Fær sá flest atkvæði sem er atkvæðamestur?

Orðlof og annað

Óþarfa orð

Reynið að umorða og stytta setningar eins og hægt er. Athugið þessar setningar:

a. Eins og kom fram í umfjölluninni um eldfjöllin eiga allir jarðvísindamennirnir mjög erfitt með að segja mjög nákvæmlega fyrir um eldgos.

b. Jarðvísindamenn eiga erfitt með að segja nákvæmlega fyrir um eldgos.

Setning b er betri því þar er sleppt öllum óþörfum orðum og hún verður markvissari.

Askur leiðbeiningar við ritgerðaskrif.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ópal und­ir tíðu eft­ir­liti MAST.“

Fyrirsögn á mbl.is.              

Athugasemd: Ekki þarf mikið til að gleðja þann sem þetta skrifar. Hann varð alveg steinhissa við lestur á Moggavefnum er hann rakst á þessa fyrirsögn. Í einfaldleika sínum blasir hún við lesendum rétt eins og allar aðrar fyrirsagnir og fréttir eiga að gera og málfarslega á ekkert að vera við hana að athuga. Fyrirsögn á að segja sögu, vekja athygli, forvitni.

Blaðamaðurinn sem skrifar hana og fréttina hefur góðan málskilning og svo drjúgan orðaforða að hann notar þarf ekki hið margtuggna, gegnjórtraða og ofnotaða lýsingarorð „ítrekað“.

Í ómerkilegum fréttavefsíðum hefði staðið: „Ópal undir ítrekuðu eftirliti Mast.“.- Og enginn hefði sagt neitt vegna þess að margir halda að allt sé rétt sem stendur í fjölmiðlum. Því miður er það ekki svo, málfræðilegar skemmdar fréttir eru ótrúlega algengar. Þó ekki þessi, alls ekki.

Tillaga: Engin tillaga

2.

Níu fjall­göngu­menn frá Suður-Kór­eu fór­ust á fjall­inu í októ­ber þegar þeir hröpuðu af kletti í blind­byl.

Frétt á mbl.is.              

Athugasemd: Eitt er að falla fram að kletti og annað að hrapa eða falla fyrir björg. Flestir hafa eflaust þá tilfinningu að klettur sé miklu minni en bjarg. Þó segir í orðabók að samheitin séu bjarg, bjargdrangur, hamar og  hamrabelti. Skyldi þá enginn vanmeta klettinn.

Hér er fjallað um hið gríðarlega fjall Annapurna í Nepal. Ég skildi ekki alveg málsgreinina né heldur fréttina og leitaði því heimilda. Á vefnum Channel News Asia, CNA segir:

Nine South Korean climbers were killed last October after a snowstorm swept them off a cliff on Mount Gurja, west of Annapurna.

Þarna er lýsingin dálítið önnur en á Moggavefnum. Síðasta haust varð ofsalegur blindbylur í öllum vesturhluta Nepal, náði yfir mjög stórt svæði. Þá fórust Kóreumennirnir en þeir voru á Mount Gurja eða Gurja Mimal (7.193 m). Það er hins vegar ekki sama fjallið og Annapurna (8.091 m). Hér er linkur um slysið á Gurja.

Mikilvægt er að blaðamenn segi skilmerkilega frá. Þegar kastað er til höndum verður afleiðingin efnislega takmörkuð frétt. Almenningur á betra skilið.

Tillaga: Engin tillaga

3.

„Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti veika konu á Esjuna.

Fyrirsögn á visir.is.           

Athugasemd: Vont er að veikjast í fjallgöngu og því les almenningur áfram. Í meginmáli fréttarinnar segir:

Ekki var talið ráðlegt að sækja konuna landleiðis og því var þyrlan fengin til þess að ná í konuna sem var uppi í Móskarðshnjúkum þegar hún var sótt.

Hvort var veika kona á Esju eða Móskarðshnúkum? Þetta eru tvö ólík fjöll, ekki bara landfræðilega, að útliti, gróðurfari og þar að auki er jarðfræðing gjörólík og svo má áfram telja.

Almennt er ekki notaður ákveðinn greinir á örnefni, að minnsta kosti ekki í ritmáli. Í fréttinni er ekki samræmi í notkun á greini.

Nástaðan í fréttinni sker í augu og er hún þó örstutt. Hér er öll fréttin, nástaðan auðkennd með raðtölum í hornklofum:

Þyrla [1.] Landhelgisgæslunnar sótti [1.] konu [1.] á sjötugsaldri upp á Esjuna og flutti á Landspítalann í Fossvogi um klukkan eitt í dag. Sækja [2.] þurfti konuna [2.] vegna skyndilegra veikinda hennar [1.].

Ekki var talið ráðlegt að sækja [3.] konuna [3.] landleiðis og því var þyrlan [2.] fengin til þess að ná í konuna [4.] sem var uppi í Móskarðshnjúkum þegar hún [2.] var sótt [4.].

Blaðamaðurinn kastar til höndum, les ekki yfir það sem hann hefur skrifað eða veit ekki betur. Þetta er slæm fréttamennska sem stendur ekki undir nafni. 

Hins vegar eru vinnubrögðin ekkert einsdæmi í íslenskum fjölmiðlum. Fjölmargir blaðamenn kunna ekki til verka, fréttastjórar og ritstjórar gera engar athugasemdir, vita hugsanlega ekkert betur.

Finnst neytendum, lesendum, í lagi að fjölmiðlar sendi út skemmdar fréttir?

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Sósíalistaflokkur forsætisráðherra atkvæðamestur í kosningunum á Spáni.

Fyrirsögn á visir.is.           

Athugasemd: Blaðamaðurinn veit ekki hvað lýsingarorðið atkvæðamikill merkir. Það á ekki við þann sem fær flest atkvæði heldur mann sem mikið kveður að. 

Þingmaður getur verið atkvæðamikill í þingsal, jafnvel atkvæðameiri en aðrir og hugsanlega atkvæðamestur. Það þýðir hins vegar ekki að hann hafi fengið flest atkvæði til að fá að vinna þar. Miklu frekar að það sópi að honum í umræðum.

Orðabókin nefnir atkvæðamikinn leikmann. Mér fannst til dæmis Guðjón Baldvinsson vera mjög atkvæðamikill í fótboltaleik milli Stjörnunnar og KR síðasta laugardag. Fleiri má auðvitað nefna.

Afar alvarlegt er að blaðamaður hafi ekki góðan orðaforða, miklu verra er að hann fái óátalið að dreifa málvillum. Hnignum tungumálsins er staðreynd. Fjölmiðlar eiga stóra þátt í henni en ættu auðvitað að vera traustustu stoðir íslenskunnar.

Tillaga: Sósíalistaflokkur forsætisráðherra fær flest atkvæði í kosningunum á Spáni.


Bloggfærslur 28. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband