Flugfélög sem stíga inn í gat, útsýni yfir fjöll og ganga í gegnum árekstra

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

 

1.

„Mjög gott útsýni er úr eigninni m.a. Esjunni, Snæfellsjökli og Keili.“

Fasteignaauglýsing á blaðsíðu 17 í Morgunblaðinu 30.3.2019.            

Athugasemd: Betur fer á því að segja að útsýni sé til Esjunnar. Einu sinni stóð í fasteignaauglýsingu að útsýni væri yfir Esjuna. Þá hlýtur húsið að hafa verið ansi hátt. 

Víða í Breiðholti er útsýni yfir Reykjavík og jafnvel til Snæfellsjökuls og Akrafjalls.Úr stofuglugganum heima hjá mér er gott útsýni yfir Elliðavatn, Heiðmörk og allt til Vífilsfells og Bláfjalla, þó ekki yfir þau.

Skrýtið að kalla íbúð eign, í þessu tilfelli er engin ástæða til þess. Miklu sölulegra að tala um íbúð. Allir vita að íbúð er eign en ekki eru allar eignir íbúðir.

Tillaga: Mjög gott útsýni er úr íbúðinni m.a. til Esjunnar, Snæfellsjökuls og Keilis.

2.

„… segir að ólíklegt sé að erlend flugfélög stígi inn í það gat sem myndast við gjaldþrot flugfélagsins WOW air hvað varðar framboð á flugleiðum til styttri tíma.

Fasteignaauglýsing á blaðsíðu 18 í Morgunblaðinu 30.3.2019.            

Athugasemd: Ekki nóg með að ráðherra, þingmenn og aðrir „stígi til hliðar“, „stígi niður“ eða upp heldur eru nú flugfélög farin að stíga inn í göt.

Hver fann upp á orðalaginu að „stíga inn í gat“? Hér gatar blaðamaðurinn.

Wow skildi ekki eftir sig gat nema ef til vill í óeiginlegri merkingu, en þá verður viðmælandi og blaðamaður að vita hvenær samlíkingunni sé lokið. 

Útilokað er að segja að í kjölfar verkfalla fljóti atvinnuleysi … eða þar syndi einhver með launahækkun! Eða að manni sé laus höndin og tími sé kominn að festa hana. Eða að söngvarinn hafi verið klappaður upp á efri hæð og þar hafi hann tekið aukalag. Eigum við nokkuð að halda áfram með svona vitleysu?

Orðtök og samlíkingar eru ágætar en sá sem skrifar verður að kunna á þeim skil.

Orðalagið „hvað varðar“ er einfaldlega bjánalegt. Mikilvægt er að sá sem höfundur lesi skrif sín yfir á gagnrýnan hátt, lagi og bæti. Svona er ekki lesendum bjóðandi.

Tillaga: … segir að ólíklegt sé að erlend flugfélög bjóði til skamms tíma upp á sömu flugleiðir Wow air var með.

3.

„Vantar húsfélagið þitt aðstoð við aðalfund og gerð ársreikninga.

Auglýsing á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 31.3.2019.            

Athugasemd: Fyrir um viku (ekki síðan) varð fyrirtæki það á að birta heilsíðuauglýsingu með þágufallsvillu: „

Vantar húsfélaginu þínu …

Nú birtir sama fyrirtæki heilsíðuauglýsingu sem er villulaus. Þegjandi og hljóðalaust var auglýsingin lagfærð. Þetta er til fyrirmyndar.

Tillaga: Tilvitnunin er rétt.

4.

Þegar Guðlaug hafði ítrekað gengið í gegnum árekstra

Viðtal á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 31.3.2019.           

Athugasemd: Hvernig er hægt að gagna í gegnum árekstra? Líklegast á viðmælandinn við að hann hafi oft lent í áföllum. Fleirtalan bendir þó til þess að lýsingarorðið ítrekað og jafnvel atviksorðið oft séu óþörf.

Blaðamanni ber skylda til að lagfæra orðalag viðmælandans. Að öðrum kosti dreifir hann vitleysu sem er fjarri því að vera markmið fjölmiðla.

Lýsingarorðið ítrekað er ofnotað, orð sem er óskaplega vinsælt en auðveldlega hægt að nota önnur. Fyrir alla muni reynum að sýna fjölbreytni í málfari og stíl.

Í viðtalinu stendur:

Í gegnum tíðina hef ég alls ekki synt með straumnum … 

Oft kemur það eins og þruma úr heiðskírum læk þegar fólk fer rangt með orðtök. Maður flýtur með straumnum, lætur berast með straumnum eða fylgir straumnum. Erfitt er hins vegar að synda á móti straumnum og þeir vita sem reynt hafa að það er einnig erfitt að synda með straumnum. Um þessi orðtök má lesa í bókinni Mergur málsins (blaðsíðu 620).

Viðmælandinn á ábyggilega við að hann hafi ekki bundið bagga sína sömu hnútum og aðrir (Mergur málsins, blaðsíða 24).

Tillaga: Þegar Guðlaug hafði lent í áföllum

5.

Fyrir um ári síðan gengu börnin mín í gegnum mikið áfall, en börnin mín þrjú …

Viðtal á blaðsíðu 22 í Morgunblaðinu 31.3.2019.           

Athugasemd: Les blaðamaður aldrei yfir það sem hann skrifar eða er hann blindur á nástöðuna? 

Orðalagið að ganga í gegnum (d. gå igennem) er oftar en ekki óþarft.

Danir segja:

  For et år siden … 

Hins vegar segjum við á íslensku: 

Fyrir ári (ekki síðan) …

Á malid.is segir:

Það er talið betra mál að segja fyrir stuttu, fyrir ári, fyrir þremur dögum o.s.frv. en „fyrir stuttu síðan“, „fyrir ári síðan“, „fyrir þremur dögum síðan“. Orðið síðan er óþarft í slíku samhengi.

Þetta eiga allir að vita.

Tillaga: Fyrir ári urðu börnin mín fyrir miklu áfalli þegar þau …


Bloggfærslur 31. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband