Moka upp afla, ósnortu víðernin og Súlur Vertical

Orðlof

Að og af

„She is just being impatient“ á ekki að verða: „Hún er bara að vera óþolinmóð“ heldur: „Hún er bara óþolinmóð.“

Og „Ég er ekki að ná þessu“, um skilningsleysi, leiðir hugann að „ ÌIm not getting this“ – sem ætti að þýða „Ég næ þessu ekki.

Málin falla ekki hvort að öðru eins og flís við rass.

Málið, blaðsíðu 21 í Morgunblaðinu 22. júlí 2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ef svo færi myndi Sánchez fá tvo mánuði í viðbót til að semja við aðra flokka áður en Filippus sjötti, konungur Spánar leysir upp þingið og kallar til nýrra kosninga.“

Frétt á visi.is.     

Athugasemd: Allt er nú „kallað“. Ólíklegt er að kóngur Spánar „kalli“ til nýrra kosninga. Miklu heldur er að hann boði til kosninga. 

Blaðamenn sem eru betri í ensku en íslensku þýða oft beint. „To call for something“ þýða þeir að „kallað“ sé eftir einhverju. Sérstakan vara ber að hafa á sér með „einföld“ orð eða orðalag á ensku. Freistingin er svo rosaleg að þýða „to call for“ sem svo „að kalla eftir“. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta getur þýtt svo margt, til dæmis óska eftir, krefjast, heimta og álíka.

Þegar boðað er til kosninga eru þær ókomnar, eru hvorki „nýjar“ né „gamlar“. Þannig er ekki tekið til orða á íslensku og enginn ruglast á kosningunum sem voru og þeim sem eru í vændum.

Í lok fréttarinnar segir:

Í kjölfarið kallaði hann til kosninga.

Ekki er þetta gott. 

Í fréttinni segir:

Stór vika er framundan fyrir Pedro Sánchez, starfandi forsætisráðherra Spánar og leiðtoga Sósíalistaflokksins, sem mun á næstu dögum leitast eftir stuðningi þingsins fyrir myndun ríkisstjórnar.

Þetta er rangt. Hann mun leita eftir stuðning þingsins við nýja ríkisstjórn.

Sánchez fær tvö tækifæri í vikunni til þess að tryggja sér meirihlutann í neðri deild spænska þingsins, en hefur enn sem komið er enga tryggingu fyrir því að umboðið fáist.

Nástaðan er meinleg. Þar að auki ætlar Sánches að tryggja sér meirihluta í þinginu. Ekki meirihlutann. Á þessu tvennu er talsverður munur.

Sósíalistaflokkur hans vann flest þingsæti í kosningum sem fram fóru fyrir þremur mánuðum en náði ekki meirihluta á þinginu. Forsætisráðherrann þarf að tryggja stuðning 176 þingsæta af alls 350, en flokkur hans er með 123 sæti á þinginu.

Aftur nástaða. Blaðamaðurinn hnoðast með orðalagið „á þinginu“. Les hann ekki fréttina yfir eftir að hafa skrifað hana?

Þetta er skemmd frétt. Gera mætti athugasemdir við margt fleira og þó sérstaklega að útgáfan leyfir nýliðum að birta fréttir án þess að lesa þær yfir og í þokkabót fá þeir engar leiðbeiningar.

Slæmt er að fá það á tilfinninguna að sá sem skrifaði viti lítið um efni málsins. Þá verður til vantraust og neytendur og draga úr eða hætt lestri fjölmiðilsins. Þá er stutt í endalokin.

Tillaga: Ef svo færi myndi Sánchez fá tvo mánuði til að semja við aðra flokka ella mun Filippus sjötti, konungur Spánar leysa upp þingið og boða til kosninga.

2.

„Lokuðu kerskálanum í heild sinni.“

Fréttir í Ríkissjónvarpinu kl. 19, 22.7.2019.     

Athugasemd: Hver er munurinn á að loka skálanum eða loka honum í heild sinni? Líklega er enginn munur á þessu orðalagi. Lokaður skáli er einfaldlega lokaður hvað svo sem um heildina má segja.

Fréttamanninum varð þetta að orði þrisvar eða fjórum sinnum í fréttinni. Líklega hafa hlustenduð áttað sig á því að skálanum hafi verið lokað eftir að þetta var sagt í annað sinn.

Svona má kalla nástöðu í talmáli.

Tillaga: Lokuðu kerskálanum.

3.

„Það er líka nóg af makríl við höfnina og fólk mokaði upp afla.“

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Samkvæmt orðabókinni er afli fiskur hefur verið veiddur, kominn upp í bát, skip eða á land. Aflinn getur verið einn fiskur eða milljónir. 

Þar af leiðandi er varla hægt að nota orðalagið „moka upp afla“. Margir mokveiða. Líkingin er fólgin í því að fiskurinn er svo mikill að sé hægt að moka honum með skóflu.

Margar villur eru í fréttinni, hún var ekki lesin yfir. Þetta er haft eftir viðmælanda:

Undanfarin ár höfum við ekki verið byrjaðir áþessum tíma og þegar við höfum verið byrjaðir áþessum tíma, í samanburði við magnið sem er að veiðast núna er þetta mjög gott,“ 

Þetta er illskiljanlegt. Nástaðan drepur frásögnina. Blaðamaðurinn mokar orðum viðmælandans í fréttina en gerir enga tilraun til að lagfæra orðalagið, eins og honum ber þó skylda til. Ekkert bendir til þess að blaðamaðurinn hafi lesið fréttina yfir að skrifunum loknum. Eru þó tveir blaðamenn skráðir fyrir henni.

Þetta er skemmd frétt.

Tillaga: Nóg er af makríl við höfnina og þar er honum mokað upp.

3.

„Hann spilar ekki í deildinni á næsta tímabili eða það sem eftir lifir æfi sínar.“

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Þessi tilvitnun er skrýtin enda úr stórskemmdri frétt. Fótboltamaður missti vinstri hönd í umferðarslysi. Blaðamaðurinn hnoðar saman nokkrum orðum sem eru tóm endaleysa. Einhentur maður mun ekki leika amerískan fótbolta, hvorki á næsta tímabili eða öðrum. Þarna hefði atviksorðið aldrei komið í góðar þarfi í stað hnoðsins.

Má vera að blaðamaðurinn hafi óvart misritað síðasta orðið, afturbeygða fornafnið sem þarna í kvenkyni fleirtölu. Stafsetningavillur eiga ekki að sjást í fjölmiðlum. Nota á villuleitarforritið.

Svo segir:

Hann gaf sitt fyrsta viðtal eftir slysið …

Hann „gaf“ ekkert viðtal. Þetta er enskt orðalag. Á íslensku veita menn viðtal.

Norton gerir sér fulla grein fyrir því að draumurinn um að spila sem atvinnumaður er dáinn. 

Blaðamaðurinn þýðir beint úr ensku og fyrir vikið er frásögnin undarleg, svo ekki sé meira sagt. Hann gat ekki sagt að ferlinum væri lokið.

Hann missti vinstri höndina í slysinu en ætlar sér að ná sem mestu út úr sínu lífi

Lífið er ekki eins og tannkremstúpa sem er næstum tóm en hægt er að kreista afganginum út úr henni. Fróðlegt er að bera saman frétt Vísis og heimildina, hér. Blaðamaðurinn hefði getað vanda sig og til dæmis lesið yfir fréttina fyrir birtingu.

Þetta er skemmd frétt, illa samin, full af villum. Svona frétt hlýtur flesta fráhuga fjölmiðlinum.

Tillaga: Hann leikur aldrei aftur körfubolta.

4.

„Í Stranda­sýslu er að finna stærstu ósnortu víðern­in á land­inu.“

Myndatexti á á mbl.is.      

Athugasemd: Fallbeygin lýsingarorðsins ósnortinn kann að virðast dálítið snúin. Sé skrifari ekki fullkomlega klár á henni er auðvelt að kalla fram orðið á malid.is og velja þar beygingarlýsinguna.

Stærstu ósnortin víðernin beygjast svona í veikri beygingu, kvenkyni fleirtölu:

Hér eru stærstu ósnortnu víðernin
Um stærstu ósnortnu víðernin
Frá stærstu ósnortnu víðernunum
Til stærstu ósnortnu víðernanna

Eins í öllum föllum fleirtölu, og öllum kynjum. 

Fallbeygingin er önnur ef við tölum um stór ósnortin víðerni, þá er orðið í sterkri beygingu, fleirtölu, hvorugkyni:

Stór ósnortin víðerni
Um stór ósnortin víðerni
Frá stórum ósnortnum víðernum
Til stórra ósnortinna víðerna

Snortinn er líka lýsingarorð. Í orðabókinni segir:

Snortinn: sem hefur orðið fyrir tilfinningalegum áhrifum, gagntekinn. Vera djúpt snortinn <af ræðu prestsins>

Snortinn tengist sögninni að snerta sem merkir að koma við, þreifa á, strjúkast við, varða

Tillaga: Í Stranda­sýslu er að finna stærstu ósnortnu víðern­in á land­inu.

5.

„Með annan fótinn styttri og varð tveggja barna faðir sextán ára en er nú orðinn sá dýrasti.“

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Fyrirsagnir á Vísi slaga stundum hátt upp í lengd fréttatextans. Að minnsta kosti segir þessi fyrirsögn eiginlega allt sem segja þarf, lítil ástæða til að lesa fréttina.

Ekkert samhengi er í fyrirsögninni. Nokkur list er að semja fyrirsagnir og alls ekki á allra færi.

Í fréttinni segir:

Wesley Moraes, sem heitir fullu nafni Wesley Moraes Ferreira da Silva, er Brasilíumaður en hefur spilað

Ekki er öllum gefinn hæfileikinn að segja skipulega frá. Þarna er fullt nafn fótboltamanns og svo kemur „en …“, eins og skrattinn úr sauðaleggnum, hefur þarna engan tilgang. Nær hefði verið að hafa punkt enda er næst farið út í allt annað sem kemur nafninu ekkert við.

Svo kemur þetta sem seint verður talið til gullkorna í íslenskri blaðamennsku:

Þegar menn fóru að skoða leið Wesley Moraes upp í ensku úrvalsdeildina þá komust menn að því að hann hefur ekki átt auðvelt líf síðan að hann fæddist árið 1996 í litlum bæ 200 kílómetrum frá Ríó.

Hvaða menn er blaðamaðurinn að tala um? Svo er sagt að fótboltamaðurinn hafi ekki „átt auðvelt líf síðan hann fæddist …“. Svona tekur enginn til orða. Skárra hefði verið að sleppa „síðan hann fæddist“. Til lítils er að lagfæra hnoð, betra að endurskrifa alla fréttina.

Svo kemur þessi furða:

Faðir Moraes fékk heilaæxli og dó þegar hann var aðeins níu ára gamall. 

Faðirinn hlýtur að hafa verið með yngstu feðrum sem um getur.

Þessi frétt er hræðileg endaleysa og hnoð. 

Tillaga: Engin tillaga.

 

Smælki:

Nafnorðavæðing:Menn slógust hér áður fyrr við og hnýttu í menn úr nágrannasveitarfélögum – hötuðust og stunduðu sígildan hrepparíg.

Grein í Morgunblaðinu 24.7.2019. Skrýtið orðalag að stunda hrepparíg. Varla segist nokkur maður stunda íþróttaæfingar, stunda fyrirlestrahald, stunda umtalsillsku … Betra að umorða.

Hnoð: „… þar sem rauð spjöld fóru á loft og grípa þurfti til víta­spyrnukeppni til þess að fá fram sig­ur­veg­ara.

Klúðurslegt orðalag. Er ekki þetta einfaldara: Sjö leikmenn fengu rautt spjald og úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni.

Enskuáráttan: „Súlur Vertical“ er opinbert heiti á hlaupi á Akureyri. Forráðamenn þess halda að svona heiti sé í lagi. Staðreyndin er hins vegar sú að endalok íslenskunnar sem lifandi tungumáls felst í örsmáum skrefum þar sem málinu er meðal annars blandað saman við ensku. Þegar yfir lýkur er hefur alheimsmálið tekið yfir og öllum þykir það sjálfsagt. 

Er enginn metnaður til í þeim sem reka fyrirtæki? 

 


Bloggfærslur 24. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband