Afturendatal og vinsæla orðið

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Á einu bretti

Aldrei fleiri misst vinnuna á einu bretti, segir í fjölmiðlum. Hvaða bretti er þetta?

Orðatiltækið er kunnugt úr nútímamáli og er líkingin dregin af því að peningar sem telja átti voru lagðir á fjöl eða bretti …[d. på et bræt; þ. etwas auf einem Brett bezahlen].

Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson.

 

1.

„Rooney gekk í raðir DC síðasta sumar og reif liðið upp af rassgatinu og heldur því áfram núna.“

Frétt í dv.is.             

Athugasemd: Stíllinn hjá íþróttablaðmönnum er oft til lítillar fyrirmyndar og ritstjórnin gerir engar athugasemdir. Er það svona málfar sem lesendur vilja ef ekki er best að blaðamenn taki sig á (ekki rífi sig upp af rassgatinu).

Tillaga: Rooney gekk í raðir DC síðasta sumar, reif liðið áfram og er fjarri því hættur.

2.

Við erum búin að meta stöðuna ítrekað, ég held að þess­ar út­lín­ur sem nú þegar liggja fyr­ir …

Frétt á mbl.is.             

Athugasemd: Atviksorðið oft er frekar lítið notað enda bölvaður ræfill og kjánalegt í háalvarlegri umræðu. Miklu flottara er að nota lýsingarorðið ítrekaður. Það er einhvern veginn svo … gasalega gáfumannslegt, svo fjölmiðlalegt. Eða þannig sko.

Sögnin að ítreka merkir að endurtaka. Sumir hafa oft þurft að leita réttar sín hjá stjórnvöldum og því er ábyggilega hraustlegra að segja að þeir hafi þurft að ítreka (sögnin) kröfuna margsinnis.

Svo eru það hinir sem alltaf eru að minnast á ákveðið mál, til dæmis „orkupakka 3.0“. Þeir vara ítrekað (lýsingarorðið) við honum enda er orðið vænlegra til árangurs og flottara.

Þetta var nú lítil saga af orðafátæktinni í fjölmiðlum sem hér hefur stundum (ekki ítrekað) verið nefnd, líklega oft (ekki ítrekað), jafnvel margsinnis (ekki ítrekað) og hér er hún enn einu sinni (ekki ítrekað), það er aftur og aftur (ekki ítrekað) hoggið í sama knérunn.

Á malid.is segir um nafnorðið knérunnur:

Orðatiltækið að höggva/vega í sama knérunn merkir: gera e-m sams konar miska á ný eða gera það sama aftur. Orðið knérunnur merkir: ættarlína, grein ættar.

ættarlína, ættarröð í beinan ættlið’. Af kné h., sem líkl. er haft í merk. ‘(ætt)liður’, og runnur ‘tré’ (s.þ.).

Já, knérunnur er einstaklega fallegt orð.

Tillaga: Við höfum oft metið stöðuna ég held að það sem nú þegar liggur fyr­ir …

3.

Skrifstofufólk teygir úr sér eftir langan setu á rassinum.

Myndatexti á blaðsíðu 3 í Fólk/kynningarblaði Fréttablaðsins 2.4.2019.        

Athugasemd: Ólíklegt er að mannfólkið sitji á einhverju öðru en afturendanum, rassinum. Þar af leiðandi er þarf sjaldnast að nefna hann í álíka tilfellum enda ekki gert.

Í Íslenskri orðsifjabók á malid.is segir:

rass k. ‘bakhluti, afturendi á manni eða skepnu, sitjandi, bossi; tilsvarandi hluti á buxum; (afleidd merk.) afkimi, leiðindastaður’; sbr. fær. rassur, nno. rass. 

Eiginl. víxlmynd við ars (s.m.) (s.þ.), sbr. svipaða hljóðavíxlan í argur og ragur.

Á ensku er líkamshlutinn einmitt nefndur „arse“ enda kann hljóðvíxlunin að hafa gleymst í því máli.

Tillaga: Skrifstofufólk teygir úr sér eftir langan setu


Bloggfærslur 2. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband