Opna ráðstefnu, fundur kallaður og bíll klessir á tré

Orðlof

Kjör

Eintala orðsins kjör (kjörið) merkir: kosning, val. Ná kjöri. Vera í kjöri.

Fleirtalan (kjörin) merkir: skilmálar. Greiðslukjör, launakjör o.fl.

Málfarsbankinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þeir Pierre-Emerick Aubameyang, Nicolas Pepe, Mesut Özil og Alex Lacazette skoruðu mörk Arsenal í þægilegum 3-0 sigri. Bæði mörkin komu í seinni hálfleik en …“

Frétt á dv.is.               

Athugasemd: Íþróttafréttaskrifari DV kann greinilega ekki að telja. Hann nefnir fjóra markaskorara í liði Arsenal. Samt fór leikurinn þrjú núll. Í þokkabót segir skrifarinn að „bæði mörkin“ hafi komið í seinni hálfleik. Rétt er að Arsenal skoraði fjögur mörk en andstæðingurinn ekkert.

Svona vinnubrögð eru slæm, og ofan á allt annað, virðingarleysi fyrir lesendum.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Björguðu sjómanni vélarvana fiskibáts.“

Fyrirsögn á visir.is.              

Athugasemd: Fyrirsagnir eiga að vera stuttar og hnitmiðaðar. Góður blaðamaður semur fyrirsögn sem er lýsandi fyrir fréttina sem fylgir. Þessi er slæm vegna þess að í hana vantar forsetninguna „á“

Þarf að taka það fram að sá sem er á fiskibát sé sjómaður. Eftir fréttinni að dæma var bátnum bjargað og var hann dreginn til hafnar með sjómanninum innanborðs.

Í fréttinni stendur:

Þar segir að mannbjörg hafi átt sér stað í nótt.

Til hvers er orðalagið „eiga sér stað“. Þetta er bara tilgangslaust orðahjal, engu breytir þó orðunum sé sleppt:

Þar segir að manni hafi verið bjargað í nótt.

Er þetta ekki skiljanlegt?

Tillaga: Björguðu vélarvana fiskibáti.

3.

„Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, opnaði ráðstefnuna …“

Fyrirsögn á visir.is.              

Athugasemd: Forseti Þýskalands opnaði ekkert. Hann setti ráðstefnuna og er það í samræmi íslenska málvenju. Blaðamenn þýða blint eins og Google-Translate. Þeir eru gagnslausir ef þeir geta ekki gert betur en GT.

Svona er málgreinin sem vitnað er til:

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, opnaði ráðstefnuna þar sem pólitískir leiðtogar heimsins koma saman, auk herforingja og erindreka, á því að saka ríkisstjórn Donald Trump um að „hafna alþjóðasamfélaginu“.

Takið eftir því hvernig blaðamaðurinn slítur fyrstu setninguna í sundur með tveimur innskotssetningum sem eru ekkert í samhengi við það sem forsetinn segir. Þar að auki hrærir blaðamaðurinn saman nútíð og þátíð sem ruglar lesandann. 

Betra hefði verið að orða þetta svona:

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands setti ráðstefnuna og sakaði ríkisstjórn Donald Trump um að „hafna alþjóðasamfélaginu“.

Hinar setningarnar hefðu átt að koma annars staðar í fréttinni.

Í fréttinni segir:

Hann sagði Bandaríkin ekki hafa verið meira í varnir Evrópu frá lokum Kalda stríðsins …

Þetta er einfaldlega óskiljanlegt nema því aðeins að feitletraða orðið hafi átt að vera „varið“ (af sögninni að verja). Þetta bendir til hroðvirkni.

Orðanotkunin í greininni er einhæf rétt eins og blaðamaðurinn lítinn orðaforða. Nokkrum sinnum notar hann orðið „ítreka“, virðist ekki kunna orð eins og oft, margoft, aftur, endurtaka og álíka.

Í fréttinni segir:

… að Bandaríkin þyrftu að verja skuldbindingu sína gagnvart Evrópu á sama tíma og ríkið væri að verja milljörðum dala til varnar heimsálfunnar. 

Blaðamaðurinn áttar sig ekki á nástöðunni. Annars vegar merkir sögnin að verja að halda uppi vörnum og hins vegar að eyða peningum. Hann hefði getið orðað þetta á annan hátt en þess í stað notar hann eingöngu sögnina að verja.

Í fréttinni segir:

Þetta árið var sendinefnd Bandaríkjanna mun stærri en oft áður og innihélt bæði meðlimi ríkisstjórnar Trump og fjölmarga þingmenn. 

Hann hefði getað sloppi við þessi feitletruðu orð sem þykja nú ekki merkileg í þessu sambandi.

Nú var sendinefnd Bandaríkjanna mun stærri en oft áður. Í henni voru ráðherrar og fleiri úr ríkisstjórn Trumps og fjölmargir þingmenn.

Strax á eftir er þetta í fréttinni:

Allir Bandaríkjamenn virðast sammála um að tónn Evrópumanna hafi komið þeim á óvart. Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa lýst yfir miklum áhyggjum og jafnvel reiði út í forsvarsmenn Evrópu.

Orðalagið er skrýtið. Betra hefði verið að nota viðhorf í stað „tónn“. Einnig sleppa „forsvarsmenn Evrópu“ og nota Evrópubúa enda er það í samræmi við að nota Bandaríkjamenn en ekki „forsvarsmenn Bandaríkjanna“.

Ég hreinlega gafst upp á að lesa greinina í Vísi. Svo mikið rugl er í henni að útilokað var að halda áfram, hvað þá að tíunda allar vitleysurnar. 

Blaðamaðurinn hefur ábyggilega góð þekkingu í ensku og jafnvel alþjóðamálum en hann skrifar illa. Málvillur eru margar, hann hefur ekki nægan orðaforð og gæti ekki að stíl þannig að úr verður hnoð. Allt bitnar þetta svo á lesendum. Hverjum öðrum? 

Blaðamaðurinn heldur að hann hafi staðið sig vel vegna þess að enginn leiðbeinir honum.

Tillaga: Frank-Walter Steinmeier forseti Þýskalands setti ráðstefnuna …

4.

„… en við bíðum eft­ir því að fund­ur verði kallaður.“

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Hvað merkir að „kalla fund“? Þegar fólk kemur saman má kalla það fund. Nema að það sé afmæli, ráðstefna, bíósýning eða eitthvað allt annað.

Hér gæti vantað eitt orð í niðurlagið, saman, það er að kalla saman fund. Einnig má hugsa sér að kalla til fundar. Þetta er þó engin tilviljun því í tvígang notar viðmælandi fréttasíðunnar orðalagið að „kalla fund“. Auðvitað hefði blaðamaðurinn átt að lagfæra orðalagið því þetta orðalag þekkist ekki eftir því sem ég best veit.

Hins vegar er oft boðað til fundar. Forseti Alþingis boðar til þingfundar, forseti Íslands boðar til ríkisráðsfundar, forsætisráðherra boðar til fundar í ríkisstjórn, formaður húsfélagsins boðar til fundar, ríkissáttasemjari boðar til fundar, allir boða til fundar nema þeir sem kalla til fundar sem er bara ágætt orðalag. Útilokað er samt að kalla fund. Þó eru til kallafundir en það má varla („valla“) kalla fund ef einn mætir. Þó getur verið að einhver kalli: „Fundur“ eða „nú verður haldinn fundur“

Tillaga: … en við bíðum eft­ir því að boðað verði til fundar.“

5.

„Flúði lög­reglu og hafnaði á tré.“

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Ökumaðurinn ók á tré, hafnaði ekki á því. Blaðamenn og löggumenn reyna að vera virðulegir í lögguskrifum. Þá dugar ekki að nota hversdagsleg orð eins og árekstur. Nei, þá ber að nota sagnorð eins og „hafna“ í stað þess að rekast á, lenda á. Svo má ekki nota orði sökudólgur, bófi, fyllikall, dópisti eða önnur álíka gildishlaðin og lýsandi nafnorð, heldur ber að vera virðulegur og nota orðið „gerandi“.

Í fréttinni segir:

Til­kynnt var um tvö inn­brot í bif­reiðar í gær­kvöldi, ann­ars veg­ar í Breiðholti á sjöunda tím­an­um og hins veg­ar í miðbæn­um á ell­efta tím­an­um. Mun­ir voru tekn­ir úr bif­reiðunum.

Auðveldlega má gera betur:

Brotist var inn í tvo bíla í gærkvöldi og stolið úr þeim.

Þó er þetta kjarni málsins.

Loks segir í fréttinni:

Á tólfta tím­an­um voru af­skipti höfð af manni á veit­inga­húsi í miðbæn­um vegna fjár­svika. Hann hafði fengið af­greidd­ar veit­ing­ar sem hann gat ekki greitt fyr­ir.

Hefði ekki mátt skrifa þetta svona:

Löggan handtók mann sem gat ekki greitt fyrir fyrir mat sem hann keypti veitingahúsi í miðbænum.

Svo var það allt annar blaðamaður sem sagði að fyllikall hafi ekið á kyrrstæðan ljósastaur. Þá hlógu lesendur.

Tillaga: Flúði lögreglu og ók á tré.

6.

„… en ökumaðurinn lagði á flótta og klessti á tré.

Fyrirsögn á frettabladid.is.               

Athugasemd: Líklega er ofmælt að kenna blaðamönnum um léleg skrif, nær er að kenna stjórnendum um. Enginn leiðbeinir eða hjálpar nýliðunum. Þeir halda að þeim hafi bara tekist ansi vel upp þegar þeir eru í raun búnir að klúðra einfaldri frétt.

Í stað þess að segja að bíl hafi ekið á tré þá segir nýliðinn að bíllinn hafi klesst á tré. Leikskólastíllinn leynir sér ekki.

Og ekki batnar það þegar að hvarflar að blaðamanninum að orðið árekstur sé til. Þá skrifar hann:

… en akstrinum lauk með árekstri við tré við íbúðarhús.

Nei, bílnum var ekki ekið á tré eins og eðlilegra hefði verið að skrifa. Ekki er vitað hvaða máli íbúðarhúsið skiptir í þessu sambandi. Líklega engu.

Eftir stendur eitt lítið álitamál: þar sem bíll lenti í árekstri við tré má þá gera ráð fyrir að tréð hafi lent í árekstri við bíl þó kyrrstætt væri?

Tillaga: en ökumaðurinn lagði á flótta og ók á tré.

7.

Draugaskip rak á strendur Írlands.

Fyrirsögn á dv.is.               

Athugasemd: Það er naumast að skipið hafi verið stór fyrst það gat rekið á allar strendur landsins. En auðvitað var það ekki svo. Skipið strandaði á suðurströnd Írlands eins og fram kemur í fréttinni.

Írland er mjög vogskorið land eins og berlega sést á landakorti og því mjög ónákvæmt að orða fréttina á þennan hátt. 

Tillaga: Draugaskip rak á land á Írlandi.


Bloggfærslur 17. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband