Taka staðfestingu á tilnefningu og hlaupa fyrir allan peninginn

Orðlof

Súpa í hárið

Á tímabili var ég hrifin af enskum sjónvarpsfrasa sem beint er að þeim sem maður hefur ekki hitt lengi: Long time, no see. Nema ég var aldrei klár á hvort það átti að vera seen eða see, og beitti því gjarnan grínleppnum „langur tími, enginn sjór“, því see hljómar eins og sea – sem þýddi um leið að see væri rétta formið, en þá var það orðið af seint. Þetta er (langsótt) dæmi um hvað getur gerst þegar málnotendur telja sig færa í flestan sjó á öðru máli. Þeir sökkva hratt.

Og ofmatið gengur víða lengra. Það skýrir m.a. hvers vegna alltof sjaldan er leitað til þýðenda eða prófarkalesara þegar klastrað er saman skiltum og enskum bæklingum, sem leiðir til þess að sundgestum er skipað að bera súpu í hárið, og fólk varað við því að hemla reglurnar

Morgunblaðið 3.10.20. Tungutak blaðsíðu 28. Sigurbjörg Þrastardóttir.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Til að mynda sé Trump nýbúinn að tilnefna nýjan hæstaréttardómara og að taka eigi staðfestingu á þeirri tilnefningu til umfjöllunar eftir rúma viku.“

Frétt á visir.is.                                

Athugasemd: Málgreinin er óþarflega löng og orðalagið slæmt, ábyggilega dregið af því sem viðmælandi segir. Byrjendur í blaðamennsku halda að þeir eigi að skrifa allt beint upp eftir þeim sem þeir tala við. Það er rangt. Skylda blaðamanns er fyrst og fremst að koma eðlilegum orðum að því sem viðmælandinn segir. Ekki þarf allt að vera bein ræða.

Orðalagið „til að mynda“ merkir það sama og til dæmis.

Verra er með orðalagið „taka eigi staðfestingu á þeirri tilnefningu“ sem er hreinn og klár kansellístíll; ferlega ljótt og fráhrindandi. Merkingin er einfaldlega sú að þingið þarf að staðfesta tilnefninguna. Einfaldara getur það ekki verið.

Ef blaðamaður getur ekki komið frá sér frétt á nokkurn veginn eðlilegri íslensku er fokið í flest skjól. Raunar stendur íslenskan á berangri og þá kemur upp í hugann ljóð:

Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel,
í fjallinu dunar, en komið er él,
snjóskýin þjóta svo ótt og ótt;
auganu hverfur um heldimma nótt
vegur á klakanum kalda.

Kannast einhver undir fertugu við ljóðið og höfundinn? Stórkostleg kvæði um miskunnarleysi íslenskrar náttúru og tæra móðurást.

Tillaga: Trump hefur til dæmis tilnefnt nýjan hæstaréttardómara sem fulltrúadeild Bandaríkjaþings þarf að samþykkja.

2.

250 hafa nú þegar verið boðaðir í rann­sókn­ina …“

Frétt á mbl.is.                                

Athugasemd: Reglan er þessi: Aldrei byrja setningu á tölustöfum. Blaðamenn Morgunblaðsins eru harðákveðnir í því að hafa hana að engu. Flestir aðrir blaðamenn hér á landi og virða hana.

Ég er dálítið vonsvikin að sjá notkun töluorða í upphafi setninga í íslenskum fjölmiðlum og hef alloft skrifað um fyrirbrigðið í pistlunum um málfar. Mér telst svo til að ég hafi nefnt reglubrotið í þrjátíu sinnum á rúmu ári. Forvitnilegt er að sjá hvernig athugsemdirnar skiptast eftir fjölmiðlum:

  1. Fréttablaðið; 2
  2. Morgunblaðið og mbl.is: 19
  3. Ríkisútvarpið; 3
  4. Vísir; 7

Þetta hafði ég á tilfinningunni. Að sjálfsögðu eru langt í frá allir blaðamenn Moggans sekir um þessa vitleysu. Vandinn er sá að þeir sem þetta gera fá greinilega ekki tilsögn frá stjórnendum blaðsins og ekki frá samstarfsmönnum sínum.

Tillaga: Nú þegar hafa 250 manns verið boðaðir í rannsóknina …

3.

„Það er einsdæmi í sögu Bandaríkjanna að sitjandi forseti í kosningabaráttu veikist svo skömmu fyrir kosningar.“

Leiðari Morgunblaðsins 5.10.20.                                

Athugasemd: Svo rammt kveður að enskum áhrifum á íslenskuna að leiðarahöfundur dagsins getur ekki talað um forseta Bandaríkjanna heldur verður hann að hnýta því við að forsetinn sé sitjandi, „Sitting president“ eins og Ameríkanar segja. 

Á íslensku er hægt að fullyrða að aðeins einn maður sé forseti Bandaríkjanna á hverjum tíma og sá getur ýmist verið standandi, sitjandi eða liggjandi, og teljast allar stöðurnar hafa verið fréttnæmar að einu eða öðru leyti hjá þeim sem nú gegnir starfinu. Oft er talað um núverandi forseta

Á málið.is segir um orðið núverandi:

Í stöðu eða hlutverki á þessum tíma:

hún er núverandi heimsmeistari í skíðagöngu kvenna
telur þú að núverandi ríkisstjórn eigi að sitja áfram?

Ástæðan fyrir því að amrískir fjölmiðlamenn tala um „sitting president“ er líklega sú að  fyrrverandi forsetar eiga það til að flækjast í fréttir. Samkvæmt amerískri málhefð eru þeir einatt kallaðir „president“ þó þeir séu ekki forsetar. Þeir verða sum sé ekki „afforsetaðir“ frekar en á Íslandi tíðkist að „afbiskupa“ eða „afséra“ þá sem gengt hafa stöðum biskups og prests. Aðrir eru bara fyrrverandi þetta eða hitt.

Tillaga: Aldrei fyrr hefur það gerst í sögu Bandaríkjanna að forseti hafi veikst svo skömmu fyrir kosningar.

4.

„Valskonur eiga hrós skilið fyrir sína framgöngu í leiknum en allir leikmenn liðsins lögðu sig 150% fram og hlupu fyrir allan peninginn á Hlíðarenda.“

Morgunblaðið 5.10.20.                               

Athugasemd: Held að það sé alveg ljóst hvað blaðamaðurinn á við og því honum hefði verið óhætt að sleppa niðurlaginu. 

Orðalagið „hlaupa fyrir allan peninginn“ er skrýtið og ekki alveg ljóst hvað það merkir, hvaðan það kemur eða hvernig að er notað. 

Í fljótu bragði gat ég ekki fundið samsvarandi orðalag á ensku.

Með gúggli kemur í ljós að þetta hefur verið notað í afar mismundandi samhengi:

  1. Útsýni fyrir allan peninginn
  2. Gæsahúð fyrir allan peninginn
  3. Pæja fyrir allan peninginn
  4. Pirruð fyrir allan peninginn
  5. Röndótt fyrir allan peninginn
  6. Rokkað fyrir allan peninginn
  7. Töff fyrir allan peninginn
  8. Svartur húmor fyrir allan peninginn
  9. Skák er lúðaleg fyrir allan peninginn
  10. Kjaftað fyrir allan peninginn

Niðurstaða mín er að samsetningin virðist órökrétt og gengur ekki alveg upp, er „bull fyrir allan peninginn“ eða þannig. 

Betur fer á því að tala um frammistöðu en framgöngu í leiknum. Einnig er rétttara að tala um frammistöðu sína, ekki „sína frammistöðu“. Afturbeygða eignarforrnafnið stendur fyrir aftan.

Hlutfallstalan er óþörf vegna þess að viðmiðunin er óþekkt. Best er að segja hóflega frá því sem gerist. 

TillagaValskonur eiga hrós skilið fyrir frammistöðu sína í leiknum en allir leikmenn liðsins fram.


Bloggfærslur 6. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband