Kaupa heimili, segjast frelsissviptir, tveir foreldrar og extra snemma

Orðlof

Elska

Sögnin elska er einhver dýrmætasta sögn í íslenskri tungu. Allir vita hvað hún merkir, ‘að bera ástarhug til einhvers’. Almennt hefur hún bara verið notuð um manneskjur eða í hæsta lagi dýr þótt vissulega hafi Hannes Hafstein (1861-1922) ort:

Blessuð sólin elskar allt,
allt með kossi vekur,
haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.

Þetta er þó líkingamál en ekki dæmi um venjulega málnotkun. 

Á síðari tímum hafa verið brögð að því að elska sé ekki einungis höfð um lifandi verur heldur líka dauða hluti og jafnvel ýmislegt annað. Um leið sljóvgast merkingin og verður nánast ’líkar (vel) við’; ’hef ánægju af’. 

Því er ekki að neita að nokkuð dregur úr gildi yfirlýsingarinnar „Ég elska þig“ þegar í ljós kemur að sá sem það segir elskar líka tölvuna sína og það að syngja í kór.

Málsgreinar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Sylvía keypti eitt fal­leg­asta heimili Seltjarn­ar­ness.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                 

Athugasemd: Ekki er hægt að kaupa heimili. Þau ganga ekki kaupum og sölum. Hús og íbúðir eru tíðum til sölu og ósjaldan keypt. 

Á málið.is segir um heimili:

bústaður (með tilheyrandi húsgögnum og áhöldum) til einkanota manns (fjölskyldu) að staðaldri

Heimili er það sem fólk býr sér, í einbýlishúsum, tvíbýlishúsum, parhúsum, blokkaríbúðum eða jafnvel tjaldi.

Bandaríska hljómsveitin The Temptations sögn meðal annars áhrifaríkt lag sem byrjar svona: „It was the third of september …“ og viðlagið er á þessa leið:

Papa was a rolling stone
Wherever he laid his hat was his home
And when he died, all he left us was alone
Papa was a rolling stone (my son, yeah)
Wherever he laid his hat was his home
And when he died, all he left us was alone

Betra að hlusta á lagið á YouTube, sjá til dæmis hér. Stórkostleg tónlist og einstakur flutningur.

Tillaga: Sylvía keypti eitt fal­leg­asta hús á Seltjarn­ar­nesi.

2.

„Margir Repúblikanar hafa svo til gefist upp á voninni um að halda í Hvíta húsið.“

Fyrirsögn á dv.is.                                  

Athugasemd: Þetta er illa orðuð málsgrein. Raunar arfaslæm. Yfirleitt missir maður vonina, varla hægt að segja að við gefumst upp á henni.

Með orðunum „svo til“ á blaðamaðurinn líklega við næstum því. „Svo til“ skilst illa þarna. Blaðamaðurinn ætlar örugglega að segja að forsetakosningarnar séu næstum því tapaðar en þess í stað fer hann fjallabaksleið og segir að þeir séu vonlitlir „að halda í Hvíta húsið“.

Margir blaðamenn reyna í sífellu að skreyta skrif sín með klisjum og álíka.

Jónas Kristjánsson benti á þetta:

Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.

Reglur Jónasar um stíl eru þessar:

  1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
  2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
  3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
  4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
  5. Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
  6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
  7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd, andlag og viðtengingarhátt.
  8. Hafðu innganginn skýran og sértækan.

Blaðamaðurinn sem skrifaði þessa frétt hefði betur lesið reglur Jónasar. Hann fellur á nærri öllum reglunum.

Hann hefur sérstakt dálæti á því að byrja setningar á atviksorðinu þá, notar það fimm sinnum. Það er ekki rangt en öllu má nú ofgera og eiga margir blaðamenn bágt vegna misnotkunar á því orði. „Ofnotkun“ orða getur bent til lítils orðaforða.

Vita annars yngri blaðamenn hvað inngangur er? Honum er afar sjaldan beitt. Þess í stað er byrjað á illa samsettri sögu og stundum er ekki komið að aðalatriðinu fyrr en í miðju fréttar eða aftast. 

Tillaga: Margir Repúblikanar hafa næstum því misst vonina og telja forsetakosningarnar tapaðar.

3.

„Hælis­leit­endur segjast frelsissviptir á Ás­brú.“

Fyrirsögn á frettabladid.is.                               

Athugasemd: Ekki er reisn yfir orðinu frelsissviptur“, hvorki er uppbygging þess góð né merkingin. Sviptur frelsi, njóti ekki frelsis er miklu betra.

Í upphafi fréttarinnar segir:

Hælisleitendur hafa kvartað yfir aðstæðum á Ásbrú og segja að öryggisverðir séu að halda þeim föngnum eftir að hertar takmarkanir tóku þar gildi.

Þetta er vont, kallast nafnháttarsýki. Miklu betra að tala eðlilega, segja að öryggisverðir hafi haldið þeim föngnum. Sá er sviptur frelsi sem haldið er föngnum. Þetta gat blaðamaðurin sagt réttilega

Fyrir tólf árum sagði Ómar Ragnarsson í bloggi sínu:

Ég giska á að veðurkonan hafi sagt oftar en tíu sinnum 
"við erum að sjá að …", „… ég er að gera ráð fyrir að …“ o. s.frv..

Í stað þess til dæmis að segja:
Það fer að hvessa" er sagt "við erum að sjá að það fer að hvessa" eða 
„ég er að gera ráð fyrir að það fari að rigna" í stað þess að segja einfaldlega „það rignir" eða „það fer að rigna."

Hann Ómar ætti að tala meira um málfar í pistlum sínum. Flestir taka mark á honum.

TillagaHælisleitendur segjast vera sviptir frelsi sínu á Ásbrú.

4.

„En talandi um foreldra, þá á ég tvo.“

Bakþankar á baksíðu Fréttablaðsins 27.10.20.                              

Athugasemd: Maðurinn sem þetta skrifar á eina foreldra, það er tvö foreldri.

Í máfarsbankanum segir:

Nafnorðið foreldrar er fleirtöluorð í karlkyni. Einir, tvennir, þrennir, fernir foreldrar.

Einnig er til hvorugkynsorðið foreldri sem hægt er að hafa eftir þörfum í eintölu eða fleirtölu. 

    1. Jón og Elín eru foreldrar hans. 
    2. Jón og Elín eru tvö foreldri og einir foreldrar
    3. Jóna og Elías eru foreldrar hennar
    4. Jón og Elín og Jóna og Elías eru fjögur foreldri og tvennir foreldrar.

Höfundur Bakþanka segir:

Af öllu því merkilega sem foreldrar mínir hafa gert á lífsleið sinni þá þykir mér vænst um minn eigin getnað, sem hefur alla tíð komið sér vel fyrir mig. 

Dálítið skondið orðalag en gæti valdið misskilningi ef höfundurinn tæki ekki af skarið í næstu málsgreinum og skýrði þetta út. Annars mætti halda að með orðalaginu „eigin getnaður“ væri maðurinn að tala um þau börn sem hann hefði sjálfur getið. En nú er ég bara að snúa út úr.

Tillaga: En talandi um foreldra, þá á ég eina.

5.

„Í kjöl­far CO­VID-19 far­aldursins hafa fjölda­mörg fyrir­tæki á heims­vísu opnað á fjar­vinnu sem áður studdu ekki við það.“

Frétt á stjr.is. og frettabladid.is.                              

Athugasemd: Hér áður fyrr var talað um alþjóðleg fyrirtæki en nú finnst undirmálsfólki betra að segja „fyrirtæki á heimsvísu“. Ástæðan er líklega sú að þeir sem hamra svona á tölvuborðið eru hvorki vanir skrifum eða búa yfir nægum orðaforða. Sumir stjórnmálamenn, ráðherrar og ekki síður aðstoðarmenn þeirra eru illa skrifandi og þetta er glöggt dæmi um slíkt.

Hægt er að orða ofangreinda málsgrein á marga vísu þó svo að heimsvísunni sé sleppt. 

Í fréttinni segir á báðum miðlum:

Að frumkvæði nýsköpunarráðherra hefur undanfarna mánuði verið unnið að því, í samvinnu við dómsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Skattinn ofl., að útfæra heimild fyrir einstaklinga sem eru í föstu ráðningarsambandi við erlend fyrirtæki að dvelja og starfa hér á landi í sex mánuði. 

Þetta er aldeilis fínt stofnanamál. Þarna er talið betra að kalla starfsmenn erlendra fyrirtækja „einstaklinga sem eru í í föstu ráðningarsambandi við erlend fyrirtæki“. Við, alþýða manna, tölum ekki svona, hugsum ekki svona og myndum aldrei láta eftir okkur að berja svona kansellístíl í tölvuna. Það myndi skemma hana.

Tillaga: Alþjóðleg fyrirtæki sem áður sinntu lítið fjarvinnu hafa nú tekið hana upp vegna Covid faraldursins.

6.

„Í Hafnarfirði eru bæjarbúar hvattir til þess að skreyta extra snemma til þess að lífga upp á skammdegið …“

Frétt mbl.is.                             

Athugasemd: Aumt er’ða, maður. Þarna skreytir blaðamaður sig með útlensku en markmiðið er ekki það sem bæjarstjórinn í Hafnarfirði á við enda er þetta haft eftir honum í viðtalinu:

… að leggja okkar af mörkum til að færa meiri birtu, yl og gleði í hjörtu fólks þá væri það núna.

Vel má vera að blaðamaðurinn sé sigldur og kunni útlensk mál en hann þyrfti að æfa sig í íslenskunni og sama á við yfirmenn hans. Við þá er að sakast að maður fyllist ekki birtu, yl eða gleði við lesturinn. 

Tillaga: Í Hafnarfirði eru bæjarbúar hvattir til þess að skreyta mjög snemma til þess að lífga upp á skammdegið …


Bloggfærslur 28. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband