Kjósa í persónu, skömmustulegar kappræður og kuldaleg heilsan

Orðlof

Samhengið

Reiðareksmönnum“ eins og mér er iðulega borið það á brýn að telja allt sem fólk segir eða skrifar jafngott og jafngilt. En það er fjarri sanni, og ég fellst fúslega á að það sé gott og gagnlegt – og nauðsynlegt – að hafa einhver viðmið um vandaða, formlega íslensku. 

Ég held hins vegar að það sé mjög brýnt að breyta þeim viðmiðum sem hafa gilt undanfarna öld og færa í átt til þess máls sem almenningur talar og skrifar – ekki endilega í öllum atriðum, og ekki endilega alla leið. Þetta þarf helst að gerast án þess að fórnað sé hinu órofa samhengi í íslensku ritmáli sem svo oft er vegsamað – með réttu.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Íslands­banki held­ur á 6,35% hlut í Icelanda­ir.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                 

Athugasemd: Íslandsbanki er ekki maður og heldur ekki á neinu. Sem fyrirtæki ræður það yfir 6,35% hlut í flugfélaginu. Sé bankinn eigandi hlutarins er einfaldlega sagt að hann eigi hann. Sé svo ekki ræður hann yfir hlutnum eða fer með hann sem líklega er reyndin miðað við niðurlag fréttarinnar.

Tillaga: Íslands­banki ræður yfir 6,35% hlut í Icelanda­ir.

2.

„Þetta er vegna þess að Trump hef­ur kvatt sína fylgjend­ur til að kjósa í per­sónu.“

Frétt á mbl.is.                                  

Athugasemd: „Enska íslenskan“ ræður í þessari málsgrein. Blaðamaðurinn þýðir fljótfærnislega grein af vef BBC. Þar stendur:

This is because Mr Trump has told his supporters to vote in person. 

Þetta þýðir ekki á íslensku að stuðningsmenn Trumps eigi „að kjósa í persónu“. Þetta er ekki íslenskt orðalag, jafnvel þó það skiljist. Betra er að orða þetta eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.

Í fréttinni segir líka:

Það er hérna sem yf­ir­menn sam­fé­lags­miðlaris­anna ætla að stíga inn.

Þetta er vond málsgrein, enskuskotin. Hvar er þetta „hérna“ og inn í hvað eiga þessir yfirmenn að stíga? Betra væri:

Við svona aðstæður munu yfirmenn samfélagsmiðlarisanna taka af skarið.

Eða eitthvað álíka. 

Tillaga: Þetta er vegna þess að Trump hef­ur kvatt sína fylgj­end­ur til að kjósa á kjörstað.

3.

„Íslenski, Pepsi Max- og Vinsældalisti Rásar 2 þurfa að stíga til hliðar.“

Pistill á blaðsíðu 8 í Fréttablaðinu 29.9.20.                                   

Athugasemd: Fyrir neðan skopmynd á leiðarasíðu Fréttablaðsins er dálkur sem nefnist „Frá degi til dags“. Þar reyna blaðamenn að vera fyndnir með misjöfnum árangri. Ofangreind tilvitnun er úr þessum pistli og skilst varla.

Gerum ráð fyrir að það sem þarna er upptalið séu einhvers konar vinsældalistar í tónlist. Hvernig geta listar „stigið til hliðar“? Og hvað er þarna til hliðar? Geymsla eða eitthvað annað? 

Orðalagið „að stíga til hliðar/niður/upp …“ er fengið rakleitt úr ensku og blaðamenn á öllum fjölmiðlum nota það óspart. Veit þó enginn hvert sá fer sem stígur til hliðar. Má vera að þarna til hliðar sé einhvers konar draumaland eða dagvistun sem veitir vinsældalistum, stjórnmálamönnum og öðrum langþráða hvíld. 

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Ritstjóri Politico segir kappræðurnar hafa verið svo skömmustulegar að þær hafi smánað Bandaríkin.“

Frétt á visir.is.                                  

Athugasemd: Sá sem skammast sín getur verið skömmustulegur og er þá einna helst átt við útlitið. Kappræður geta ekki verið skömmustulegar vegna þess að þær geta ekki skammast sín.

Heimildin er grein á Politico, tímarits í Bandaríkjunum. Þar segir meðal annars:

The proceeding was an epic spectacle, a new low in presidential politics, a new high watermark in national shame.

Þarna er talað um þjóðarskömm; sögulega uppákomu; stjórnmálaumræður um forsetaembættið hafa aldrei verið ómerkilegri.

Orðið skömmustulegur er einungis haft um fólk, svipbrigði þess eða hegðun þegar það uppgötvar mistök sín. Það er ekki haft yfir atburði

Fréttin er illa skrifuð. Þar er meðal annars talað um eftirfarandi: 

  1. kappræðurnar hafi ekki verið álitlegar
  2. myrkan blett á Bandaríkjunum
  3. kvöldið hafi verið smánarlegt
  4. hámarki skammarinnar hafi verið náð

Þó blaðamaður sé afskaplega góður í ensku er ekki þar með sagt að hann sé fær um að þýða á íslensku svo vel sé.

Tillaga: Engin tillaga

5.

„Tók einhver annar eftir því hversu kuldaleg heilsan var milli Donald Trump og Melaniu Trump, miðað við hlýjuna á milli Jill og Joe Biden.“

Frétt á dv.is.                                  

Athugasemd: Hér hefur blaðamanninum skjátlast. Sögnin að heilsa í nútímamáli á eingöngu við kveðju. Fólk heilsar hverju öðru þegar það hittist.

Nafnorðið heilsa á eingöngu við um heilbrigði.

Í stað þess að tala um „kuldalega heilsan“ hefði blaðamaðurinn getað talað um samskipti.

Tillaga: Engin tillaga

6.

„Talsíma­kerfið són­ar út.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                   

Athugasemd: Fyrirsögnin er einfaldlega tóm della. Á íslensku þekkist ekki orðalagið  að eitthvað „sóni út“. Blaðamaðurinn á líklega við að kerfið hverfi smám saman.

Í íslenskri orðsifjabók segir að nafnorðið sónn sé komið úr latínu, dregið af orðinu „sonus“ og tengd orð eru sonnetta, svanur og sónata. Afar fróðlegt lesa um þau á málid.is, mæli með því. 

Sónn merkir langdreginn hljómur, óslitinn tónn eða ymur. Ymur er fallegt orð og þá rifjast upp hið undurfagra ljóð eftir Grím Thomsen, Íslands lag sem er betur þekkt sem „Heyrið vella á heiðum hveri“, en þannig byrjar fyrsta erindið. Björgvin Guðmundsson [1891-1961) samdi óskaplega fallegt lag við ljóðið. Þriðja erindið er svona og þar kemur fyrir orðið ymur.

Og í sjálfs þíns brjósti bundnar,
blunda raddir náttúrunnar
Íslands eigið lag.
Innst í þínum eigin barmi,
eins í gleði’ og eins í harmi,
ymur Íslands lag.

Hálfasnalegt er að vísa til ljóðsins þegar maður er að agnúast út í frétt sem ætti að vera betur skrifuð.

Víkjum aftur að símanum. Í gamla kerfinu tók maður upp símtólið, beið eftir sóni og hringdi svo í númerið. Stundum var ekki svarað og þá má vel vera að hringjandinn hafi „sónað út“ af vonbrigðum.

Nei, sögnin „að sóna“ er ekki til á íslensku. Þeir kunna eitthvað í ensku kannast við ameríska orðalagið „zone out“. Það merkir að sofna, missa einbeitinguna, athyglina eða jafnvel meðvitund. Í orðabókinni eru meðal annarra þessi dæmi gefin:

  • I just zoned out for a moment.
  • It is not the sort of cd I could listen to and just zone out to.
  • Do they zone out in church and only catch half the sermon or what?

Hér hefur oft verið varað við því að þýða beint úr ensku og yfir á íslensku. Hráþýðingar eru algengar í fjölmiðlum. Þær má kalla skemmdarverk því við lesendur tökum öllu trúanlegu og höldum að fjölmiðlar séu skrifaðir á „gullaldarmáli“, sem er mikill misskilningur. En þannig gerum við börnin sem fyrir okkur er haft.

Tillaga: Talsímakerfið hverfur smám saman.


Bloggfærslur 1. október 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband