Valkostagreining, fá gagnrýni og vantraust til Vegagerðarinnar

Orðlof

Sumar

Ákveðin tilhneiging virðist vera á dreifingu afbrigðanna sumurin og sumrin. Ef árstíðin er á einhvern máta teljanleg þá er afbrigðið oftast sumurin

Sumurin þrjú síðan hann fæddist hafa verið falleg. 
Hann ferðaðist um Ísland sumurin 1927 og 1930. 

Ef vísað er til árstíðarinnar án tímasetningar er afbrigðið sumrin oftast notað: 

Stúdentar nota sumrin venjulega til að vinna fyrir sér. 
Skákmót eru oft og einatt haldin á sumrin.

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hávært ákall um frjálsari séreign.“

Fyrirsögn á blaðsíðu 8 í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins 7.10.20.

Athugasemd: Ákall merkir samkvæmt orðabókinni bæn eða ávarp. Það getur einnig þýtt hvatning. Enska orðalagið „to call for“ hefur verið þýtt á íslensku „að kalla eftir“. Óljóst er hvað það merkir annað en að hrópa.

Smiðurinn kallaði eftir hamrinum.
Faðir vor kallar á kútinn.
Vinur minn, hvar sem í heiminum er heyrðu mitt ákall og liðsinntu mér

Margir hafa flækt sig í ensku orðalagi og grípa hið gamla íslenska orð ákall og tengja við „kalla eftir“.

Innanríkisráðherra hefur borist ákall frá sýslumanninum á Húsavík vegna skorts á lögreglumönnum í umdæminu.

„Kalla eftir“ er nýlega komið inn í íslensku, að minnsta kosti hefur það aldrei verið eins mikið notað en síðustu misseri. Í fjölmiðlum má finna þessi dæmi um orðalagið:

  1. kalla eftir 6 mánaða tekjubótum.
  2. Kalla eftir ábendingum
  3. Kalla eftir samræmi í stuðningi við fjölskyldur
  4. Kalla eftir verðlækkun
  5. Kalla eftir íbúafundi
  6. Kalla eftir opinni umræðu um ríkisábyrgð 
  7. Kalla eftir ábyrgð
  8. Kalla eftir frekari upplýsingum
  9. Kalla eftir umsögn Heilbrigðiseftirlitsins
  10. Kalla eftir hugmyndum um loftslagsaðgerðir

Orðalagið er notað í ótrúlegum fjölda aðstæðna og fer varla framhjá neinum manni að hægt er að orða hlutina nákvæmar. Nota má orð og orðalag eins og krefjast, heimta, óska eftir, biðja um og svo framvegis. „Kalla eftir“ er rekar loftkennt orðalag.

Hvað gera til dæmis stjórnvöld þegar „kallað er eftir verðlækkun“? Ekkert, vegna þess að ekki er ljóst hvar er verið að segja. Væri hins vegar krafist verðlækkana horfir málið allt öðru vísi við.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„… vinnur einnig að valkostagreiningu fyrir nokkur sveitarfélög.“

Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 8.10.20.                                

Athugasemd: Ólafur Oddsson, menntaskólakennari, benti mér í gamla daga á meinlega villu í ritgerð sem ég skrifaði. Í henni hafði ég notað orðskrípið „valkostur“. Hann skýrði út fyrir mér og líklega bekkjarfélögum mínum að „valkostur“ væri samsett úr tveimur orðum sem merkja nánast það sama. Oftast dugar að nota kostur eða þá val. Nú held ég að vonlaust sé að berjast gegn „valkostinum“. Hann er líklega rótgróinn í hausnum á liði sem skrifar og talar án þess að velja orðin af kostgæfni.

Já, þetta er vonlaust. Fyrir nokkru rakst ég á orðið „valkostagreining“. Í Mogganum mínum í morgun er frétt um fækkun sveitarfélaga. Þar er vitnað í fyrirtæki sem heitir RR ráðgjöf og vinnur að „valkostagreiningu“, ekki greiningu á kostum sem velja má um. 

Nei, „valkostagreining“ skal það heita og er orðið til vitnis um að sá sem það notar er hámenntaður og sigldur. 

Nokkur sveitarfélög að huga að sameiningu við önnur og það heitir í fréttinni leit að „samstarfsaðila“. Á málið.is segir: 

Athuga að ofnota ekki orðið aðili. Fremur: tveir voru í bílnum, síður: „tveir aðilar voru í bílnum“. Fremur: sá sem rekur verslunina, síður: „rekstraraðili verslunarinnar“.

Best er bara að sleppa orðinu „aðili“ í samsetningum og þá leggur kansellífnykinn ekki um allt eins og þegar úldin skata er á borðum. Umorða í staðinn.

Nú býst ég fastlega við að þegar „valkostagreinin“ hefur verið gerð um sameiningu sveitarfélaga standi íbúum til boða að skoða „valkostavalið“. Þá er líklegast að flestir samþykki besta „valkostavalkostinn“.

Tillaga: … vinnur að greiningu kosta fyrir nokkur sveitarfélög.

3.

„Stjórnarmaður KSÍ fær gagnrýni fyrir að stíga fram í kvöld og gagnrýna eina af stjörnum liðsins.“

Fyrirsögn á dv.is.                                 

Athugasemd: Sem sagt, stjórnmaðurinn fær gagnrýni fyrir að gagnrýna. Hvaðan steig maðurinn fram? Var hann á klósettinu og kom svo fram í stofu? Þetta er orðalag undir sterkum enskum áhrifum og því miður mikið notað. Orðalagið er ansi útbreytt, það er sögn og nafnorð. Í flestum tilfellum dugar sögnin: Fá gagnrýni merkir að gagnrýna.

Enskir segja: 

step aside/back/down/in/forward/out
step something up 
step out on

Margt af þessu er ekki hægt að þýða með einu eða tveimur íslenskum orðum og flest af þessu verður kjánalegt en annað órökrétt í þýðingu.

Í ofangreindri fyrirsögn er óþarfi að segja að maðurinn hafi „stigið fram“. Hann gerði það ekki, birti bara skoðun sína á samfélagsmiðli.

Maðurinn er sagður hafa „fengið gagnrýni“ og en á venjulegu máli merkir það að maðurinn var gagnrýndur

Tillaga: Stjórnamaður í KSÍ er gagnrýndur fyrir ummæli um eina af stjörnum liðsins.

4.

„Lýsa yfir „fullkomnu vantrausti“ til Vegagerðarinnar.“

Fyrirsögn á ruv.is.                                 

Athugasemd: Já, vissulega tekur málið breytingum. Vonandi þó ekki á þennan hátt.

Á Facebook má oft lesa:

Til hamingju til þín með afmælið

Gleðileg jól til þín

Hefðbundið orðalag er hins vegar svona:

Til hamingju með afmælið

Gleðileg jól

Þegar við ávörpum einhvern í bréfi, tölvupósti eða á samfélagsmiðlum fer ekkert á milli mála hver viðtakandinn er og því er óþarfi að segja „til þín“. 

Sama er með stofnun eins og Vegagerðina, ríkisstjórnina, borgarstjórann eða lögregluna. Sé ástæða til er lýst yfir vantrausti á þá, ekki til þeirra.

Svo má lengi deila um orðalagið „fullkomið vantraust“. Er eitthvað til sem er „ófullkomið vantraust“. Lýsingarorðið er greinilega til að herða á yfirlýsingunni en verður fyrir vikið marklaus eða úr henni dregur stórlega. Vantraust er vantraust og enginn millivegur. Ekki er til „hálfvantraust“ eða 30% vantraust.

Tillaga: Lýsa yfir „fullkomnu vantrausti“ á Vegagerðina.


Bloggfærslur 9. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband