillaga: Skátum í Bandaríkjunum hefur fækkað verulega á undanförnum árum.

3.

 Hyggjast endurreisa draugabæ á þekktum sumarleyfisstað.

Fyrirsögn á dv.is.                

Athugasemd: Varla getur þessi fyrirsögn verið rétt. Dettur nokkrum í hug að „endurreisa draugabæ“. Merkingin er sú að breyta eigi bæ þar sem er líf og fjör í draugabæ, mannlausan bæ.

Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að fyrirsögnin er tóm della. Ætlunin er að opna mannlausan bæ fyrir almenningi, endurreisa bæ sem byggir á gamalli frægð.

Í fréttinni segir:

Fuat Oktay, forsætisráðherra Tyrklands, telur að sögulegt tækifæri felist í að endurlífga bæinn og það geti styrkt efnahagslífið.

Ég mæli með „munn við munn“ aðferðinni eða hjartahnoði. Nei, líklega var það misráðið hjá blaðamanninum að nota sögnina að endurlífga jafnvel þó bærinn hafi lengi verið mannlaus, „dauður“. Betra hefði verið að orða það þannig að nú sé tækifæri að opna bæinn og byggja hann upp aftur. Orðaval þarf að vera við hæfi, fylgja efni fréttar eða frásagnar.

Tillaga: Hyggjast breyta draugabæ í sumarleyfisstað.

3.

 Í síðustu viku slasaðist einn vegfarandi í einu umferðarslysi á höfuðborgarsvæðinu.

Frétt á logreglan.is.                 

Athugasemd: Verra gat það verið. Ef þessi óheppni vegfarandi hefði slasast í tveimur eða fleiri umferðaslysum væri hann í slæmum málum. Hrikalega viðvaningslega skrifað.

Annars staðar á lögguvefnum segir:

… því óku allmargir ökumenn, eða 10%, of hratt eða yfir afskiptahraða.

Ég veit hvað hámarkshraði en ekki hvað „afskiptahraði“ merkir.

Tillaga: Í síðustu viku slasaðist [aðeins] einn vegfarandi í umferðarslysi á höfuðborgarsvæðinu.

4.

 Hver hef­ur ekki glímt við að mastera hleypt egg í helgar­bröns­in­um sem hef­ur gengið erfiðlega?

Frétt mbl.is.                  

Athugasemd: Vel má vera að ég hafi lent í þessu en vandamálið er að ég veit ekki hvað er að „mastera“ hleypt egg. Ekki heldur veit ég hvað „helgarbransi“ eða „helgarbröns“ er. Ástæðan er líklega sú að ég er ekki góður í framandi tungum en það getur varla skipt máli að ég er afar fákunnandi í matseld.

Í fréttinni eru gefnar leiðbeiningar. Í þeim segir í boðhætti; skerðu, settu, láttu og svo framvegis. Svo kemur að því sem á að gera í „örbylgju“ og er líklega átt við örbylgjuofn þó það sé ekki sagt:

Þú skalt sjóða vatn. 
Helltu vatn­inu í skál sem þolir að fara inn í ör­bylgju­ofn. 
Settu egg­in …

Þarna lendir blaðamaður í erfiðleikum. Hann veit ekki hvernig sögnin að sjóða er í boðhætti eintölu sem er sjóddu. Þess í stað notar sögnina skulu og þverbrýtur samræmið í frásögninni.

Gleðibankinn söng forðum daga í Júróvisjón:

Þú skalt syngja lítið lag
Um lífsgleðina sjálfa í brjósti þér
Og láttu heyra að þú eigir litið gleðihús
Kósí lítið lag, sem gæti gripið mig og hvern sem er
Þú leggur ekki inn í Gleðibankann tóman blús

Þetta þótti nú ekki neinn tímamóta kveðskapur enda er lagið aðalatriðið, frábært, textinn til uppfyllingar. Margir vildu að orðalagið í upphafi væri svona: „Syngdu lítið lag …“ En það hefði raskað taktinum illilega, tvö atkvæði í einu orði í stað fjögurra í þremur, ósönghæft. 

Þó kann að vera að hægt sé að matreiða samkvæmt uppskriftinni hér að ofan, það er „ef vatnið brennur ekki við“ eins og kallinn sagði.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

Flatey Pizza opnar á Garðatorgi.

Fyrirsögn á visir.is.               

Athugasemd: Fyrirtæki opna ekki neitt, þau bókstaflega geta það ekki. Enn og aftur átta blaðamenn á Vísi sig ekki á þessari staðreynd. Fyrirtæki taka til starfa, eru opnuð, hefja rekstur og svo framvegis.

Hitt er nú alvarlegra, þessi hálf-enska eða hálf-íslenska. Fyrirtækið heitir „Flatey Pizza“, eigendum datt ekki í hug að kalla það Flateyjar-Pizza eða einfaldlega Flatey. Nei, eigendurnir hafa engan áhuga á íslensku máli og gefa því engan gaum, hallast að hálf-ensku. 

Trúið mér, enskuskotin fyrirtækjaheiti eru að ganga af íslenskunni dauðri. Barnabörn eigenda fyrirtækis munu ekki tala íslensku.

Í fréttinni eru birt tíst einhverra kunningja og vina eigenda Flateyjar-pizzu. Einni segir:

Af óteljandi hlutum sem þú hefur gert fyrir mig, að hækka fasteignamat íbúðarinnar minnar er by far það fallegasta af þér.

Maðurinn þurfti endilega að sýna hvað hann kynni mikið í hálf-íslensku en því miður er þetta ekki honum til neins sóma, þvert á móti. Hann hefði þó getað sagt að þetta vera langfallegast af þér eða af öllu fallegast af þér.

Annar ljúflingur segir það vera „brjótandi tíðindi“ að fyrirtækið opni veitingastað í Garðabæ. Hann er að rembast við að þýða enska orðalagið „breaking news“ og er svona „ossalega dullegur“ eins og foreldrar segja þegar barnið þykist hafa gert vel.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

 Sala á upp­runa­ábyrgðum grafi und­an ímynd Íslands.

Fyrirsögn á mbl.is.                

Athugasemd: Viðtengingarháttur er vandmeðfarinn í fyrirsögnum. Við fyrstu sýn virðist hann vera hvatning til aðgerða. Í ofangreindri fyrirsögn er vefútgáfa Moggans ekki að hvetja til þess að með upprunaábyrgðum verði grafið undan ímynd Íslands. 

Í fyrirsögn á frettabladid.is segir:

Segja sölu upp­runa­á­byrgða grafa undan í­mynd Ís­lands.

Og til samanburðar er þetta aftur frá Mogganum:

Sala á upp­runa­ábyrgðum grafi und­an ímynd Íslands.

Hvort finnst lesandanum betra? Hjá Fréttablaðinu er notaður framsöguháttur en viðtengingarháttur hjá Mogganum.

Mér finnst fyrirsögnin á Fréttablaðinu skýrari. 

Sannast sagna finnst mér yfirleitt óþarfi að nota viðtengingarhátt í fyrirsögn og oft getur hann valdið misskilningi. Tilbúið dæmi: Menn berji börn. Er verið að hvetja til þess að menn berji börn?

Tillaga: Sala á upprunaábyrgðum grafa undan ímynd Íslands.

7.

Ýjaði að því að „gengið hefði verið fram af“ föður sem myrti fjöl­skyldu sína.

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Hvað þýðir þessi fyrirsögn. Ég skil hana ekki, jafnvel þó ég hafi reynt að lesa fréttina. Hún er viðvaningslega skrifuð, rétt eins og blaðamaðurinn hafi ekki vitað um aðalatriðin heldur hnoðað öllu saman, aðal- og aukaatriðum.

Orðalagið að ganga fram af einhverjum, merkir að hneyksla, vekja furðu eða álíka. Mjög varhugavert er að nota orðtök í fyrirsögnum eða almennt í fréttum. Blaðamaðurinn verður að minnsta kosti að vita hvað þau merkja og nota þau rétt. Best er að sleppa þeim og tala bara almennt.

Þetta er hræðileg frétt, ótrúlega ljót og viðbjóðsleg, og þar af leiðandi hef ég ekki geð í mér til að gagnrýna efnistök blaðamannsins frekar.

Tillaga: Engin tillaga.


Bloggfærslur 21. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband