Lausi taumurinn, biðla til guðs og erindi eða örendi,

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Fótbolti eða knattspyrna

Þegar fótboltaleikur fluttist hingað til Íslands, báðu menn lærðan málhreinsunarmann að búa til íslenzkt orð yfir þennan leik, og þannig var orðinu knattspyrna nauðgað inn í málið.

Í þessum leik er ekki leikið með knött, heldur hlut, sem fer ágætlega á að haldi heitinu bolti. Knöttur er gagnþéttur og þungur, það heyrir hver maður með óspillta heyrn á hljómi orðsins; bolti er léttur, það er loft innan í honum, það er líka auðheyrt á hljómi orðsins.

Og í þennan bolta er ekki spyrnt, heldur sparkað – það er ekki spyrnt í hlut nema hann veiti viðnám. Fótbolti er því ágætt orð. Vonandi á máltilfinning þjóðarinnar eftir að útrýma orðinu knattspyrna...

Kristján Albertsson í Skírni 1939. Birt á Vísindavefnum.

1.

„Voru eigendur verslana í nágrenninu sagðir ævareiðir þar sem mótmælendum var gefinn laus taumur til þess að brjóta og bramla.“

Frétt á blaðsíðu 17 í Morgunblaðinu 19.3.2019.           

Athugasemd: Góð regla er að nota ekki málshætti eða orðtök nema kunna á þeim skil. Betra er að sleppa þeim frekar en að eiga á hættu að fara rangt með.

Í þessu tilviki passar orðtakið ekki og málsgreinin missir merkingu sína.

Taumur er „sá hluti  beislisins sem haldið er í“, segir í íslenskri nútímamálsorðabók. 

Reiðmaðurinn stjórnar hestinum með taumnum. Þegar taumurinn er lagður niður, er laus, fær hesturinn að stjórna ferðinni sjálfur. Hér væri algjört stílbrot að segja að hesturinn hafi fengið „frjálsar hendur“ til að gera það sem honum sýnist.

Jafnmikil stílleysa er að segja að mótmælendum hafi verið gefinn laus taumurinn vegna þess að það gefur til kynna að einhver, líklega lögreglan, hafi fylgst náið með, rétt eins og reiðmaðurinn sem gaf hestinum lausan tauminn.

Samkvæmt fréttinni missti lögreglan stjórn á mótmælendum og tóku sumir upp á því að ræna fyrirtæki. Afleiðingin af öllu þessu varð enda sú að lögreglustjórinn var rekinn. Þetta gerðist í París (ekki segja; „átti sér stað“ í París).

Tillaga: Eigendur verslana í nágrenninu voru sagðir ævareiðir þar sem mótmælendum gátu brotið allt og bramlað enda lögreglan fjarri.

2.

„Hrósaði fyrst og síðast leikmönnum fyrir að stíga upp í samræmi við gildi félagsins og berjast fyrir hver annan.“

Grein á blaðsíðu 12 í viðskiptablaði Morgunblaðsins 20.3.2019.           

Athugasemd: Þetta er óskiljaleg málsgrein í annars góðum pistli. Í ágætri bók segir að Jesú hafi stigið upp til himna. Allir skilja hvað átt er við. Vart hafa leikmennirnir farið að dæmi hans. Líklegast er þó að þeir hafi stigið upp á stól, upp á tröppu á leið sinni á næstu hæð eða eitthvað svoleiðis.

Furðuleg er sú árátta margra mætra manna að skrifa ensku með íslenskum orðum. Slíkt var framandi og illskiljanlegt en þykir nú svalt og flott, merki um að menn hafi komið til útlanda.

Við hin, þessi heimsku í upprunalegri merkingu þess orðs, hváum því við erum engu nær. Nokkrar líkur eru þá á því að einhver sem horft hefur á amrískar sakamálamyndir manni sig upp (ekki segja „stígi upp“) og spyrji trúr enskunni:

„Did they really step up or are you just kidding?“

Þetta síðasta er greinilega útidúr.

Tillaga: Hrósaði fyrst og síðast leikmönnum fyrir að taka sig á, berjast í samræmi við gildi félagsins, hjálpast að.

3.

Skömmu áður en flugvélin brotlenti þagði flugstjórinn, sem var frá Indlandi, en flugmaðurinn, sem var frá Indónesíu, biðlaði til guðs.

Frétt á visir.is.            

Athugasemd: Þetta er ekki góð málsgrein, auðvelt er að laga hana. Líklega hefur indverski flugstjórinn þagnað þó ekki sé rangt að segja að hann hafi þagað, ekki sagt neitt, hætt að tala. 

Indónesíski flugmaðurinn biðlaði ekki til guðs. Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina veit ekki hvað orðið þýðir.

Í malid.is segir að biðla merkir að biðja um hönd stúlku, sá sem biðlar er biðill. Þetta vita auðvitað allir sem alist hafa upp við lestur bóka og því ósjálfrátt safnað drjúgum orðaforða. Nánar er fjallað um sögnina að biðla hér og einni í þessum pistli.

Í stað tvítekningarinnar, nástöðunnar; „sem var frá“, hefði blaðamaðurinn átt að orða það svo að flugstjórinn væri indverskur og flugmaðurinn indónesískur. Lýsingarorðin sem dregin eru að landaheitum eru oft þægileg í notkun.

Heimild fréttarinnar er Reuters fréttamiðlunin. Þar er fréttin miklu ítarlegri. Tilvitnunin hér að ofan er úr þessari málsgrein frá Reuters fréttamiðuninni:

The Indian-born captain was silent at the end, all three sources said, while the Indonesian first officer said „Allahu Akbar”, or “God is greatest”, a common Arabic phrase in the majority-Muslim country that can be used to express excitement, shock, praise or distress.

Tveir æðrulausir menn, annar þegir og hinn ákallar Guð.

Tillaga: Skömmu áður en flugvélin brotlenti þagnaði indverski flugstjórinn en indónesíski flugmaðurinn bað til guðs.

4.

28 ára ástralskur þjóðernisöfgamaður, sem skaut 50 manns til bana í moskum í borginni Christchurch á Nýja-Sjálandi, …

Frétt á blaðsíðu 34 í Morgunblaðinu 21.3.2019.           

Athugasemd: Þrautreyndur blaðamaður Moggans byrjar málsgrein á tölustöfum. Hvergi í heiminum, að minnsta kosti ekki í vestrænum fjölmiðlum, tíðkast slíkt. Þetta hefur margoft verið nefnt á þessum vettvangi.

Hér er ágæt skýring á fyrirbrigðinu:

A number is an abstract concept while a numeral is a symbol used to express that number. “Three,” “3” and “III” are all symbols used to express the same number (or the concept of “threeness”). 

One could say that the difference between a number and its numerals is like the difference between a person and her name.

Ég hef áður nefnt þetta en núna ákvað ég að koma með erlendar tilvísanir til að sýna að þetta á ekki aðeins við íslensku. Hér er önnur tilvísun valin af handahófi í orðasafni Google frænda.

You should avoid beginning a sentence with a number that is not written out. If a sentence begins with a year, write "The year“ before writing out the year in numbers.

Getur það verið rétt hjá mér að fleiri og fleiri blaðamenn og skrifarar séu farnir að byrja setningar á tölustöfum? Sé svo er það slæm þróun. Tölustafir stinga oft í augun á prenti.

Tillaga: Tuttugu og átta ára ástralskur þjóðernisöfgamaður, sem skaut …

5.

„Auðvitað er Jón Gnarr rétti maðurinn til að hefja á loft fána fáránleikans í leikhúsinu, taka upp þráðinn þar sem Ionesco þraut erindið.

Leiklistargagnrýni á blaðsíðu 55 í Morgunblaðinu 21.3.2019.           

Athugasemd: Gagnrýnandinn er eflaust að snúa á lesendur. Sumir þeirra kunna að segja að þarna eigi að standa örendi. Hvort tveggja er rétt. Á malid.is segir:

erindi, erendi, †ørendi, †eyrendi h. ‘boðskapur, skilaboð; verkefni, hlutverk; málaleitan; fyrirlestur; vísa (í kvæði)’; sbr. fær. ørindi, nno. ærend, sæ. ärende, d. ærende; sbr. fe. æÌ„rende ‘boðskapur, sýslan’, 

Erindi í tilvitnuninni er hins vegar allt annað en skilaboð eða sýslan, þó það sé nátengt. Í Íslenskri orðsifjabók á malid.is segir:

1 örendi, †ørendi h. † ‘erindagerð, skilaboð,…’.

2 örendi, †ørendi h. † ‘sú stund sem unnt er að halda niðri í sér andanum, bil milli að- og útöndunar’; eiginl. ‘útöndun’. Af ör- (4) og andi (1). Sjá örendur.

Örendi er sem sagt augnablikið á milli að- og útöndunar. Hvað gerist þá þegar einhvern þrýtur örendið eða erindið.

Gísli Jónsson, íslenskukennari, sagði í þættinum Íslenskt mál í Morgunblaðinu 16.9.1989 og byrjar á því að vitna í Snorra Eddu:

„Þór lítur á hornið og sýnist ekki mikið, og er þó heldur langt. En hann er mjög þyrstur, tekur að drekka og svelgur allstórum og hyggur að eigi skal þurfa að lúta oftar að sinni í hornið. En er hann þraut erindið og hann laut úr horninu og sér hvað leið drykknum, og líst honum svo sem all-lítill munur mun vera að nú sé lægra í horninu en áður.“ [Hversu mikið sem Þór reyndi að drekka það sem var í horninu tókst honum það aldrei, reyndi þrisvar. innskot SS]

þrjóta erindi (eldra örendi) merkir þarna að geta ekki lengur andað frá sér, þurfa að anda að sér og neyðast þar með til þess að hætta að drekka.

Orðið örendi var skrifað nokkuð mismunandi fyrrmeir. Í þeirri merkingu, sem hér um ræðir, er það náttúrlega skylt lýsingarorðinu örendur = dauður. Ég held að ör sé þarna neitunarforskeyti og örendur því í raun sama sem andlaus, hættur að anda.

Sögnin að þrjóta (þraut, þrutum, þrotinn; 2. hljóðskiptaröð) er þrásinnis ópersónuleg með þolfalli: mig þrýtur eitthvað = mig skortir eitthvað, ég hef mist eitthvað, sbr. hluta úr ágætu kvæði Sigurðar Þórarinssonar náttúrufræðings.

Þar við mig þrýtur minni,
þaðan af veit ei par,
að við eigruðum út á stræti
ætlandi á kvennafar …

Frekari málalengingar eru hér með óþarfar. Hins vegar hefði höfundur málsgreinarinnar að skaðlausu mátt nota eldri útgáfuna, örendi, vegna þess að erindi hefur aðra merkingu í dag en á tímum Snorra. Hins vegar er það dálítið svalt að nota erindi, athygli lesandans vaknar.

Dálítið athyglisvert er að velta fyrir sér að örendi sé bilið milli að- og útöndunar. 

Á Breiðafirði og víðar það kallaður liggjandi bilið milli að- og útfalls. Þar siglu menn strauma á liggjandanum sem var hættuminna.

Eitthvað er það kallað þegar storminn lægir, lægðamiðjan gengur yfir, og svo hvessir aftur af annarri átt.

Loks má nefna að að í heita pottinum þagna stundum allir óvænt. Vera má vera að einhverjir hugsi sig um (sem er alltaf jákvætt). Nokkrum augnablikum síðar, hefst orrahríðin aftur. Þetta getur kallast kjaftstopp.

Tillaga: Engin tillaga gerð enda ekkert að málsgreininni.


Bloggfærslur 21. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband