Handtaka framkvæmd og daðrið við fallið

Orðlof

Innhalda

Réttur með 290 hitaeiningum; póstkortið sýnir nekt; hvaða efni eru í demanti?; í hvorri máltíðinni er meiri fita?: í þessari tösku er allt sem þarf; í bókinni eru 5 sögur; í fiski af Íslandsmiðum er lítið af lífrænum mengunarefnum. 

Þessum dæmum var breytt til að losna við sögnina að innihalda.

Málið, blaðsíðu 47 í Morgunblaðinu, 22.8.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Borgaraleg handtaka framkvæmd á óðum manni.“

Fyrirsögn á dv.is.      

Athugasemd: Fyrirsögnin er á íslensku en hún er arfaslæm. Undir áhrifum löggumáls er „handtaka framkvæmd á manni“. Athugið, hann var ekki handtekinn. Nei, þetta er stofnanamál í sinni ljótustu mynd.

Í fréttinni segir:

Almennir borgarar á Íslandi hafa heimild til að framkvæma handtöku samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Í þeim segir að hver sá sem stendur mann að broti sem sætt getur ákæru og varðað getur fangelsi má framkvæma handtöku.

Þetta er afar illa samin endursögn úr lögunum. Hvergi í þeim er talað um að „framkvæma handtöku“ heldur er þetta sagt:

97. gr. 1. [Lögreglu] 1) er rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum. 

Sams konar heimild [og lögregla hefur] hefur hver sá sem stendur mann að broti sem sætt getur ákæru og varðað getur [fangelsi]. 2) Afhenda skal hinn handtekna lögreglunni tafarlaust ásamt upplýsingum um ástæðu handtökunnar og hvenær hún fór fram. 

Í lögunum er nástaðan frekar mikil sem ekki er til eftirbreytni. Hins vegar hefði blaðamaðurinn átt að taka annað orðalag laganna sér til fyrirmyndar og átta sig á því að slæmt mál er að „framkvæma handtöku á einhverjum“. Þarna er fyrirtaks sagnorði hent út en aumlegt nafnorð tekið í staðinn og hækjan er sögnin að framkvæma.

Rétt er að segja að lögreglan handtekur fólk og borgurum er heimilt að handataka aðra við ákveðnar aðstæður.

Allt annar og betri bragur var á frétt Ríkisútvarpsins um sama atburð:

Almennir borgarar handtóku mann í Grafarvogi í dag.

Ekkert stofnanamál þarna, aðeins sagt frá staðreyndum jafnvel þó heimild útvarpsins hafi verið … já, DV. Fréttamanninum datt ekki í hug að apa stofnanamálið upp eftir síðarnefnda fréttamiðlinum. Óhætt er að draga ákveðnar ályktanir af því.

Líkast til verður blaðamaðurinn að „framkvæmda hugsun“ sína upp á nýtt svo hann getið bætt „framkvæmd fréttaskrifa“. 

Tillaga: Borgari handtekur óðan mann.

2.

„St. Louis eignast fótboltalið þar sem konur eru meirihlutaeigendur.“

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Þetta er illskiljanleg fyrirsögn vegna nástöðunnar sem er meinleg. Þar að auki er ekki reynt að gefa nokkra skýringu á því hvar í veröldinni St.Louis er.

Borgin er í miðríkjum Bandaríkjanna og nefnd eftir Lúðvík níunda Frakklandskóngi sem ríkti frá 1226 til 1270. Hann var tekinn í helgra manna tölu og þess vegna heitir borgin „heilagur Lúðvík“, Saint Louis, skammstafað St. Luis.

Segja má að borgin hafi eignast fótboltalið, svona óeiginlega. Aðrir eiga liðið, ekki borgin. Þetta er eins og að segja að Reykjavík eigi KR en samt á það ekkert í félaginu.

Fyrirsögnin er illa samin. Enginn gerir athugasemdir og blaðamaðurinn er bara ánægður enda er hann ekki gagnrýninn á eigin skrif.

Tillaga: Konur eru meirihlutaeigendur í fótboltaliði í St. Louis.

3.

Hitinn hafi verið svo mikill að hann hafi verið meiri en talið hefur verið að hann verði 2069 miðað við verstu afleiðingar hnattrænnar hlýnunnar.“

Fyrirsögn á dv.is.      

Athugasemd: Getur DV ekki gert betur en þetta? Málsgreinin er illskiljanlegt hnoð og ekki lesendum bjóðandi. Þvílíkt hnoð og rugl. Skemmd frétt.

Nafnorðið hlýnun beygist svona: Hlýnun, hlýnun, hlýnun, hlýnunar.

Tillaga: Engin tillaga

4.

„Sao Paulo myrkvuð vegna reyks frá Amasóneldunum.“

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Eftir fyrirsögninni að dæma hefur einhver slökkt ljósin í Sao Paulo í Brasilíu.

Á málið.is segir að myrkva sé sagnorð. Merking þess er:

gera dimman, slökkva eða byrgja ljós; dimma […] So. er leidd af lo. myrkur.

Slökkvi ég á götuljósunum eru hef ég myrkvað götuna. Séu engin ljós þar er gatan ekki myrkvuð að næturlagi þar er myrkur, dimmt. Ekki myrkvað. Af þessu leiðir að þegar ljós eru slökkt er verið að myrkva. 

Borgin í fyrirsögninni er í myrkri vegna reyks. Er þá rétta að segja að hún sé myrkvuð?

Tillaga: Myrkur í Sao Paulo vegna reyks frá Amasóneldunum.

5.

„Olís deildar spáin 2019/20: Framarar hafa daðrað við fallið en nú er komið að því.“

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Agaleysi blaðamanna, sérstaklega íþróttablaðamanna er stundum vandamál. Fyrirsögnin er dæmi um misnotkun á orði sem hefur hingað til haft ákveðna merkingu en er nú notuð í allt annarri. Þetta jaðrar við nauðung.

Handboltalið sem er í fallbaráttu er síst af öllu í „daðri við fallið“, það er ekki hægt að orða þetta svona. Þetta er ekki einu sinni fyndið.

Á málið.is segir um daður: 

Sýna ástleitni, dufla, gefa undir fótinn.

Það er með öllu ótækt að umsnúa merkingu orðsins á þann hátt að íþróttafélag sem er við það að falla úr efstu deild sé að „daðra“ við fall. Svona ber vott um þekkingarleysi á íslensku máli. Lesendum er enginn greiði gerður. Þvert á móti, sumir kunna að halda að þetta sé til eftirbreytni og tileinka sér það. Í þessu er fólgin ábyrgð fjölmiðla, að tala og skrifa rétt mál.

Tillaga: Olís deildar spáin 2019-20: Framarar hafa verið nálægt falli en nú er spáin þeim ekki hagstæð.


Bloggfærslur 23. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband